Langeldað naut í stout, worcestershire og sinnepssoði með svörtum lager

Hér er gott dæmi um eitthvað sem er svo einfalt að gera en svo óskaplega grand og gott í munn. Sigrún kona mín henti í þetta um daginn á meðan ég var að vesenast í að gera súkkulaði, stout kirsuberjaböku til að prófa með kirsuberjabjór. Ég tek það fram að Sigrún er einhent þessa stundina þannig að hún gerði þetta með bókstaflega með annari hendi! Þannig að ef þú ert með tvær hendur ættir þú að vera helmingi fljótari eða hvað?

Við vorum búin að velta fyrir okkur bjórpöruninni dálítið og enduðum á að para þetta við bjór sem lítið er fjallað um, þýskur schwarzbier sem er lager en svartur að lit. Nokkrir aðrir stílar komu líka vel út ss bock sem líka er lager og brown ale eða amber. Porter gæti reyndar verið frábær með þessu líka.

Það sem þarf í þetta (fyrir 6+):

  • 1,5kg nautagúllas, má vera minna magn
  • 500g gulrætur, gróft skornar
  • 3 stk laukur (rauðlaukur og venjulegur) gróft skorinn
  • 150g worcestershire sósa
  • 3 kúfaðar msk grófkornað Dijon sinnep
  • 3 hvítlauksrif
  • 800ml vatn og 330ml af stout bjór
  • steinselja til skrauts

Aðferð

Þetta er svo einfalt, þerrið kjötið, hitið olíu á pönnu og brúnið svo bitana á öllum hliðum. Kryddið með salti og pipar. Skerið svo grænmetið gróft og steikjið í ólifuolíu í stórum potti. Hvítlaukur er skorinn fínt og steikt með. Bætið svo, 150g worcestershire sósu, 3msk sinnepi og kjötinu við ásamt 800ml vatni og 330ml stout. Ekki verra ef hann er reyktur, t.d. Lava frá Ölvisholti.

Hrærið í þessu og setjið svo pottinn með loki í ofn við 160 gráður í 4 klst. Munið svo í Guðana bænum að taka pottinn út með ofnhönskum og ekki gleyma ykkur eftir að potturinn er kominn út. Ég fæ of mikið af brunasárum á vaktina til mín þar sem fólk gleymir að potturinn er brennandi heitur.

Berið framm í fallegum skálum og setjið steinselju ofan á til skrauts. Það þarf ekkert meðlæti með þessu, þetta er bara svo ljúft svona.

Pörunin

Kjötið er dásamlegt, það dettur í sundur í munni og grænmetið er búið að drekka í sig soðið og er því afskaplega bragðmikið. Sinnep og worcestershire sósan eru áberandi í bragði og svo eins og aðeins sjörnuanis keimur. Rétturinn er dálítið þungur en ekki feitur eins og oft verður með grís t.d. Bjórinn með þarf því ekki að hafa mikið bit og humla og við viljum alls ekki of þungan bjór svo sem imperial stout því þetta er nógu þungt fyrir. Gylltur lager eða pilsner gengur svo sem við flest svona brasað en hér vantar þó eitthvað, bjórinn gerir lítið fyrir réttinn. Hins vegar er svartbjórinn (schwarzbier) nokkuð meira maltaður með örlítilli rist og karamellu en það smellpassar hér og lyftir upp karamellukeimnum sem myndast á kjötinu við steikinguna. Kornið í bjórnum tengir einnig við jörðina í grænmetinu. Sinnepið lyftir líka bjórnum upp og gerir hann bragðmeiri. Svo passa litirnir líka vel saman. Úrvalið hér heima er því miður lélegt í þessum flokki en Das Schwartze ætti að vera fáanlegur. Það væri hægt að nota dunkel í staðinn en hann er minna ristaður. Þorrakaldi er t.d. dunkel og einnig er til dunkel frá Weihenstephaner.

Bock er líka frábær með þessum rétti og úrvalið ögn betra hér heima. Bock er nokkuð bragðmeiri en svartbjórinn og er frábær matarbjór. Loks er porter augljós pörun en hér erum við komin með mun meiri rist og jafnvel kaffi í þetta sem er alveg velkomið en fer jú bara allt eftir smekk manna.