Pizza tilraunir, nokkrar vel lukkaðar

Það eru flestir sammála mér að pizzur eru alltaf góður matur, eða oftast. Flestir elska pizzur. Maður getur samt fengið smá leið á að fá alltaf sama áleggið, ok segir ekki leið en það er gaman að prófa eitthvað nýtt! Undanfarið hef ég verið að skoða hvort ég geti breytt réttum sem ég elska yfir pizzu. Það jú hægt að setja hvað sem er á pizzuna, spurningin er bara hvort það komi vel út.

Hér er ég með nokkrar sem hafa komið ofsalega vel út. Endilega prófið og ef þið kunnið að meta mætti tagga mig einhvers staðar. Þið þurfið ekki að vera með pizzaofn, þó það sé best þá má ná góðum árangri með öðrum leiðum. Sjá nánar hér.

Geitaostasalat pizzan

Við erum mjög hrifin af geitaosti á þessum bæ, reyndar vil ég bara hafa hann mjög látlausan, ekki of mikla geit sem sagt. Geitaostasalatið okkar er geggjað og ég hvet ykkur til að prófa það við tækifæri. En hér er það sem sagt pizza útgáfan. Magnið af hverju hráefni fer bara eftir ykkar smekk.

Það sem þarf fyrir eina pizzu

 • Gott pizzadeig, ekkert miðlungs neitt hér
 • Hvítlauksolía í stað pizzasósu
 • Rjómasostur, nokkrar klessur
 • Geitarjómaostur, nokkrar klessur
 • Rifinn parmesan
 • Mozzarella, slitinn í smátt
 • Forsoðnar rauðrófur, nokkrar sneiðar
 • Döðlur, í bitum
 • Ristaðar pecanhnetur
 • Klettasalat
 • Hunang

Aðferðin

Byrjið að græja pecanhneturnar, setjið þær í lítið eldfast mót, veltið uppúr ólífuolíu, salti og pipar og svo ferskt timian. Ég nota líka smá chilliflögur en það þarf ekki. Ristið þetta í ofni og saxið svo hneturnar aðeins í smærri einingar. Fletjið svo út deigið, setjið hvítlauksolíuna yfir, ekki allt á floti samt. Rífið parmesanostinn yfir þetta, dreifið svo rjómaosta- og geitaostaklessum yfir allt. Raðið svo skífum af rauðrófum hér og þar, dreifið döðlubitunum yfir allt og loks mozzarella tægjum.

Inn í ofn. Þegar pizzan er klár, þá setjið þið helling af klettasalati yfir, stráið ristuðum pecanhnetum yfir og toppið svo með hunangi. Þetta er kreisí pizza! Njótið!!!

Suður amerísk “corn dip” ostapizza

Þessi er sprottin upp af geggjaðri mexikanskri maís ostadýfu sem ég mæli svo sannarlega með að þið prófið við tækifæri. Parast fáránlega vel með West Coast IPA. Bara að skrifa um þessa ostadýfu hér fær mig til að vilja hendast í að gera hana og njóta. En það má bíða betri tíma. En alla vega þessi dýfa er svo geggjuð að mig langaði til að láta hana skína á pizzu. Ég lét bara vaða og viti menn, “home run”. Rosaleg pizza, ég er mjög feginn að ég ákvað að prófa!

Það sem þarf fyrir eina pizzu (rúmlega reyndar)

 • Gott pizzadeig
 • 1 mtsk chili duft
 • 1 tsk reykt papríka
 • 1 tsk cayenne pipar
 • Hálfur laukur skorinn smátt
 • 3 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • 2 ferskir maískólfar
 • Salt og pipar
 • 80 g smjör
 • Rjómaostur eftir smekk
 • 1/2 bolli majones
 • 1 mtsk safi úr límónu
 • Ferskur kóríander
 • Rifinn parmesan, ca bolli
 • 1 dós Mutti tómatar (þetta dugar reyndar í rúmlega tvær pizzur)
 • Fersk basillika, ef þið eigið
 • Rifinn cheddar ostur
 • 1 kúla af MozzarellaNachos ostaflögur

Aðferðin

Blandið saman kryddunum, 1 mtsk chili duft, 1 tsk reykt paprika, 1 tsk cayenne pipar, salt, og má nota smá chili korn til að fá smá power í þetta. Græjið svo brúnt smjör, setjið 80 – 100g smjör í pott og látið malla þar til orðið brúnt og farið að freyða. Þið eigið líka að finna þessa notalegu hnetu karamellu lykt af smjörinu. Bætið þá alveg tsk af kryddblöndunni saman við og smá salt og leggið til hliðar.

