Náttúruvín eru nýjasta æðið hér heima, ég kýs að kalla þau craft vín eða handverks vín til að reyna að aðskilja þau frá hefðbundum vínum. Bæði er vandað og gott en náttúruvínin eru bara svo flippuð og geðveik og allt annað en maður á að venjast. Bjór & Matur hefur verið að skoða þetta fyrirbæri undanfarið og við erum bara rétt að byrja.
Við höfum verið að smakka vínin á Micro Roast Vínbar en þar er myndarlegt úrval náttúruvína, það voru nokkur sem stóðu uppúr fyrir okkur, Susucaro frá Frank Cornelissen er eitt þeirra en þetta er gríðarlega skemmtilegt rósavín með einstakan karakter. Það þýðir ekkert að reyna að lýsa víninu hér svo vel sé, maður verður bara að smakka. Það er þó hægt að segja að það er létt og þægilegt, dálítið berjað en svo er skemmtilegur öskukeimur í bakgrunni. Jább það er ekki að undra því vínið kemur frá vínvið sem ræktaður er í um 600-1000 m hæð í hlíðum Etnu á Sikiley líkt og öll hin Frank Cornelissen vínin. Vínið er gert úr blöndu af þrúgum, Malvasia, Moscadella, Cattaratto og Nerello Mascalese. Ég viðurkenni að ég þekki þessar þrúgur ekki neitt, nema Malvasia en það skiptir engu máli, útkoman er geggjuð. Susucaru er eins og allt sem kemur frá Frank Cornelissen eins náttúrulegt og það gerist en þess má geta að hann gerir líka ólifuolíur af bestu sort.
Ár hvert gerir Frank 25.000 flöskur af þessu víni og því er ekki hlaupið að því að komast yfir flösku. Um þessar mundir er þó hægt að finna slatta á Micro Roast og ég sá líka að The Coocoo´s Nest voru að leika sér með matarpörun og Susucaru. Það er kannski líka hægt að sérpanta frá innflytjanda Berjamó via ÁTVR?
Susucaru er fyrsta vínið sem við smökkum frá Frank Cornelissen en það verður klárlega ekki það síðasta. Edda hjá Berjamó lumaði því að mér að það væri von á fleiri vínum frá þeim á næstu misserum og þá held ég fast í vonina að MunJebel skjóti upp kollinum en miðað við það sem við höfum lesið um vínið þá verður það einhver rosaleg upplifun. Sjáum hvað setur!