Fullkomnir smáborgarar með langelduðu nauta brisket, chipotle majo og brokkolísalati

Það er nánast í öllum veislum að maður finnur smáborgara meðal rétta. Ég hef alltaf látið á vera því það er undantekningalaust að þeir eru þurrir og óspennandi til átu.

Við frúin vorum með útskriftar veislu fyrir son okkar í gær og ákváðum að gera sjálf einhverja rétti en kaupa þó flesta réttina því maður hefur jú ekki endalausan tíma. Mig langaði að prófa að gera smáborgara eins og ég myndi vilja fá þá. Þetta var niðurstaðan og þeir fengu frábæra dóma gesta. Lang vinsælasti rétturinn og kláruðust rúmlega 100 borgarar langt á undan öllu öðru. Hér er eins og ég gerði þetta. Ég skal viðurkenna það að það er gott að hafa einn eða tvo með sér að raða þessu saman, við vorum tvö í þessu og það gekk samt furðu hratt.

Það sem þarf fyrir 100 borgara

  • 2,5 kg nauta brisket
  • 2 laukar skornir í grófa bita
  • 4-6 hvítlauksrif, pressuð
  • 4 stórar gaulrætur, skornar í bita
  • 2 mtsk ferskt origano, saxað smátt
  • 1 mtsk þurrkað timian
  • 1 mtsk paprikukrydd
  • 1 – 2 mtsk reykt paprika
  • 1 mtsk cumin krydd
  • 2 mtsk tómat púrra (Mutti)
  • 300 ml rauðvín
  • 500 ml nautasoð (1-2 mtsk nautakraftur í 500ml vatn)
  • Ein krukka chipotle paste
  • Safi úr hálfri límónu
  • Heimagert brokkolísalat

Aðferð

Ég mæli með að gera langeldaða kjötið deginum áður en veislan er. Eða byrja daginn mjööög snemma.

Ég fékk brisket í Costco, það kemur upprúllað bundið með snæri. Ég byrjaði á að klippa á snærið og skar svo brisket niður í smærri einingar svo ég gæti steikt það á pönnu. Svo er kjötið steikt á öllum hliðum á heitri pönnu í olíu og smjöri.

Takið til stóran pott sem hægt er að loka. Skerið niður 2 lauka í grófa bita, 4 gulrætur og pressið 4-6 hvítlauksrif. Mýkið þetta í olíu í pottinum. Bætið svo kryddunum saman við, 2 mtsk origano, 1 mtsk timian, 1 mtsk papríku krydd, 2 mtsk reykt papríka og 1 mtsk cumin. Blandið vel saman, bætið svo 2 mtsk tómatpúrru, 300ml rauðvín og 500ml nautasoð saman við og blandið vel. Bætið svo kjötinu í pottinn og látið suðuna koma upp.

Setjið lok yfir pottinn og inn í ofn við 145 mín í 3-4 klst. Takið svo pottinn út, og munið að hann er heitur. Takið kjötið úr pottinum og rífið það niður með tveim göfflum á disk.

Sigtið soðið frá grænmetinu í lítinn pott. Hellið aðeins af soðinu yfir kjötið en afganginn sjóðið þið niður. Bætið um 2-3 mtsk hlynsírópi saman við soðið og látið malla í eina klst eða þar til þetta hefur soðið niður amk um helming. Þetta á að verða þykkt og svart en geggjað gott.

Hellið þessari sósu yfir kjötið og blandið vel saman.

Næst er það brokkolísalatið, þetta er reyndar einn mest skoðaði réttur á síðunni okkar. Frábært salat og geggjað hér í þessu samhengi. Skerið samt brokkolí í litla bita svo það verði ekki of gróft fyrir smáborgarana.

Hendið í chipotle majo, hér er bara að smakka til. Hellingur af majonesi, nánast ein krukka af chipotle paste og svo hálf límóna kreist yfir. Bladið vel og smakkið til.

Svo annað hvort bakið þið sjálf eða kaupið hamborgarabrauðið, við fengum brauðið frá Garra. Kartöflubrauð en það er mjúkt og þægilegt. Skerið brauðið til helminga, setjið slatta af kjöti á botninn, toppið með brokkolísalatinu og smyrjið vel af chipotle majo á lokið.