Pönnusteiktur Hörpudiskur steiktur í brúnu smjöri með kirsuberjatómata vinagrette

Hörputilraunir halda áfram. Þetta kom virkilega vel út. Í raun átti ég til Hörpudisk í ískápnum sem ég varð að nota. Við höfðum svo gert burrata bruschetta líka með geggjuðu smátómata vinagrette og okkur datt í hug að nota sama vinagrette á hörpudiskinn. Þetta vinagrette er eitt af mörgu sem hægt er að finna á frábærri uppskriftasíðu halfbaked harvest. Mér finnst líka geggjað að steikja uppúr smjöri, það verður allt gott þannig, en Harpan þarf dálítið háan hita og þá brennur smjörið. Brúnt smjör brennur ekki eins auðveldlega og það gefur af sér dásamlegan karamellu hnetukeim.

Þetta kom ofsalega vel út.

Það sem þarf (fyrir ca 4)

Það er erfitt að ákveða magnið hér, ef þetta er forréttur þá eru það ca 3 hörpudiskar á mann þannig að 12 stk stór hörpuskel væri hentugt hér.

  • 12 stóra hörpudiska
  • Salt og pipar
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 120 g smjör
  • Klettasalat og ferk basilica (má sleppa)

Fyrir kirsuberjatómata vinagrette

  • 2 öskjur kirsuberjatómatar
  • 1/3 bolli olífuolía
  • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir
  • 2 mtsk ferskt timian
  • Ca 1/2 tsk sterkar chiliflögur
  • Ca 1 tsk sjávarsalt
  • Ca 1/2 tsk pipar
  • 2 mtsk kampavíns- eða hvítt balsamic edik

Aðferðin

Undirbúið hörpuna

Byrjið á að afþýða hörpudiskinn, helst í sólarhring inní í skáp. Takið svo út og latið standa á disk ofan á eldhusbréfi og leggið eldhúsbréf yfir líka.

Fínt að græja brúna smjörið. Smjör i pott á meðalhita. Látið malla þar til það er orðið gullin brúnt. Froða myndast ofan á og dökkar agnir falla út í botninn. Lyktin verður æðisleg, karamella og hnetur. Ég síaði smjörið svo í gegnum eldhúsbréf. Þannig er ég í raun að búa til eins konar ghee. Brúnt ghee kannski?

Kirsuberjatómata vinagrette

Takið fram pönnu, setjið ólifuolíu (1/3 bolli) á pönnuna, meðal hiti. Tómatarnir (2 öskjur) út á ásamt 3 söxuðum hvítlauksgeirum, 2 mtsk ferskt timian, um 1/2 tsk chili flögur, 1 tsk salt og 1/2 tsk nýmulinn pipar. Blandið þessu saman á pönnunni og látið malla þar til tómatarnir eru farnir að opnast og mýkjast vel. Ca 10 mín.

Takið pönnuna af hitanum og látið aðeins kólna í þessu. Hrærið svo saman 2 mtsk kampavíns – eða hvítu balsamic ediki. Ég átti það ekki til og notaði 1 mtsk hvítvínsedik og 1 mtsk balsamic edik.

Steikið hörpuna

Þerrið hörpudiskinn vel með eldhúsbréfi. Saltið og piprið aðra hliðina rétt áður en þið eldið. Setjið brúna smjörið á pönnuna og hitið dálítið vel.

Saxið hvítlauk (2 geirar) og setjið út á pönnuna

Raðið hörpunni á pönnuna í hring eins og klukku. Við viljum heyra snark þegar þeir fara á. Steiðkið í um 2-3 mín og snúið svo við í sömu röð og harpan var sett á pönnuna. Salt og pipar aftur og steikið í um 2 mín. Fer dálítið eftir stærð. Best að hafa prufu bita bara og taka tíma.

