Það er ekki víst að allir viti það en það er kominn lítill sælureitur í henni Reykjavík. Þ.e.a.s. ef þú ert fyrir það að senda bragðlaukana þína í langþráð og fullkomlega verðskuldað dekur. Við eru erum að tala um Micro Roast – Vínbar í Mathöllinni á Granda. Sælureitur segi ég af því að ég gæti eytt öllum mínum stundum hér…eða næstum því, þessi litli staður er nefnilega eins og sérhannaður fyrir einmitt mig og sennilega marga aðra ef út í það er farið!
Þessi litla perla býður nefnilega uppá þrjár af fimm lífsins nautnum, handverks bjór (craft beer) af bestu sort frá íslenskum ör-brugghúsum, geggjað „craft“ kaffi og vín eins og þig hefur aldrei einu sinni dreymt um, náttúruvín og Burgundy af bestu sort. Og haltu þér….öll vínin er hægt að kaupa í glasavís og þá meina ég öll vínin, allt frá hinu geggjaða Camille Giroud Charmes Chambertin 2015 niður í notalegt og nett Louis Michel Petit Chablis 2016. Já, þeir eru með sérstaka græju sem pumpar upp vínið í gegnum korktappann án þess að hafa nokkur áhrif á gæði vínsins og þannig endast flöskurnar óáreittar í dágóðan tíma. Það er engin þörf á að opna flöskurnar.
Náttúrúvínin eru dálítið að skjóta upp kollinum hér heima um þessar mundir og ég hef aðeins fjallað um þau hér. Við erum að tala um dásamleg lifandi vín allt frá freyðandi rauðvínum í gruggug funky hvítvín eða sturluð bleik rósavín sem skilur mann eftir agndofa. Ef maður ætti að bera saman náttúruvín og hefðbundin vín þá er munurinn dálítið eins og nýkreistur appelsínusafi með öllu hratinu og án viðbætts sykur vs tandurhreinan sykraðan safa úr fernunni án aldinkjöts, sem getur sannarlega verið góður líka en þetta er samt tvennt ólíkt. Micro Roast – Vínbar er líklega sá staður sem býður eitt mesta úrval náttúruvína hér í borg um þessar mundir en ekki er hægt að kaupa þessi vín í Vínbúðunum sem stendur nema kannski að sérpanta þau eftir einhverjum krókaleiðum. Við ákváðum því að kíkja á Micro Roast og smakka náttúruvínin þeirra enda er Bjór & Matur mikið áhugafólk um þessi mögnuðu vín sem eiga svo margt sameiginlegt með elstu bjórstílum veraldar.
Burgundy vínin
Það voru þeir Halldór og Arnar sem tóku á móti okkur á þessum huggulega miðvikudags eftirmiðdegi, báðir miklir vínkarlar og fagmenn. Halldór sem er framkvæmdastjóri staðarins, kaffinörd og mikill Burgundy unnandi, fræddi okkur um hugmyndafræði Micro Roast – vínbar á meðan Arnar (vínbóndinn.is) ferjaði í okkur náttúruvín af ýmsum litum og gerðum. Náttúruvínin hjá þeim eru ýmist frá Ítalíu eða Frakklandi um þessar mundir en svo eru þeir auk þess með myndarlegan lista af rauðu og hvítu frá Burgundy héraði í Frakklandi og búblur frá Champagne. Það var virkilega gaman að heyra Halldór tala um vínin og vínbændurnar sem hann hefur hitt í eigin persónu marga hverja. Ástarsamband hans við Burgundy var augljóst. Við fengum að smakka tvö óaðfinnanleg Burgundy vín hjá honum og ég verð að viðurkenna að þessi samskipti okkar hafa kveikt aðeins í okkur, við munum klárlega skoða hin Burgundy vínin hjá þeim við tækifæri og ekki væri verra að hafa Halldór með í því.
Kaffi, bjór og vín.
Halldór sagði okkur að Micro Roast væri óháður vínbar sem sérhæfir sig í Burgundy vínum, náttúruvínum og íslenskum handverks bjór. Já það er nefnilega einnig flott úrval bjórs á 5 dælum staðarins, allt bara frá litlu íslensku örbrugghúsunum okkar sem eru að gera það gott um þessar mundir, s.s. Malbygg, KEX Brewing og Ölvisholt Brugghús svo eitthvað sé nefnt. Það er auðvitað breytilegt hvað er undir hverju sinni og því vert að fylgjast með. Stóru brugghúsin eiga ekki pláss þarna, sorry! Kaffið er einnig í brennidepli hjá þeim á Micro Roast sem er eins og nafnið gefur til kynna eins konar ör-kaffibrennsla ef svo má segja , undir hatti Te og Kaffi , en hér fá kaffigúrúarnir hjá Te og Kaffi tækifæri til að leika sér með mismunandi ristun og hinar ýmsu kaffibaunir frá hinum ýmsu kaffibændum. Allt 100% arabica auðvitað. Þetta er þannig eins konar craft kaffi, tilraunir sem enda svo á kvörnunum á Mircro Roast – vínbar og sem gestir geta prófað að sjálf sögðu. Kaffilistinn er stöðugt að breytast líkt og allir listar staðarins ef út í það er farið. Það koma nefnilega stöðugt inn ný vín og önnur detta út. Kaffið er framreitt á ýmsu formi, þú færð þannig klassíska espresso drykki úr vélinni þeirra eða uppáhellt á gamla mátann með hinum ýmsu græjum. Þetta er bara geggjað.

