Það er með fagnaðarlátum sem ég kynni til leiks Skýjaborgina frá Borg Brugghús en um er að ræða fyrsta bjór í nýrri tilraunalínu frá brugghúsinu og fær hann því merkinguna T1. Bjórinn er um 7% New England IPA eða NEIPA sem er sá bjórstíll sem menn eru að tapa sér yfir um heim allan í dag, stundum kallað the „haze craze“ eða skýja æðið því einkennandi fyrir þennan bjórstíl er skýjað útlit hans, oft svo að hann minnir á ávaxtasafa frekar en eitthvað annað. Nánar um NEIPA stílinn hér. Borg hefur gefið út nokkrar hugmyndir að merkimiða T- línunnar á fésbókarsíðu sinni en ég hef valið þá útgáfu sem mér finnst flottust fyrir þessa Tilraunalínu eins og sjá má hér til hliðar.
Ef við skoðum merkimiðann nánar má sjá nýtt tákn, TAP ONLY sem þýðir einfaldlega það að þessi bjór kemur bara á krana, ekki á dósir eða flöskur eins og hugmyndin er í dag amk og því verður aðeins hægt að fá tilraunabjórinn á útvöldum börum borgarinnar, og takið eftir, í ofsalega takmörkuðu magni. Skýjaborgin kemur t.d. bara á örfáa bjórbari og þá bara einn eða tveir kútar á hvern stað ef ég skil Borgar menn rétt. Merkimiði er því í raun bara svona formlegheit því hann mun ekki fara á neitt svo sem nema ef við einhvern veginn neyðum Borg til að setja þetta í aðrar umbúðir en það er önnur umræða.
Skýjaborgin er alla vega stórkostlegur og algjörlega það sem ég kalla NEIPA en það er þó umdeilt hvort þessi stíll sé til sem eiginlegur bjórstíll og menn deila líka um hvað það sé sem skilgreini stílinn. Ég á sjálfur erfitt með að skilgreina stílinn en einmitt svona er NEIPA fyrir mér, safaríkur og „djúsí“ með ávaxtablæ og rétt örlítið beiskjubit frá humlunum og svo vil ég persónulega hafa hann skýjaðan og flottan en það er svo sem bara útlitsatriði en samt, það er hluti af upplifuninni ekki satt?
hver þarf „taprooms“, þetta gerist bara ekki ferskara en þetta!
Útgáfa Skýjaborgarinnar er með dálítið sérstöku sniði en þetta er í fyrsta sinn í sögu brugghússins sem bjór kemur eins ferskur og þessi til neytandans og er afar sjaldgæft að svona gerist á Íslandi. Bjórnum verður nefnilega tappað á kúta á morgun (föstudag), fer svo beint út í bíl og beint á þá bari sem valdir hafa verið og geta tengt strax við dælu hjá sér. Þetta þýðir að bjórinn verður kominn á krana aðeins nokkrum klukkustundum eftir að honum er tappað á kúta, sem er sérstaklega mikilvægt í þessu tilviki því NEIPA stíllinn krefst þess að bjórinn sé drukkinn eins ferskur og mögulegt er. Það er nefnilega svona sem bjórgerðarmennirnir hjá Borg vilja að þú upplifir Skýjaborgina. Erlendis geta bjórsmiðir gert þetta með svo kölluðum „taprooms“ sem eru litlir barir út af brugghúsinu sjálfu og fólk getur þá drukkið bjórinn af krana um leið og hann er tilbúinn frá brugghúsinu. Ef þið viljið smakka þessa perlu þá er um að gera að fylgjast með á fésbókarsíðu Borgar á morgun og drífa sig á þá staði sem munu dæla þessu því þetta klárast jafnvel á morgun eða hinn.
You must be logged in to post a comment.