Raðið svo hörpudisk á disk og hellið vinagrette yfir. Ég setti klettasalat sem undirlag (aðalega sem skraut) og hörpuna yfir. Loks reif ég ferska basilicu yfir allt saman. Berið fram strax. Ég gerði það ekki en að rífa smá limebörk yfir væri líklega ansi næs.

Þið endið kannski með heldur rúmlegt af vinagrette, það er allt í lagi, setjið í krukku og notið síðar t.d. Yfir kjúklinginn eða ofan á burrata!

Pönnuristaður hörpudiskur í sítrónu rjómasósu á kóríander mauki

Ég er mjög hrifinn af hörpudisk en þetta er réttur sem ég hef ekki mikið vera að elda sjálfur í gegnum tíðina.  Það varð eiginlega vakning hjá mér á síðasta ári líklega í tengslum við gríðarlegt verðlag á humrinum sem einnig er í miklu uppáhaldi.  Humar er hins vegar í útrýmingarhættu og er erfitt að veiða hann nú orðið miðað við sem áður var.  Það er því dálítið góð tilfinning að gæða sér á hörpudisk vitandi það að maður er þá ekki að stuðla að brotthvarfi humarsins.

Alla vega, það eru komnar hér inn líklega 2-3 uppskriftir af hörpudisk, allt mjög gott að mínu mati. Núna á þrettándanum langaði mig að elda eitthvað gott sem parast vel með kampavíni eða hvítvíni en ég er alltaf kominn með hundleið á graflaxi, paté og öðrum jólamat þegar hingað er komið sögu.  Ég mundi þá eftir hörpudisknum og hve frábær hann er með búblunum.  Mig langaði að prófa eitthvað nýtt en þá er bara að googla.  Ég datt niður á þessa uppskrift og bætti aðeins við svona til að líka gera réttinn ögn fallegri.   Þetta kom ofsalega vel út og ég held að þessi sósa sé geggjuð með öðru sjávarfangi.  Í kvöld er ég t.d. að fara gera risarækju taco og ég ætla að prófa að marinera rækjurnar í þessari sósu.

En nóg um það.  Það sem þarf

  • Stór hörpudiskur, eins stór og þið komist í (fallegra), magn fer eftir hvort þið eruð með þetta sem forrétt eða aðalrétt.  Ég miða oftast við 3-4 á mann sem forrétt.
  • Fyrir saltpækil, 1 hluti heitt vatn á móti 1/3 hluta salt.  Ísmolar ca 1 bolli.
  • 2-3 mtsk smjör
  • 2-3 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • Safi úr einni sítrónu
  • Rifinn börkur af einni sítrónu
  • 1 msk Dijon sinnep (smakka bara til)
  • 1 dl rjómi en fer eftir smekk.  Stillið magn eftir þykkt sem þið viljið
  • 2 tsk ferskt dill
  • Svartur pipar eftir smekk

Ef þið gerið kóríander majóið

  • Heilt búnt af kóríander (stilkar og allt með), bætið við ef þarf að vera grænna
  • 2 dl majones eða þar um bil (stillið bara af eftir smekk)
  • 1 tsk steytt kóríanderfræ
  • 1 hvítlauksrif pressað
  • Mjólk ef þarf að þinna

Aðferð

Þetta er í fyrsta sinn sem ég nota saltpækil og ég er ekki frá því að útkoman er betri.  Byrjið á að afþýða hörpudiskinn, helst láta standa yfir daginn. Það má þó flýta fyrir og þýða í sigri undir rennandi köldu vatni.  Tekur um 30 mín. 

