Við Sigrún elskum hægeldaðan grís og notum oft tækifærið t.d. á sunnudögum til að henda í þetta. Sunnudagar eru nefnilega boring en dútl í eldhúsinu gerir þá bara ansi bærilega. Við köllum þessa sunnudaga slow cook sunday! Þó það sé sára einfalt að elda þetta þá tekur það tíma og því kannski ekki eitthvað sem maður hendir í eftir vinnu á virkum degi. Vinnan við þetta er samt lítil, mestur tíminn fer í langeldunina eða um 4 tímar.
Til þessa hefur verið dálítið bras að finna uppskriftina okkar hér á síðunni því hún er falin í öðrum færslum. Hér kemur fínpússuð uppskrift sem okkur finnst best en hún hefur verið að þróast í gegnum tíðina. Ég er að segja ykkur að þegar þið smakkið þetta þá munuð þið elska sunnudaga. Hvað er svo gert við langeldað grísakjöt kann einhver að spyrja? Það er ýmislegt skal ég segja ykkur, við setjum þetta oft bara í hamborgarabrauð með meðlæti, eða á heimagert tortilla eða þegar við erum með ekstra langan tíma, í bao bun (gufusoðið brauð) en það er dútl samt. Það er líka bara hægt að borða þetta bara beint af disknum þetta er bara svo sturlað.
Það sem þarf fyrir ca 4
fyrir krydd nuddið
- 2 tsk sjávar salt
- 2 tsk svartur pipar, steytt
- 2-3 tsk púðursykur
- 2 tsk chili flögur
- 2 tsk kóríander fræ, steytt
- 2 tsk reykt papríka
- 2 tsk hvítlaukssalt, eða 1 pressaður hvítlaukur
- 2 tsk fennelfræ / eða krydd
- 2 tsk season all krydd
- 1 stjörnuanis, steyttur
fyrir soðið
- 1 – 1,5 kg Grísahnakki í sneiðum, fæst í Krónunni t.d.
- 2 laukar skornir í fernd
- 3-4 gulrætur skornar í grófa bita
- 4 hvítlauksgeirar, marðir
- 3 heilar stjörnuanis stjörnur
- 2 kanilstangir
- 2 mtsk púðursykur
- 3 mtsk epla edik
- 4 lárviðarlauf
- 200 ml nautasoð, tveir tengingar leystir upp í vatni
- ca 80 cl (2-3 flöskur) af imperial stout, fínt að hafa reyktan stout með.

Aðferð
Þetta er ekki flókið, það er kannski meðlætið sem er meira dútl? Alla vega, byrjið á krydd nuddinu, það er einfalt, 2 tsk af öllu ,nema stjörnuanis sem er bera ein stjarna, sett í mortél og steytt saman í fínt krydd. Ef þið viljið meira krydd þá er bara að tvöfalda uppskriftina t.d. Nuddið þessu svo inn í kjötið og látið svo standa í kæli í amk klst, tvær er betra en ein er nóg.
Forhitið bakarofn, 145 gráður, skerið 2 lauka í fernt, 3-4 gulrætur skornar gróft og 4 hvítlauksgeirar kramdir. Setjið olíu í stóran pott sem má fara inn í ofn. Mýkið þetta og brúnið aðeins. Svo er öllu hinu bætt saman við. 3 stjörnuanis, 2 kanilstangir, 2 mtsk púðursykur, 4 lárviðarlauf, 3 mtsk epla edik og 200 ml nautasoð. Opnið svo bjórinn, smakkið hann, gaman að átta sig á bragðinu fyrir eldun. Hellið svo bjórnum samanvið og hrærið öllu saman og látið malla.
Takið kjötið út og stekið á pönnu í olíu. Við erum hér að brúna kjötið til að fá fram meira bragð. Reynir að steikja líka á hliðunum ef stykkin eru ekki of þunn, annars er þetta bara fínt. Setjið svo kjötið í pottinn og grafið það undir þannig að vökvi fljóti helst yfir kjötið. Svo er lok sett yfir og inn í 145 gráðu heitan ofninn í ca 4 klukkustundir. 3 gætu dugað en 4 er betra.
Takið svo pottinn varlega út úr ofninum, veiðið kjötið uppúr, passið ykkur það dettur auðveldlega í sundur. Setjið allt kjötið á disk og rífið með göfflum. Smakkið þetta, þetta er rugl. Hellið svo smá soði yfir til að bleyta aðeins í þessu. Nú eruð þið klár með geggjað prótein.
Ekki henda svo gumsinu í pottinum. Þetta er svakalega flottur grunnur í paella t.d. Þannig að setjið þetta í box eða poka og inn í frysti þar til þið hendið í paella. Ég sé það núna að við eigum enn eftir að setja inn paellu uppskriftir, verðum að bjarga því.
Meðlæti
Hugmyndir af meðlæti. Okkur finnst best að hafa smá súrt með grísakjötinu, t.d. eins og pæklaðan rauðlauk, einnig er stökkt hrásalat mjög gott með, svo gott að hafa smá bit. Kóríander er ómissandi, nóg af honum og svo sósurnar. Okkar uppáhalds er sriracha majo og sriracha sósa.
Dæmi um hrásalat hér Frábært hrásalat með asísku ívafi, gott t.d. á borgarann
Sriracha majó er einfalt, hrærið bara sriracha sósi við majones og smakkið til. Stillið brunanum eftir smekk
Snögg pæklaður rauðlaukur. Þetta er hægt að gera bara t.d. klst fyrir mat.
- rauðlaukur, sneiddur í mandolini
- 1 bolli vatn, soðið
- 1/2 bolli edik, t.d. eplaedik og hvítvínsedik, fínt að blanda saman
- 1,5 mtsk sykur
- 1 tsk salt
Sneiðið laukinn í mandolini, skerið svo þvert á hringana til að opna þá, Leggið í skál, setjið edikið yfir, salt og sykur og blandið val. Hellið svo soðnu vatninu yfir og látið standa þar til þið þurfið að nota. Ég hef leikið mér með alls konar útgáfur af þessu en aldrei skrifað hlutföllin niður. Darri vinur minn gerði þetta svona og ég get klárlega mælt með þessu.
Have fun!
You must be logged in to post a comment.