Ís er eitthvað sem all flestir geta tengt við en ísinn er oft stór hluti af lífi fólks, hver kannast ekki við ísbíltúrinn á sunnudögum? Ég þekki held ég engan sem finnst ís beinlínis vondur en auðvitað er áhugi fólks á ís mis mikill. Sem barn var ég auðvitað mikill ísáhugamaður en í seinni tíð hins vegar hefur þessi spenningur dalað töluvert, líklega vegna þess að ég hef bara ekki komist í almennileg gæði síðustu ár. Ég man enn eftir geðshræringunni sem ég upplifði þegar ég fyrst smakkaði ítalska ísinn, gelato. Þá vorum við Sigrún að þvælast á interrail á Sikiley fyrir ríflega 20 árum síðan, ég var rétt um tvítugt. Reyndar smökkuðum við fyrst ítalskan gelato í Vín nokkrum dögum áður sem var alveg mindblowing en okkur fannst samt meira „alvöru“ að borða gelato á Ítalíu, nánar tiltekið Taormina á Sikiley. Ég man að þarna var ég að upplifa eitthvað alveg nýtt, ég hafði ekki getað ímyndað mér að ís gæti bragðast svona dásamlega. Eftir heimkomuna leit ég ís öðrum augum og allt þetta fjöldaframleidda Kjörís og Emmessís ævintýri var í mínum augum algjört plat og ég hætti að borða ís, mér fannst hann bara ekkert spes. Síðan liðu mörg ár þangað til menn fóru að fikta við handverks ís (craft ís) hér heima með misgóðum árangri reyndar.

Ég tek það fram að við erum engir sérstakir íssérfræðingar hér á B&M ef slíkt er til, en við höfum gaman að því að dekra við bragðlauka og borða eitthvað gott. Við vorum á dögunum í Róm og notaðuðum tækifærið og prófuðum nokkrar ísgerðir eftir að hafa lesið okkur aðeins til og viti menn, ég fann aftur þessar sömu tilfinningar og þarna fyrir rúmum 20 árum í Taormina. Það helltust yfir mig minningar um hvernig við höfðum uppgötvað ís í fyrsta sinn, þvílík gæði, ég hafði bara gleymt þessu. Við prófuðum nokkrar ísgerðir í Róm og fengum staðfestingu á því að ítalskur ís er ekki góður bara af því að hann er gerður á Ítalíu því það er aragrúi af „plat“ ísgerðum þarna sem gera ekki alvöru gelato heldur fjöldaframleiddan „túrista ís“ með viðbættum bragðefnum og án allrar alúðar. Eftir að hafa smakkað t.d. ísinn á Gelateria La Roma, já og reyndar Il Gelatone líka þá var bara ekki aftur snúið. Þar á bæ búa menn til ísinn á staðnum og nota hágæða hráefni til að fá fram mismunandi bragð og áferð, ekki innantóm bragðefni eins og svo oft er. Áferðin og bragðið er eitthvað sem erfitt er að lýsa en þetta var magnað, maður finnur að það er alvöru vanilla, alvöru mango, súkkulaði og allt hitt í ísnum. „Kúlurnar“ eru svo ekki kúlur heldur silkimjúkar klessur sem eru smurðar á formin dálítið eins og smjörklípur, auðvitað án fitubragðs . Nú mætti ætla að stemningin í Róm hefði áhrif á upplifunina en ég get sagt ykkur að ég henti stundum ís beint í ruslið þarna úti því þegar maður er búinn að smakka gelato eins og hann á að vera þá verður erfitt að borða túrista ísinn.
Við höfum ákveðið að skoða betur ísmarkaðinn hér heima í þeirri von að finna eitthvað sem líktist þessari hamingju. Í sumar mun Bjór & Matur skoða ísinn í borginni og jafnvel víðar í von um að finna eitthvað sem kemst hvað næst alvöru ítölskum gelato, við erum ekki að fara smakka Kjörís eða Emmessís enda á það bara ekkert skilt með gelato, nema kannski að vera kallað ís? Við munum fyrst og fremst dæma eftir bragði og útliti en einnig skiptir þjónusta og umhverfi máli. Meginn fókusinn verður á ítalska ísinn en ef ef við dettum niður á eitthvað skemmtilegt og ljúffengt og kannski dálítið öðruvísi munum við skoða það líka. Ef þið hafið ábendingar um góða ísgerð eða ísbúð þá endilega sendið okkur línu og skiljið eftir skilaboð á fésbókinni. Þetta verður gott sumar….þó það verði ekki sól 🙂
You must be logged in to post a comment.