  1. Setjið heitt vatn í skál og 1/3 hlut salt og leysið upp.  Þegar saltið er nánast uppleyst er klökum bætt við.  Þegar pækill er orðinn kaldur setjið þið hörpudiskinn útí og látið standa í 10 mín. Takið svo hörpudiskinn uppúr og skolið með köldu vatni.   Leggið hörpudiskinn á eldhúsbréf og leggið eldhúsbréf einnig yfir.  Látið standa í 10 mín.  Reynið að þerra eins vel og þið getið á öllum hliðum.
  2. Rétt áður en harpan fer á pönnuna þá saltið og piprið létt á báðum hliðum.  Ég nota heita pönnu, ekki meðalhita eins og talað er um í þeirri uppskrift sem ég var að fylgja.  Hafið olíu á pönnunni. Raðið hörpunni á pönnuna eins og klukku.  Sem sagt í hring frá kl 1.  Þannig vitið þið hvaða harpa fór fyrst á pönnuna og svo koll af kolli.  Við erum að tala um ca 2 mín eða skemur, snúið þá hörpunni við.  Það ætti að vera komin falleg gulleit skorpa.  Setjið smör í bitum á pönnuna og mokið svo yfir hörpudiskinn.  Steikið í aðra ca 1-2 mín.  Við viljum ekki ofelda þannig að það er kannski best að taka frá bita og prófa.  Takið svo bitana af í þeirri röð sem þeir fóru á pönnuna og látið standa t.d. á eldhúsbréfi.
  3. Á sömu pönnu mýkið þið hvítlaukinn í 30 sek eða svo á meðalhita.  Bætið svo sítrónuberki og safanum saman við og skrapið allt þetta brúna og nánast brennda af pönnunni og blandið saman á pönnunni.  Steikið í um mínotu.  Slökkvið svo undir pönnunni og bætið rjóma og Dijon sinnepi samanvið og hrærið.  Stillið af þykkt með vatni eða meiri rjóma.  Smakkið til og bætið salti eða pipar við eftir smekk.  Já eða meira Dijon.  Ég gerði það ekki en það er mjög líklegt að hvítvín kæmi ofsalega vel út hér.  Sem sagt að nota hvítvín í sósuna til að bragðbæta!
  4. Þegar þið eru sátt þá bætið þið hörpudisknum aftur á pönnuna, blandið við sósuna og hitið upp á lágum hita í 2 mínotur.  Skreyti með fersku dilli.

Ég gerði svo kóríander majóið mitt en það er bara svo fallegt svona með og kóríanderinn kemur vel út með hörpudisknum.   Ef þið sleppið majóinu þá berið þið réttinn bara fram í pönnunni en annars er gaman að raða á hvern disk ef maður er í stuði.

5.Kóríander majo er mikilvægt að gera í t.d. nutribullet eða með töfrasprota sem maukar allt vel saman.  Ef blandan verður ekki nógu græn þá bætið þið meira kóríander útí.  Sem sagt, allt sett í blandara og maukað. 

Skreytið svo diska með grænum klessum og setjið hörpuna ofan á og berið fram.

Pönnusteiktur hörpudiskur á blómkálsmauki með chorizo kurli, skallotlauk og kóríander majónesi

Nú þegar humar er orðinn skammarlega dýr, við erum að tala um 16000 kr kg t.d. í Fiskikonginum (sem mögulega er með þeim dýrari reyndar) þá þarf að leita að öðrum hráefnum.  Það er í raun ekki réttlætanlegt borga þetta fyrr humar.  Hörpudiskur er góður kostur, þetta er eðal hráefni og um 4 sinnum ódýrari en humar.

Nú höfum við eldað hörpudisk einu sinni áður og það lukkaðist svakalega vel,sjá hér.  Við áttum til stóran flottan hörpudisk og Sigrún mín ákvað að koma mér á óvart í kvöld með frábæru kjúklinga tacho.  Í forrétt vildi hún hafa hörpudisk sem við áttum til í frysti.  Það var vel til fundið því við áttum flösku af Dom Perignon kampavíni sem við höfum bara ekki tímt að opna.  Planið var að opna flöskuna á brúðkaupsafmæli okkar fyrir áramótin en sökum veikinda slóum við því á frest.  Nú voru allir orðnir frískir og stemning góð og því slóum við til.  Hvað er svo betra með kampavíni en royal prótein eins og hörpudiskur?

