Session Craft Bar, stál og stíll og geggjaður craft bjór

Það er kominn nýr bjórbar á besta stað í henni Reykjavík, Session Craft Bar við Bankastræti 14 (fyrir ofan Subway).  Það eru þeir Maggi, Ási og Villi sem koma að þessu að mestu leiti og reka staðinn.  Allt eru þetta miklir fagmenn og áhugamenn í handverksbjór en þessir guttar hafa m.a. fært okkur ölið á einum besta bjórstað borgarinnar Mikkeller & Friends Reykjavík og ættu að kunna handtökin, svo eru þeir líka sjálfir að brugga bjór (Maggi og Villi) undir merkjum mono. Brewing Project sem sumir kannast við frá Bjórhátíð á Kex 2018.  Magnús Már Kristinsson þekki ég nokkuð til og veit því að Session bar er í góðum höndum.  Það kæmi okkur því ekkert á óvart hér hjá B&M ef þessi nýji bar myndi tilla sér í efstu sæti yfir bestu bjórstaði landsins á næstu misserum ef vel er haldið að spöðunum.

En hvað gerir annars bjórbar að góðum bjórbar eða „besta“ bjórbar borgarinnar kann einhver að spyrja?  Að okkar mati er svarið alls ekki einfalt, það þarf nefnilega að taka margar breytur með í reikninginn en efst á blaði er eftirfarandi,  þekking starfsfólks á því sem þeir eru með í höndunum, þjónusta og viðmót og geta til að ráðleggja forvitnum nýgræðingum, gæði bjórsins er auðvitað algjörlega efst á blaði og úrval skiptir auðvitað miklu, það er ekki nóg að vera með 30 dælur af bjór sem allur er eins eða svipaður t.d. loks er umhverfi og stemning líka mikilvægur þáttur.  Nú er Session Craft Bar bara rétt að stíga sín fyrstu skref og kannski of snemmt og ósanngjarnt að dæma strax en þetta byrjar samt vel hjá þeim strákum.

20180727_164729-01.jpeg

Ég valdi reyndar versta dag sumarsins til að kíkjá á Session, einn af 4 sólardögum sumarsins og því ekki beint inniveður en maður lætur sig hafa sig út í eitt og annað fyrir góðan bjór ekki satt?  Barinn er rúmgóður, bjartur með stórum og flottum gluggum sem snúa að Laugavegi sem iðar allur af lífi í sumarsólinni. Staðurinn er allur hinn glæsilegasti, stílhreinn og gljáfagður, stál og stemning.  Sumir myndu kannski segja kuldalegur, en ég kann vel við þetta svona.  Reyndar stendur til að „hugga“ þetta dálítið upp með myndlist og gróðri sem er hið besta mál.  Andrúmsloft hreint og ekki óþolandi hávaði og músík, ég var reyndar að heimsækja staðinn á föstudegi á rólegum tíma í kringum 17:00 en ég er nokkuð viss um að troðinn staður komi samt vel út hvað þetta varðar en það á svo sem eftir að skoða það.  Á svona stað þarf nefnilega að vera hægt að spjalla saman í rólegheitum, t.d. um bjórinn og allar hinar dásemdar víddir hans, en ekki öskra yfir borð.  Maður fer annað til að dansa og öskra. Það eru 16 dælur í húsinu, 12 fyrir bjór þegar ég kom í heimsókn og tvær fyrir tilbúina kokdilla frá Mikropolis (BRUS í Kaupmannahöfn). Í dag var þetta ca 90% bjór frá nýjum íslenskum örbrugghúsum á krana, Malbygg, RVK Brewing og Ölverk svo eitthvað sé nefnt, rest erlendur bjór.  Það er svo sem engin stefna komin í þetta enn sem komið er skilst mér, þ.e.a.s hvort planið sé þessi 90% íslenskt og tveir kranar fyrir kokdilla, líklega eru það bara straumar og vindar sem munu ráða för Á næstunni en svona var þetta alla vega í dag.  Ég veit svo að þeir luma á Alefarm kútum sem þeir munu vonandi tengja innan tíðar. Veisla sko, ekki missa af því!

Flösku/dósa úrval var lítið en þetta er allt á byrjunarreit svo sem.  Reyndar var ég svo heppinn að þegar ég leit við var Maggi einmitt að kæla nokkrar Alefarm dósir , Surfaced og Folding Water, báðir geggjaðir NEIPA karlar sem munu rjúka út þegar þeir fara í sölu, „Come and getit“.  Svo er hægt að fá Pilsener Urquell og….wait for it….Coors Light dósir, ja hérna hér.  Já, hér er bara eitthvað fyrir alla svei mér þá, fólk sem vill alvöru bjór og svo hina sem vilja ekki alvöru bjór!  Í þessu samgengi verð ég svo að benda á að gamli góði Löwenbrau er hér á krana ef menn vilja smá nostalgíu….líklega eini barinn á landinu með þennan á krana?  Já það er undarlega gaman að þessu.

20180727_170430-01.jpegKlósettin eru snyrtileg og einföld, og fyrir okkur standandi pissandi er bara ein stálrenna sem maður skilar af sér í , ekkert vesen og svo HILLA til að tilla bjórnum sínum á.  Það er nefnilega mikilvægara en margan grunar að geta tekið ölið með sér á klósettið og lagt það frá sér meðan maður athafnar sig.  Maður vill EKKI skilja drykkinn sinn eftir óvarinn frammi í sal, þetta segi ég sem læknir með óþægilega mikla reynslu af afleiðingum þessa.  Þó svo að- Session Craft Bar sé líklega með öruggari stöðum hvað þetta varðar þá er góð vísa bara ekki of oft kveðin.  Alla vega, hér er kominn flottur bar á frábærum stað í borginni sem mun án efa færa okkur það besta sem er að finna á bjórsviði okkar Íslendinga í framtíðinni.  Fylgist með þessum ef þið hafið áhuga á góðu öli!