Parmaskinka með geitaostasósu á eldbakaðri pizzu

Já já pizzatilraunir halda áfram, það er bara svo gaman. Að þessu sinni er ég að prófa frábæran rétt sem reyndar er einn af vinsælustu réttunum á síðunni okkar. Parmaskinka með geitaostasósu á glóðuðu brauði, réttur sem er stolinn beint frá La Primavera. Þetta er borðleggjandi pizzaálegg!

Ef þið hafið ekki prófað þennan rétt nú þegar þá hvet ég ykkur til að gera það hið snarasta en hér er það pizzaútgáfan.

Það sem þarf

  • Gott pizzadeig, helst súrdeig, það er best
  • Rifinn parmesanostur
  • Hvítlauksolía
  • Heimagerð geitaostasósa, uppskrift hér
  • Góð parmaskinka
  • Fersk basillica
  • Góð ólífuolía

Aðferð

Byrjið á að gera geitaostasósuna, gerið helmingi minni uppskrift en í uppskriftinni. Fínt að þykkja hana svo aðeins með hveitibollu.

Fletjið út deigið, munið aldrei kökukefli. Dreifið hvítlauksolíu yfir botninn, hellingur af rifnum parmesan sem þið notið til að teppaleggja botninn, svo geitaostasósan yfir.

Inn í ofn. Þegar pizzan er bökuð þá hyljið þið hana með parmaskinku, má vera alveg gott lag af skinku. Hellingur af ferskri basillicu yfir og loks góð ólífuolía. Það má líka toppa með aðeins rifnum parmesan.

Berið fram og bíðið eftir hrósinu, njótið!