Við Sigrún kona mín höfum mjög gaman að því að gera okkur dagamun og fara út að borða. Þó maður sé farinn að geta töfrað fram góðan mat heima þá er bara eitthvað við það að láta stjana aðeins við sig færa sér góða máltíð án þess að þurfa að lyfta fingri. Reyndar erum við Sigrún æ oftar að lenda í því að upplifa góðan mat en samt eitthvað sem við höfum jafnvel gert betur heima eða vitum að við getum gert betur, smá lúxus vandamál ég veit. Þegar ég fer út að borða þá er ég að leita eftir þessum wow factor, þegar maður fær eitthvað sem kemur manni í opna skjöldu, eitthvað sem maður veit að maður á ekki séns að apa eftir. Þá er gaman. Það er reyndar líka gaman þegar maður fær hugmyndir af réttum til að reyna að mastera heima í eldhúsinu.
Við fórum t.d. á dögunum á La Primavera og fengum þar ofsalega góðan forrétt, „parmaskinka á glóðuðu brauði með geitaostasósu“ heitir rétturinn og við getum vel mælt með þessum rétti. Það er að segja ef þú kannt að meta mildan geitaost. Við vorum svo ánægð með réttinn að við prófuðum að endurtaka leikinn heima næsta kvöld og það tókst líka svona vel. Við teljum okkur hafa náð þessu jafn góðu ef ekki betra en á La Primavera.
Hér kemur uppskriftin, ég fann hana að mestu á Hagkaup.is :
Það sem þarf fyrir 4 fullorðna
- 3-4 bréf af góðri parmaskinku (örþunnar sneiðar)
- 1,5 dl kjúklingasoð (1 stk teningur leystur upp í 3 dl vatni)
- 1,5 dl rjómi
- 1 box (150 g) chavroux rjóma geitaostur eða sambærilegur
- 4 brauðsneiðar, skorpulausar
- góð ólifuolía, t.d. Marques De Grinon
- ferk basilika
- rifinn parmesan ostur
- smjörklípa til að steikja úr
Aðferðin
Byrjið á að leysa kjúklingakraft (1 tening) í ca 3 dl volgu vatni. Notið svo 1.5 dl af því og setjið í pott. 1.5 dl rjómi fer líka í pottinn og svo geitaosturinn (150 g). Hrærið vel saman og hitið upp að suðu. Lækkið þá hitan og látið rétt malla til að halda sósunni heitri. Salt eftir smekk til að auka bragðið.
Setjið smá olíu á pönnu og smjörklípu, steikið svo brauðsneiðarnar á hvorri hlið. Bætið smjöri út á eftir þörfum til að fá gyllta áferð.
Setjið hverja brauðsneið á disk, hellið sósunni í kringum hverja brauðsneið. Það má vera þannig að það verði góður pollur í kring. Allt í lagi að skvetta smá yfir brauðið sjálft en þá verður það ekki eins stökkt.
Raðið svo parmaskinkunni yfir þannig að þið þekjið sósuna og brauðið. Hellið ólifuolíu yfir eftir smekk og rífið parmesan ost yfir. Skreyti svo með basiliku og berið fram.
Pörunin
Þetta er svakalega gott með bragðmiklu hvítvíni eða góðu þurru cava. Hálfsætt cava kemur líka vel út með þessu. Í heimi bjórsins væri wild ale alveg málið eða vandaður saison! Ég var reyndar með kröftugt rauðvín sem gekk mjög vel líka!
Sérlega góður réttur – 5 stjörnur
Líkar viðLíkar við