Hörputilraunir halda áfram. Þetta kom virkilega vel út. Í raun átti ég til Hörpudisk í ískápnum sem ég varð að nota. Við höfðum svo gert burrata bruschetta líka með geggjuðu smátómata vinagrette og okkur datt í hug að nota sama vinagrette á hörpudiskinn. Þetta vinagrette er eitt af mörgu sem hægt er að finna á frábærri uppskriftasíðu halfbaked harvest. Mér finnst líka geggjað að steikja uppúr smjöri, það verður allt gott þannig, en Harpan þarf dálítið háan hita og þá brennur smjörið. Brúnt smjör brennur ekki eins auðveldlega og það gefur af sér dásamlegan karamellu hnetukeim.
Þetta kom ofsalega vel út.
Það sem þarf (fyrir ca 4)
Það er erfitt að ákveða magnið hér, ef þetta er forréttur þá eru það ca 3 hörpudiskar á mann þannig að 12 stk stór hörpuskel væri hentugt hér.
- 12 stóra hörpudiska
- Salt og pipar
- 2 hvítlauksrif, pressuð
- 120 g smjör
- Klettasalat og ferk basilica (má sleppa)
Fyrir kirsuberjatómata vinagrette
- 2 öskjur kirsuberjatómatar
- 1/3 bolli olífuolía
- 3 hvítlauksgeirar, saxaðir
- 2 mtsk ferskt timian
- Ca 1/2 tsk sterkar chiliflögur
- Ca 1 tsk sjávarsalt
- Ca 1/2 tsk pipar
- 2 mtsk kampavíns- eða hvítt balsamic edik
Aðferðin

Undirbúið hörpuna
Byrjið á að afþýða hörpudiskinn, helst í sólarhring inní í skáp. Takið svo út og latið standa á disk ofan á eldhusbréfi og leggið eldhúsbréf yfir líka.
Fínt að græja brúna smjörið. Smjör i pott á meðalhita. Látið malla þar til það er orðið gullin brúnt. Froða myndast ofan á og dökkar agnir falla út í botninn. Lyktin verður æðisleg, karamella og hnetur. Ég síaði smjörið svo í gegnum eldhúsbréf. Þannig er ég í raun að búa til eins konar ghee. Brúnt ghee kannski?
Kirsuberjatómata vinagrette
Takið fram pönnu, setjið ólifuolíu (1/3 bolli) á pönnuna, meðal hiti. Tómatarnir (2 öskjur) út á ásamt 3 söxuðum hvítlauksgeirum, 2 mtsk ferskt timian, um 1/2 tsk chili flögur, 1 tsk salt og 1/2 tsk nýmulinn pipar. Blandið þessu saman á pönnunni og látið malla þar til tómatarnir eru farnir að opnast og mýkjast vel. Ca 10 mín.
Takið pönnuna af hitanum og látið aðeins kólna í þessu. Hrærið svo saman 2 mtsk kampavíns – eða hvítu balsamic ediki. Ég átti það ekki til og notaði 1 mtsk hvítvínsedik og 1 mtsk balsamic edik.
Steikið hörpuna
Þerrið hörpudiskinn vel með eldhúsbréfi. Saltið og piprið aðra hliðina rétt áður en þið eldið. Setjið brúna smjörið á pönnuna og hitið dálítið vel.
Saxið hvítlauk (2 geirar) og setjið út á pönnuna
Raðið hörpunni á pönnuna í hring eins og klukku. Við viljum heyra snark þegar þeir fara á. Steiðkið í um 2-3 mín og snúið svo við í sömu röð og harpan var sett á pönnuna. Salt og pipar aftur og steikið í um 2 mín. Fer dálítið eftir stærð. Best að hafa prufu bita bara og taka tíma.

Raðið svo hörpudisk á disk og hellið vinagrette yfir. Ég setti klettasalat sem undirlag (aðalega sem skraut) og hörpuna yfir. Loks reif ég ferska basilicu yfir allt saman. Berið fram strax. Ég gerði það ekki en að rífa smá limebörk yfir væri líklega ansi næs.
Þið endið kannski með heldur rúmlegt af vinagrette, það er allt í lagi, setjið í krukku og notið síðar t.d. Yfir kjúklinginn eða ofan á burrata!
You must be logged in to post a comment.