Imperial Stout BBQ Pulled Pork Smáborgarar með ferskum DIPA!


RÉTTUR: Hægeldaður rifinn svínahnakki í imperial stout marineringu með stout BBQ sósu í heimabökuðum smáborgurum.  BBQ sliders baby!  Og svo ferskt hrásallat með! Fínt fyrir 6 fullorðna.

KJÖTIÐ : Ég slumpaði á magn kjöts, tók tvo bakka af svínahnakkasneiðum sem dugaði vel fyrir ca 6 fullorðna.  Auðvitað má vera eitthvað annað svínakjöt en þetta bara svínvirkaði.

MARINERINGEin flaska af FOUNDERS IMPERIAL STOUT (335ml) en má vera annar imperial stout, t.d. Mikkeller Breakfast Stout eða Garún frá Borg.
– salt (Maldon) og pipar (malaður)
– Sriracha hot chilli sósa (Bónus)
– Reykt paprikukrydd
– Dash af oregano, rosmarin og timan kryddum (ca mtsk af hverju)
– Olía til að steikja úr
– 2 epli  skorin gróft (má vera með hýði)
– 1 meðalstór laukur, skorinn gróft
– 6 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
– 1 bolli kjúklingasoð

BBQ SÓSAN: Þessi sósa er geggjuð og hægt að nota í alls konar samsetningum.
– 1 Flaska af FOUNDERS IMPERIAL STOUT eða sambærilegt.
– Hálft epli, afhýdd og fínsaxað
– Skallot laukur 1-2, fínsaxað
– 2 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
– 1 bolli tómatssósa
– 1/4 bolli Dijon sinnep
– 1 mtsk Teriyaki sósa
– 3 mtsk púðursykur
– 2 mtsk hunang
– 1 tsk reykt paprika
– 1 mtsk Worcestershire sósa
– Salt og pipar eftir smekk

SMÁBORGARAR:  Flott uppskrift hér á Vínotek.

– 10 dl hveiti eða 7,5 dl hveiti og 2,5 dl spelt (auk hveitis til viðbótar þegar deigið er hnoðað)
– 4 dl volg mjólk
– 1 dl volgt vatn
– 1 bréf þurrger
– 2 msk akasíusíróp eða 1 msk sykur
– 1/2 tsk salt
– 3 msk ólívuolía

HRÁSALLAT: T.d er þessi flott hér á Vínotek.  Eða bara eitthvað sem þið eruð vön að gera.

BJÓRINN MEÐ: Þetta er mikill og þungur réttur og kallar á stóran og stæðilegan bjór með.  Það er eiginlega borðleggjandi að fara hér í sama bjór og er í marineringunni FOUNDERS IMPERIAL STOUT, sem er geggjaður stout en gæti þó verið heldur þungur hér.  Venjulegur stout og kannski aðeins humlaður er líka flott pörun.  Double IPA eins og ÚLFUR ÚLFUR (9%) er hins vegar algjörlega geggjaður með þessu.


IMG_6169

KJÖTIÐ. Rifinn grís er svo dásamlegt fyrirbæri, það er hins vegar hægt að gera hann á ýmsa vegu og koma sumar leiðir betur út en aðrar.  Þessi uppskrift hér krefst tíma en er algjörlega þess virði.  Það er þó ekki að skilja að uppskriftin sé flókin.  Finnið eitthvað gott svínakjöt, ekki of dýrt, ég nota alltaf grísahnakka, það er t.d. hægt að fá í Bónus bara í sneiðum sem kemur ofsalega vel út.

Við byrjum á marineringunni því þetta þarf helst að liggja á kjötinu í sólarhring.   Þannig að daginn fyrir veisluna þá gerum við eftirfarandi.  Kryddið kjötið ríkulega með salti og pipar, nuddið inn í kjötið.  Nuddið svo Sriracha sósunni á báðar hliðar kjötsins, kryddið aðeins með reyktri papriku.  Setjið kjötið í ílát með loki og hellið svo stout yfir kjötið og inn í kæli.  Allt í lagi að stela einum sopa hér, Founders imperial stout er bara svo magnaður.  Þegar ca helmingur tímans er liðinn þá er ágætt að snúa sneiðunum við t.d. næsta morgun.