Við skoðuðum nokkrar uppskriftir og enduðum á þessari, innblásið af Evu Laufey Kjaran. pönnusteiktur hörpudiskur á blómkálspúré með bökuðu chorizo kurli, smjörsteiktum skarlottlauk toppað með heimalöguðu kóríander majonesi.

Þetta var stórbrotið, vægast sagt.

wp-1578764913960.jpg

Það sem þarf í forrétt fyrir 4

  • Stóran flottan hörpudisk, 12 stk.
  • Hvítlauksgeirar, 2 stk smátt skorið
  • Skallotslaukur, smátt skorin, 2 stk
  • Smjör 2 msk ca
  • Olía til steikingar
  • salt eftir smekk
  • salt og pipar á hörpudiskinn
  • Sneidd chorizo pylsa, um 1/2 dl , ofnbakað og skorið í kurl

fyrir kóríander mayo

  • Ferksur kóríander, amk eitt búnt
  • Þurrkað kóríander krydd, 1 tsk
  • Létt majones, 1-2 dl
  • 1 msk léttmjólk
  • hvítlauksgeiri, hálfur (má sleppa)
  • Safi úr tæpum hálfum lime.

fyrir blómkálsmaukið

  • blómkálshaus, 1/2 stk
  • rjómi, 2-3 msk
  • smjör, 4 msk
  • hvítlaukur, 1/2 geiri
  • salt

bjórinn

  • Hér vorum við með kampavín af bestu sort sem algjörlega smell passar við hörpuna.  Hins vegar má vel nota bjór en þá þarf hann að vera mildur og ljúfur.  Ekki beiskir humlar eða brennt malt.  Ég sé fyrir mér belgískan blond eða mildan wild ale með smá sýru og funki.  Muna að við getum líka tengt við allt meðlætið, ekki bara hörpuna sjálfa.  Saison er líkl. frábær líka.  Margir möguleikar.

 

Aðferðin

Við fórum dálítið eftir uppskrift frá Evu Laufey en samt ekki alveg, þetta varð svo dálítið slump hjá okkur en kom svakalega vel út, í raun framar vonum.  Svo er ég mikill majones fíkill, ég elska að gera spicy majo, t.d. sriracha majo,  jalapeno majo, chipotle majo, wasabi majo ofl ofl.  Við hjónin elskum líka kóríander og því datt mér í hug að prófa að gera kóríander majones eða sósu kannski réttara sagt.   Kóríander majoið kom geggjað vel út og passaði mjög vel ofan á hörpidiskinn.

Blámkálsmaukið

Allt í lagi, byrjum á að sjóða blómkálið, ca 1/2 höfuð í létt söltu vatni.  Þegar það orðið mjúkt er það maukað í blender eða álíka, með smjöri um 2-4 msk, og rjóma, ca 2 msk.  Hér þarf dálítið að prófa sig áfram.  Byrjið á minna og sjáið bara hvernig áferðin verður.  Saltið til líka eftir smekk.  Útkoman á að vera silkimjúkt puré, ekki nein korn, ekki of þunnt, það þarf að vera hægt að sprauta þessu út með sprautuflösku.  Þetta er ótrúlega gott. Það má lauma hálfum hvítlauskgeira með til að krydda aðeins ef maður vill.

Meðlætið, chorizo pylsan og laukur

Við fengum bréf af sneiðum en það má auðvitað vera heil pylsa sem maður sker niður sjálfur.  Við settum sneiðar á smjörpappír og svo í ofn og bökuðum þar til orðið stökkt.  Þá er þetta skorið í smátt kurl sem fer svo ofan á hörpuna í lokin.