Skerið hálfan lauk smátt og mýkið á pönnu í smjöri og olíu. Pressið svo 3 hvítlauksgeira og bætið á pönnuna. Takið utan af maískólfunum, skerið kornin af, þið eigið að vera með alveg bolla af kornum, ef þið eruð á hraðferð þá má nota maís í dós, en það er samt ekki eins magnað. Bætið þessu við laukinn og látið malla þar til maís er orðinn mjúkur. Bleytið í þessu með brúna smjörinu. Smakkið þetta svo til og kryddið eftir smekk.

Gerið svo pizzasósuna eins og þið eruð vön. Blandið saman 1/2 bolla af majonesi við 1 mtsk límónusafa og setjið í sprautuflösku. Fletjið út deigið. Dreifið pizzasósu yfir, ekkert of mikið samt. Slítið í sundur mozzarella og dreifið yfir, dreifið svo maísblöndunni yfir deigið líka. Magn fer eftir hvað deigið þolir, of blautt getur skapað vandræði, ég var með vel blautt álegg en gott deig svo það slapp vel. Rífið slatta af parmesan yfir þetta og loks rjómaostaklípur eftir smekk.

Eldið pizzuna eins og þið gerið venjulega, þar til álegg er bráðnað og botninn kominn með fallegt hlébarðamynstur. Takið pizzuna út, helling af ferskum kóríander yfir og loks sprautið þið límónumajonesinu yfir. Myljið loks Nachos flögur yfir og njótið. Flögurnar gera þetta stökkt og nett því þessi pizza er dálítið blaut og safarík annars.

Pizza Tómat Vinaigrette með ferskjum

Þetta er svo borðleggjandi, að breyta bruschetta í pizzu, afhverju ekki? Þetta er í raun bara það sama ekki satt? Þessi pizza er komin frá þessum rétti, bruschetta með kirsuberjatómata vinaigrette og ferskjum. Reynið að nota ferskar ferskjur ef hægt er, annars er það niðursoðnar í dós, kemur reyndar mjög vel út þannig.

Það sem þarf fyrir eina pizzu

 • Gott pizzadeig
 • Kirsuberjatómatar, ein askja
 • 1/4 bolli ólífuolía
 • 3 hvítlauksgeirar, smátt skornir
 • 2 mtsk ferskt timian
 • 1/2 tsk chiliflögur
 • 1/2 tsk sjávarsalt
 • Smá pipar
 • 1 mtsk hvítvínsedik
 • 1 mtsk balsamic edik
 • Mozzarellaostur, rifinn
 • Mozzarella, ferskur, slitinn í sundur
 • Basillica, fersk
 • Ferskjur, sneiddur í hæfilega stórar sneiðar
 • Balsamic krem

Aðferðin

Byrjum á vinaigrette, Setjið um 1/4 bolla ólífuolíu á pönnu, tómatana út á (1 askja), 1/2 tesk chiliflögur, 1/2 tsk sjávarsalt, smá pipar, 2 mtsk ferskt timian og 3 smátt skornir hvítlauksgeirar. Látið malla þar til tómatarnir eru farnir að opnast og maukast dálítið. Takið þá pönnuna af og látið kólna aðeins. Bætið svo 1mtsk balsamic edik og 1 mtsk hítvínsedik á pönnuna og blandið vel saman. Safnið þessu svo öllu saman í skál.

Græjið svo pizzuna, fletjið út deigið. Dreifið viniagrettinu yfir botninn, svo dreifið þið rifnum mozzarellaosti yfir allt. Inn í ofn með þetta. Þegar pizzan er fullelduð takið þið hana út, dreifið ferskum mozzarella yfir, raðið ferskjusneiðunum ofan á, svo slatta af ferskri basillicu og svo toppið þið þetta með balsamic crema. Þetta er bara svo geggjað!

Pizza Rosa, a la Binaco

Ok þessi er ekki frá mér en þessi fær að fljóta með af því að hún er bara svo mögnuð. Sjá nánar hér!