Daginn eftir er gott að byrja snemma, reiknið með að kjötið malli í ofninum í 3 tíma amk. Hitið ofninn í 195 gráður.  Takið svo kjötið úr marineringunni og þurrkið vel.  Látið standa í um 30 mín.  Krydda svo vel aftur með salti, pipar og þurrkryddum (Rosmarin, Timian og Oregano).  Hitið svo olíu á pönnu og brúnið kjötið á öllum hliðum, vel brúnað sko og ekki allt kjötið í einu.  Takið smá tíma í þettal leggið svo til hliðar.  Það getur farið að festast aðeins í pönnunni, allt í lagi þá að bæta aðeins olíu á pönnuna, hendið svo eplum og lauknum útí og kryddið með salti og pipar.   Hrærið í og látið mýkjast aðeins, ca 4-5 mín.  Svo bætum við hvítlauknum og kryddum við.  Loks hellum við marineringunni yfir og hér er gott að skafa dálítið upp úr pönnunni og losa það sem hefur fests við.  Látið suðu koma upp og malla svo í 3 mín.   Hér er svo gott að hella öllu yfir í stóran pott sem má fara inn í ofn.  Bætið svo kjötinu við og kjúklingasoði þannig að það nánast hylji kjötið.   Lokið sett á og svo bara inn í ofn.   Fínt að tékka annað slagið á þessu og hræra í. Kjötið er tilbúið þegar það fellur í sundur þegar maður klórar í það með t.d. gaffli.

SMÁBORGARAR og HRÁSALAT.  Það er fínt að nota tímann núna og græja hamborgarabrauðin (sjá Vínotek) og salatið (sjá Vínotek).  Fínt að fylgja bara uppskriftunum á Vínotek.  Munið bara að við erum að tala um smáborgara þannig að ekki gera of stórar kúlur.

BBQ SÓSAN. Þessi er geggjuð, takið fram pott, svissið epli, hvítlauk og skallotlauk í olíu á meðal hita.  Kryddið með salti og pipar.  Látið malla þar til mjúkt og glært.  Bætið svo öllu öðru í pottinn, já þar með talinn bjórinn.  Látið suðu koma upp.  Smakkið bara til, kannski viljið þið aðeins meiri sætu, meiri reyk eða bruna.  Undir ykkur komið bara.  Svo lækkið þið hitann í lægsta hita, lok yfir og látið malla í 1.5 klst.

Þegar kjötið er tilbúið þá takið það úr ofninum látið standa í um 15 mín.  Loks er kjötið veitt úr soðinu og rifið í sundur með gaffli.   Svo hrúgið þið kjötinu á borgarana, hrásallat yfir og dásamleg BBQ sósan.  Berið fram með ljúfum bjór og njótið!

IMG_6173

BJÓR PÖRUN: Hér er hægt að fara ýmsar leiðir, maður getur valið að fara bara í léttan lager og lofa kjötinu að ráða algjörlega för og þá á kostnað bjórsins eða sem er jú alltaf skemmtilegast að tefla fram bjór sem gerir eitthvað fyrir réttinn og bætir hann.  Imperial Stout eða stout er borðleggjandi þar sem hann er jú notaður í bæði marineringuna og sósuna.  Hér erum við að tengja saman drykk við hráefni í matnum.  Reyndar er hér hætt við að þunginn verði of mikill því imperial stout er þéttur og mikill með ofsalega miklum og þungum rétti. Það er þó ljúft að finna ristaða og brennda kornið og tengja við reykinn í sósunni og dálítið hjúpa brunann i kjötinu og draga úr honum.  Kaffiristin í bjórnum passar líka vel við BBQ bragðið.  FOUNDERS IMPERIAL STOUT er kannski heldur of sætur fyrir þetta verkefni, ekki misskilja mig, þetta er mjög skemmtileg pörun og gaman að nota sætuna hér á móti öllu þessu salta og brunanum í chilli-inu og svo tengja við sætuna í BBQ sósunni, hins vegar verður þetta mjög þungt.  Ég held að aðeins þurrari stout með meiri beiskju væri skemmtilegri með, t.d. Mikkeller Beer Geek Breakfast já eða bara Garún frá Borg sem er frábær imperial stout!

     Önnur pörun sem bara kallar á mann er imperial IPA eða DIPA.  Þar sem við erum hér á sjálfum fyrsta apríl þá er borðleggjandi að nota ÚLF ÚLF frá Borg sem er framúrskarandi DIPA bjór.  Á meðan imp. stout lofar okkur að taka einn eða kannski einn og hálfan „slider“ þá opnar double ipa allt upp á gátt og léttir á pallettunni.  Það er alveg mangað að upplifa hvernig bjórinn skapar einhvern veginn pláss fyrir 2-3 sliders í viðbót!  Sætan kemur með skemmtilegt mótvægi við chilli brunann frá kjötinu og dempar aðeins og svo er beiskjan í bjórnum og saltið í kjötinu eins og fullkomið hjónaband.  Beiskjan ýfir aðeins upp chilli brunann í fyrstu en við fleiri sopa og meira kjöt þá virkar beiskjan og humalsætan dempandi.  Gosið og brakandi humlarnir opna réttinn alveg upp og léttir hann á allan hátt en stelur engu af bragðinu.   Prófið endilega báða þessa stíla og metið hvort gengur betur!  Munið bara að Úlfur Úlfur er bara til í kringum 1. apríl og hann á að drekkast FERSKUR!

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s