Skerið 2-3 skallotlauka og 2 hvítlauksgeira í smátt og mýkið á heitri poönnu í 2 msk smjöri og olíu.  Leggið svo til hliðar

wp-1578766004871.jpg

Kóríander majones

Þetta lukkaðist svo vel að ég mun klárlega gera þetta aftur og aftur, t.d. með öllu tachoinu sem ég er að fara gera á næstu mánuðum!   Ég notaði helling af kóríander, amk heilt búnt, lauf og stilkar.  Setjið þetta í blender, t.d. nutri bullet eða enn betra ef þið eruð með töfrasprota.  Svo er það létt majones, um 2 dl, hálfur hvítlauksgeiri og smá mjólk, ég notaði um 1 msk í raun bara til að gera þetta aðeins þynnra því það getur verið erfitt að mauka þetta saman ef of þykkt.  Til að skapa ögn sýru notaði ég safa úr tæplega hálfri límónu og loks til að fá enn meira kóríander bragð setti ég þurrkað kóríander um 1 tsk.  Maukið þessu öllu saman þar til þið endið með fallega pastelgræna sósu.  Smakkið til, það á að vera kóríander bragð, ef ekki nóg þá bætið þið bara við meira kóríander,.

Hörpuskelin

Það er ágætt að byrja að þerra hörpudiskinn í upphafi, leggið á eldhúsbréf og leggið eldhúsbréf yfir.  Skiptið annað slagið á þessu, það er mikilvægt að hafa þetta þurrt fyrir steikinguna.   Þið endið á að steikja hörpudiskinn þegar allt annað er klárt.

Stráið sjávarsalti og pipar yfir hörpudiskinn öðru meginn, hitið pönnu vel, olía á pönnu og raðið svo hörpudiski eins og klukku á pönnuna með kryddhliðina niður.  Þannig byrjið þið að setja einn kl 12, næsti kl 1 og svo hringinn. Salt og pipar yfir hörpudiskinn, steikið í 2 mín max og snúið í sömu röð og þið röðuðuð á pönnuna.  Steikið áfram í 1 – 1,5 mín.  Takið af pönnu frá kl 12 og réttsælis og látið standa á eldhúsbréfi þar til þið framreiðið.

Sprautið blómkálsmaukinu á fallegan disk, þrjár skellur, raðið svo 1 hörpudisk á ofan á hverja skellu, stráið chorizo kurli yfir, eins lauksmjörinu og efst kóríander majó.  Njótið!

Ljómandi pönnusteikt hörpuskel með beikonkurli og vorlauk á sellerírótar pureé!

Ég hef aldrei eldað hörpuskel en hef alltaf langað að prófa enda er þetta eitt besta prótein sem maður fær og ofsalega ljúffengt ef gert er rétt.  Ég leitaði víða að uppskrift, mig langaði að gera eitthvað með ekki of miklum sósum eða kryddum sem stela þrumunni frá viðkvæmri hörpuskelinni.  Þessi hljómaði vel og því lét ég á reyna.

Þetta sellerí pureé er alveg geggjað, ég mun svo sannarlega nota það með öðru próteini, t.d. Wellington steikinni á aðfangadag.

Það sem þarf (forréttur fyrir 6)

  • 1 kg stór hörpuskel (ferskt eða frosið)
  • salt og pipar eftir smekk
  • steikingarolía
  • hálft bréf af þykku beikoni, skorið mjög fínt
  • eitt búnt af vorlauk, skorið fínt
  • nokkur kóríander blöð til skrauts
  • æt smáblóm ef menn vilja skreyta (fæst í Krónunni)

fyrir sellerírótar pureé

  • 1,5 bolli sellerírót sem búið er að skræla og skera niður í litla kubba
  • 1/4 L rjómi
  • 1/4 bolli mjólk
  • 1/2 mtsk smjör
  • 1 hvítlauksgeiri fínt skorinn
  • 1 tsk salt
  • 1/4-1/2 tsk pipar

fyrir pækluðu eplin (þetta er upp úr mér bara)

