Ég hef aldrei eldað krabba og ef út í það er farið hef ég bara ekki smakkað krabbakjöt? Skrítið. En já ég hef lengi langað til að smakka. Ég rak svo augun í þetta hér í Nettó. Tvo fallega krabba í pakka frá Royal Iceland! Með í pakkanum var svo krabbahakk og krabba legg kjöt. Uppskriftin er sögð fyrir 6 en ég komst að því að það er dálítið langt frá því. Ég náði að fá flotta skammta fyrir fjóra með því að bæta ýmsu við hana. Þetta var stórkostlegt og mun ég kaupa þetta aftur, nema ég finni krabba annars staðar sem ég get notað í soðið. Maður þarf svo að læra kannski að vinna kjötið úr skelinni sjálfur. En alla vega, hér er það sem ég gerði og mun líklega gera aftur.

Það sem þarf fyrir 4
- Einn pakki með tveim kröbbum frá Royal Iceland
- 2 L vatn
- 0.5 dl Koníak eða Brandí
- 1 flaska af saison bjór, t.d. Satan frá Borg ef hann er enn til
- 3-4 dl rósavín, ég átti það til opið, hefði annars notað hvítvín eða bara meira af saison
- 2 stk stjörnuanis
- 4-5 gulrætur skornar gróft
- 4 hvítlauksgeirar, heilir
- 3 tsk fiskikraftur (duft)
- skvetta af humarkrafti (líkl. um 2-3 mtsk)
- 170 g tómatpúrra
- 500 ml rjómi
- salt og pipar eftir smekk
- smá steinselja til að skreyta
Aðferðin
Þetta er eftir uppskrift á umbúðunum nema ég bætti alls konar góðgæti saman við. Setjið 2L vatn í pott. Hlutið krabbana í sundur, sem sagt snúið lappirnar af. Setjið í pottinn og sjóðið í 60 mín ásamt, 4 gulrótum, 4 hvítlauksgeirum, 2 stk stjörnuanis, 4 dl rósavíni eða hvítvíni, 3 tsk fiskikraftur, sletta af humarkrafti og smá salt. Ekki sjóða á fullu blasti samt. Það verður að vera eitthvað eftir.
Þegar suðutíminn er kominn þá sigtið þið soðið frá skelinni og grænmetinu í pott. Bætið við krabbahakkinu, koníaki/brandi, tómatpúrru og saison bjór og sjóðið áfram í um 20 mín. Passið að salta ekki of, það er auðvelt að fara yfir strikið.
Í lokin bætið þið 500ml rjóma saman við og sjóðið í 5 mín til viðbótar. Rétt áður en borið er fram er krabba legg kjöti bætt saman við og hrært. Setjið þetta í 4 skálar og skreytið með steinselju.
Gott er að hafa með þessu sneitt snittubrauð sem þið ristið létt uppúr smjöri og olíu á pönnu.

Pörunin
Það góða við bjór-matarpörun er að það er ekkert endilega bara einn möguleiki í stöðunni, oft koma fleiri bjórstílar til greina. Sjávarfang kallar á belgískan saison, eða blond, jafnvel belgískan tripel ef um bragðmikinn rétt er að ræða. Það er líka frábært að sjóða uppúr þessum bjórum, t.d. bláskel og greinilega krabba eins og við lærðum hér. Góður brakandi lager er líka flottur með flestu sjávarfangi. Þannig að hér mæli ég með saison þar sem ég eldaði með honum. Það er ekki til mikið af saison á Íslandi, Snorri frá Borg er svona ákv saison afbrigði, skaði frá Ölvisholti var líka flottur, ég veit ekki hvort hann sé enn fáanlegur reyndar. Svo eru fleiri þarna úti. Endilega að prófa. Saison kemur upphaflega frá hinum frönsku mælandi hluta Belgíu, eða Vallóníu og var áður bruggaður í litlum sveitabrugghúsum eða sveitabæjum yfir kaldari haustmánuði ársins. Bjórinn var ætlaður sem svalandi drykkur yfir sumarmánuðina og gjarnan notaður til að fagna uppskerunni á bæjunum og er það líklega þaðan sem viðurnefnið „sveitabjór“ er komið. Bjórinn átti að vera svalandi og þægilegur en varð þó að vera nægilega sterkur til að lifa sumarmánuðina af. Saison stíllinn er gjarnan með áfengisprósentu í hærri kantinum 5-6.5% án þess þó að vera of sterkur, hann er gulur eða orange að lit með flottan froðuhaus og vel kolsýrður og spriklandi. Humlar koma við sögu og gefa notalega beiskju og stundum er hann þurrhumlaður til að gæða hann meiri angann. Bjórinn er oftast dálítið sýrður og þurr á tungu og kryddaðir tónar áberandi. Saison er þó nægilega mildur til að ganga með sjávarfangi sem oft er með viðkvæman bragðprófíl sem við viljum ekki að bjórinn yfirgnæfi.
Reyndar vorum við líka með kampavín með þessu, það kom vel út en seltan í súpunni tók dálítið máttinn úr kampavíninu