Hér getur maður sem sagt komið til að fá sér frábærann kaffibolla í munninn sinn, ekki verra ef Egill er á staðnum til að kokka einhvern töfradrykkinn, eða prófað sig áfram í vínum og bjór með góðum vinum ef á að gera vel við sig. Crue-ið á staðnum er til taks til að leiðbeina en það er mikilvægt þegar maður er að forvitnast um nýja drykki á hvaða formi sem er. Svo eru það náttúruvínin sem var svo sem megin ástæða heimsóknar okkar þennan miðvikudag. Hér færðu sko náttúrúvín!
Náttúrúvínin
Við fengum að smakka ein 7 náttúruvín, öll svo mismunandi og öll svo góð. Þau gætu hafa verið fleiri, ég bara man það ekki. Arnar byrjaði að færa okkur vín úr léttari endanum eins og lög gera ráð fyrir, við fengum fyrst notalegt og létt ítalskt prosecco frizzante (hálffreyðandi) náttúruvín sem var kannski heldur sætt fyrir okkar smekk en eitthvað sem ég held að flestir geti drukkið…crowd pleaser eins og ég kalla það stundum. Svo kom skemmtilegt hvítvín, létt og laglegt með ögn karakter, líka gott en nokkuð „save“ en svo byrjaði ballið. Arnar færði okkur hverja bragðsprengjuna á fætur annari með fróðleiksmolum um hvert vín sem okkur var fært með mikilli innlifun. Það er nefnilega eitt að drekka gott vín en allt annað að drekka sama vín og vita eitthvað um bakgrunninn, svitann og tárin og svo ég tali nú ekki um ástina og alúðina sem fór í það að færa manni akkúrat þetta vín. Ómetanlegt. Maður myndi kjósa að hafa alltaf svona vínkarl með sér þegar maður ætlar að gera vel við sig en það er víst ekki hægt, það er þó hægt að notast við vinalegt starfsfólkið á Micro Roast sem er viljugt til að gefa ráð um kaffi, bjór og vín, já og Arnar „Vínbóndi“ er meira að segja stundum á staðnum.
Það skal tekið fram hér að við erum ekki að tala um klassísk eikuð rauðvín eða berjuð og clean hvítvín heldur spriklandi, lifandi og nokkuð ögrandi vín sem kalla á virðingu og opinn hug. Ef þú ert að leitast eftir mjúku þéttu Barolo eða hressandi og svalandi, kristal tært Chardonnay þá ertu á villugötum, bíddu með náttúruvínin um stund. Vínin sem stóðu uppúr hjá okkur þetta kvöld voru bæði orange vínin sem þeir bjóða uppá, Sébastian Riffault Auksinis Sancerre 2013 og Cantina Giardino Paski 2015, klikkuð vín með gruggi og lífi. Orange hefur ekkert með appelsínur að gera, bara liturinn minnir á ávöxtinn en hér fær vínið að liggja á vínberjahýðinu sem ekki er vaninn í hvítvínsgerð. Vínið fær þannig meira bragð og fyllingu frá hýðinu og svo litast það aðeins og verður meira gyllt. Þessi vín voru svakaleg, dálítið krydduð og funky eins og lambic eða gueuze bjórheimsins. Hið freyðandi rauðvín, Zanotto Col Fondo Rosso Frizzante kom svakelga á óvart og verður klárlega á okkar borðum um ókomin kvöld, þvílík dásemd, létt freyðandi og klikkað rauðvín og loks var það Susucaru frá hinum snargeggjaða Belga Frank Cornelissen en hann ræktar þrúgur sínar í hlíðum Etnu á Sikiley sem er eins og flestir vita virkt eldfjall. Já vínin hans Franks eru dálítið sturluð og langt út fyrir öll box en ganga svo sannarlega upp. Ég held svei mér þá að ég hafi ekki smakkað betra rósavín á minni lífsleið. Frank Cornelissen vínin eru álíka fágæt og þau eru góð og allir eru að eltast við þau. Það eru því dálítil forrétindi að komast í sopa frá þessum gaur. Susucaru er einfaldlega geggjað vín sem ég held bara að þú verðir að prófa…strax því þetta er að klárast.

Já það voru svo sem fleiri vín góð en það er ekki hægt að fjalla um þetta allt….þetta er þegar orðið allt of langt.
Boðskapurinn er einfaldlega þessi, tékkaðu á þessu bara, prófaðu glas af hinu og þessu víninu eða bara sjúkt kaffi, svo er alltaf bjórinn ef allt annað er of mikið. Prófaðu á eigin tungu um hvað þetta náttúruæði snýst…þetta er bara rétt að byrja hérna á klakanum.
You must be logged in to post a comment.