  • hálft grænt epli, skorið í þunnar sneiðar
  • hvítvínsedik , ca 5-6 mtsk eða nóg til að hylja alveg eplin
  • 1 tsk piparkorn
  • 1/2 tsk anis krydd
  • 1 msk sykur
  • 1 tsk kóríander fræ (má sleppa)
  • ögn fínt skorinn rauður chili

Aðferð

Byrjið á pækluðu eplunum.  Skerið grænt epli í örþunnar sneiðar.  Setjið hvítvínsedik, ca 5-6 msk eða nóg til að hylja eplin í lítinn pott, ásamt sykri, pipar, anis kryddi, kóríanderfræum og chili.  Sjóðið létt þar til sykurinn er uppleystur.  Setjið eplasneiðarnar í box og hellið edikinu úr pottinum yfir.  Leggið til hliðar.

Svo er það sellerírótin, skerið hvítlauksgeira í smátt og mýkið í smjöri í stórum potti, Skrælið sellerírótina, 1/4 úr haus er líkl. nóg.  Skerið svo í litla kubba, sem fylla 1.5 bolla og bætið í pottinn ásamt 1/4 L rjóma (1 peli), og 1/4 bolla mjólk.   Saltið og piprið og látið svo malla undir loki í 15 mín.  Passa að sjóði ekki uppúr eða brenni við.

Þegar sellerírótarkubbarnir eru orðnir mjúkir lofið þið þessu að kólna aðeins og svo færið þið allt innihald pottsins yfir í matvinnsluvél og maukið þar til þið eruð komin með silkimjúkt mauk án korna.  Passið að gera þetta ekki í lokaðri vél eins og nutribullet eða álíka ef of heitt því þá er mikil hætta á sprengingu.

Setjið svo maukið í sprautuflöskur og setjið til hliðar.

Hendið beikon inn í ofn og eldið þar til orðið stökkt.  Skerið svo í örlilta kubba eða kurl og leggið til hliðar.  Skerið vorlauk fínt og leggið líka til hliðar.

Nú er allt klárt fyrir hörpuskelina.  Leggið bitana á eldhúsbréf og þerrið vel að ofan líka.  Þeir eiga að vera eins þurrir og þið getið áður en þið steikið þá.  Saltið og pipri svo aðra hliðina, hitið olíu á pönnu þannig að hún sé vel heit.  Raðið svo bitunum með kryddhliðina niður í hring á pönnuna. Fínt að byrja efst og fara svo eins og klukka allan hringinn.  Þá munið þið hvaða biti fór fyrst á pönnuna.

Steikið í um 2 mín, alls ekki lengur, snúið svo bitunum og steikið í 1- 2 mín í viðbót.  Þetta á að vera gyllt og fallegt.  Kryddið líka þessa hlið með salti og pipar.  Raðið svo á disk með eldhúsbréfi til að stöðva eldunina og þerra olíuna af.

Til að bera þetta fram.  Sprautið sellerímaukinu á disk, 3-4 stóra dropa, leggið svo einn hörpudisk á hvern dropa og stráðið beikon kurlinu og vorlauk yfir hvern bita.  Loks skerið þið pækluðu eplin í hæfilega sneiðar og leggið yfir hvern bita.  Síðast leggið þið kóríanderblað efst.

wp-1577047102877.jpg

Pörunin

Ég var ekki með bjór þetta köld, ég átti hann bara ekki til.  Hins vegar er ósætt hvítvín eða jafnvel þurrt freyðivín fullkomið með.  Við vorum með ljómandi LaCheteau Sancerre með sem kom afskaplega vel út. Ef ég ætlaði í bjórinn myndi það líklega vera þægilegur súrbjór eða wilda ale.  Prófa það næst.  Hvað sem maður velur verður að passa að drykkur sé ekki of öflugur og steli öllu frá hörpuskelinni, ég myndi líka heldur vija súrt þurrt frekar en eitthvað of sætt með.

Njótið!