Ljómandi pönnusteikt hörpuskel með beikonkurli og vorlauk á sellerírótar pureé!

Ég hef aldrei eldað hörpuskel en hef alltaf langað að prófa enda er þetta eitt besta prótein sem maður fær og ofsalega ljúffengt ef gert er rétt.  Ég leitaði víða að uppskrift, mig langaði að gera eitthvað með ekki of miklum sósum eða kryddum sem stela þrumunni frá viðkvæmri hörpuskelinni.  Þessi hljómaði vel og því lét ég á reyna.

Þetta sellerí pureé er alveg geggjað, ég mun svo sannarlega nota það með öðru próteini, t.d. Wellington steikinni á aðfangadag.

Það sem þarf (forréttur fyrir 6)

  • 1 kg stór hörpuskel (ferskt eða frosið)
  • salt og pipar eftir smekk
  • steikingarolía
  • hálft bréf af þykku beikoni, skorið mjög fínt
  • eitt búnt af vorlauk, skorið fínt
  • nokkur kóríander blöð til skrauts
  • æt smáblóm ef menn vilja skreyta (fæst í Krónunni)

fyrir sellerírótar pureé

  • 1,5 bolli sellerírót sem búið er að skræla og skera niður í litla kubba
  • 1/4 L rjómi
  • 1/4 bolli mjólk
  • 1/2 mtsk smjör
  • 1 hvítlauksgeiri fínt skorinn
  • 1 tsk salt
  • 1/4-1/2 tsk pipar

fyrir pækluðu eplin (þetta er upp úr mér bara)

  • hálft grænt epli, skorið í þunnar sneiðar
  • hvítvínsedik , ca 5-6 mtsk eða nóg til að hylja alveg eplin
  • 1 tsk piparkorn
  • 1/2 tsk anis krydd
  • 1 msk sykur
  • 1 tsk kóríander fræ (má sleppa)
  • ögn fínt skorinn rauður chili

Aðferð

Byrjið á pækluðu eplunum.  Skerið grænt epli í örþunnar sneiðar.  Setjið hvítvínsedik, ca 5-6 msk eða nóg til að hylja eplin í lítinn pott, ásamt sykri, pipar, anis kryddi, kóríanderfræum og chili.  Sjóðið létt þar til sykurinn er uppleystur.  Setjið eplasneiðarnar í box og hellið edikinu úr pottinum yfir.  Leggið til hliðar.

Svo er það sellerírótin, skerið hvítlauksgeira í smátt og mýkið í smjöri í stórum potti, Skrælið sellerírótina, 1/4 úr haus er líkl. nóg.  Skerið svo í litla kubba, sem fylla 1.5 bolla og bætið í pottinn ásamt 1/4 L rjóma (1 peli), og 1/4 bolla mjólk.   Saltið og piprið og látið svo malla undir loki í 15 mín.  Passa að sjóði ekki uppúr eða brenni við.

Þegar sellerírótarkubbarnir eru orðnir mjúkir lofið þið þessu að kólna aðeins og svo færið þið allt innihald pottsins yfir í matvinnsluvél og maukið þar til þið eruð komin með silkimjúkt mauk án korna.  Passið að gera þetta ekki í lokaðri vél eins og nutribullet eða álíka ef of heitt því þá er mikil hætta á sprengingu.

Setjið svo maukið í sprautuflöskur og setjið til hliðar.

Hendið beikon inn í ofn og eldið þar til orðið stökkt.  Skerið svo í örlilta kubba eða kurl og leggið til hliðar.  Skerið vorlauk fínt og leggið líka til hliðar.

Nú er allt klárt fyrir hörpuskelina.  Leggið bitana á eldhúsbréf og þerrið vel að ofan líka.  Þeir eiga að vera eins þurrir og þið getið áður en þið steikið þá.  Saltið og pipri svo aðra hliðina, hitið olíu á pönnu þannig að hún sé vel heit.  Raðið svo bitunum með kryddhliðina niður í hring á pönnuna. Fínt að byrja efst og fara svo eins og klukka allan hringinn.  Þá munið þið hvaða biti fór fyrst á pönnuna.

Steikið í um 2 mín, alls ekki lengur, snúið svo bitunum og steikið í 1- 2 mín í viðbót.  Þetta á að vera gyllt og fallegt.  Kryddið líka þessa hlið með salti og pipar.  Raðið svo á disk með eldhúsbréfi til að stöðva eldunina og þerra olíuna af.

Til að bera þetta fram.  Sprautið sellerímaukinu á disk, 3-4 stóra dropa, leggið svo einn hörpudisk á hvern dropa og stráðið beikon kurlinu og vorlauk yfir hvern bita.  Loks skerið þið pækluðu eplin í hæfilega sneiðar og leggið yfir hvern bita.  Síðast leggið þið kóríanderblað efst.

wp-1577047102877.jpg

Pörunin

Ég var ekki með bjór þetta köld, ég átti hann bara ekki til.  Hins vegar er ósætt hvítvín eða jafnvel þurrt freyðivín fullkomið með.  Við vorum með ljómandi LaCheteau Sancerre með sem kom afskaplega vel út. Ef ég ætlaði í bjórinn myndi það líklega vera þægilegur súrbjór eða wilda ale.  Prófa það næst.  Hvað sem maður velur verður að passa að drykkur sé ekki of öflugur og steli öllu frá hörpuskelinni, ég myndi líka heldur vija súrt þurrt frekar en eitthvað of sætt með.

Njótið!