Hægelduð Bleikja í Kampavínssósu með Fennel Sellerírótarsalati

Ok, bleikja er góð en þessi er alveg mögnuð. Við Sigrún mín vorum í matarboði um daginn hjá Hreim og Tobbu nágrönnum okkar og þar var elduð ofan í okkur 6 rétta máltíð sem sló svo sannarlega í gegn. Meðal rétta var hægelduð bleikja. Þetta er eitthvað sem manni hafði aldrei dotti í hug að gera en þetta var bara alveg geggjað. Þetta bara dettur í sundur í munni og bráðnar. Það var Erla Þóra Bergmann Landsliðskokkur sem töfraði þetta fram fyrir okkur og vil ég hér með þakka kærlega fyrir mig.

Við vorum ekki með uppskrift en prófuðum okkur áfram. Þetta heppnaðist fullkomlega.

Það sem þarf fyrir 6

  • 600 g bleikja
  • Ólífuolía sem dekkar bleikjuna
  • Hálf sítróna í bátum
  • 1 skarlottulaukur skorinn fínt
  • 2 hvítlauksgeirar fínt skornir
  • Smjör og ólífuolía til steikningar
  • 2 – 2,5 dl kampavín
  • 1 til 1,5 dl rjómi
  • Safi úr hálfri sítrónu
  • Ca 300 g sellerírót rifin í strimla
  • Eitt epli rifið í strimla
  • 1 mtsk fennel fræ kramin
  • 2 mtsk japanskt majones
  • 2 mtsk ristaðar möndluflögur
  • Smá dill til að skreyta eða fennelgreinar

Aðferð

Setjið bleikjuna í eldfast mót saltið flökin og bætið fennelfræjum yfir og hellið svo olífuolíu yfir þannig að hún þekji fiskinn. Skerið sítrónu í báta og leggið í olíuna, setjið inn í ofn við 60 gráður í 50 mín. Takið út og hellið olíunni af.

Á meðan bleikjan er í ofninum þá takið þið til við salatið. Þetta átti að vera fennel salat en við búum á Íslandi og aldrei hægt að ganga að hráefnum vísum. Fann sem sagt ekki fennel þannig að úr varð sellerirótar salat með fennel kryddi.
Rífið sellerírót niður í strimla, setjið í skál. Rífið svo epli niður líka í strimla, kreistið sítrónu yfir, aðeins minna en hálf sítróna. Kremjið um tsk af fennel fræjum og bætið við þetta ásamt majonesi. Svo um 2 mtsk ólífuolía samanvið og blandið vel.

Kampavínssósa, hljómar voða flókið en er það alls ekki. Skerið skarlottulauk og hvítlauk í smátt, mýkið í smjöri og olíu í potti. Bætið svo 2-2,5 dl kampavíni útí pottinn og sjóðið niður. Loks er það um 1,5 dl rjómi, lækkið hita undir og látið malla aðeins. Smakkið til með sítrónusafa.

Skerið bleikjuna í hæfilega stóra bita og setjið á fallegan disk. Toppið bleikjuna með salatinu, ristuðum möndluflögum og smá dilli. Setjið kampavínssósuna við hliðina og appelsínubát. Berið fram kalt!

Pönnusteikt Heimskautableikja með brúnuðu lauksmjöri, kapers og ristuðum möndluflögum

Það er gaman að setja langa fyrirsögn á einfalda rétti, þá virkar dálítið eins og maður hafi verið að standa í ströngu. En Þessi réttur er elegant og gómsætur og í raun frekar einfaldur í framkvæmd. Bleikjan okkar bara það einföld og góð. Það mikilvægasta í þessum rétt er að ná elduninni á bleikjunni fullkominni.

Það sem þarf (fyrir 4)

  • Fersk bleikja með roði. Magn fer bara eftir hvað menn borða
  • 3-4 mtsk möndluflögur
  • Um 250 g smjör
  • 2 tsk kapers
  • 1 stór gulur laukur
  • 1 kg kartöflur, má vera ögn minna

Aðferð

Best að byrja á möndluflögunum (3-4 mtsk). Ristið þær á pönnu og leggið til hliðar. Svo er það smjörið (um 75g), brúnið það í potti, passa bara að brenna það ekki, við viljum fá dulitla hnetu/karamellu lykt af því. Takið til hliðar, bætið 2 tsk kapers útí. Skera niður stóran lauk í sneiðar og mýkið á pönnu í smjöri. Bætir þessu svo út í brúna smjörið.

Svo er að græja kartöflumúsina, gerið eins og þið eruð vön, ég skræli ca 1 kg af kartöflum, sýð í potti, sigta vatn frá og stappa svo með helling af smjöri, 100 – 150 g. Saltið og smakkið til. Smá rjómi í lokin gerir músina enn meira djúsí.

Bleikjan er svo söltuð með salti og pipar á báðum hliðum. Steikið svo bleikjuna á heitri pönnu í olíu og smjöri, með roðið niður. 3 mín, snúið svo við og bæti aðeins meira smjöri á pönnuna, aldrei hægt að nota of mikið af smjöri. Gott að ausa yfir fiskinn smjörinu og elda áfram í 1-2 mín eða þar til fullelduð.

Hitið brúna smjörið aðeins upp og berið fram. Setjið kartöflumús á disk, leggið bleikjuflakið ofaná og svo toppa þetta með lauksmjörinu og ristuðu möndluflögunum.

Þetta parast sérlega vel með funky gulvíni eða amerískum wild ale. Hvítvín gengur líka en bara svo boring!

Reykt bleikja á amerískum minipönnsum með klettasalati, piparrótarsósu, kavíar og rifnum límónuberki

Það er alltaf ljúft að eiga notalega stund með góðum félaga á flottum veitingastað og láta nostra við sig og bragðlauka.  Stundum upplifir maður eitthvað alveg nýtt og spennandi sem gefur manni hugmyndir og innblástur.   Við Sigrún prófuðum Fjallkonuna um daginn og fengum meðal annars frábæran smárétt, léttgrafin bleikja á lummum með ýmsu öðru gúmmilaði.  Mér fannst þetta frábært combo, bleikja á lummum, geggjað.

Ég ákvað að prófa þetta í kvöld því mig vantaði í raun eitthvað nasl með freyðivíninu sem við opnuðum til að fagna lokum framkvæmda í eldhúsinu.  Þó svo að rétturinn sé innblásinn af Fjallkonunni þá er hann nokkuð frábrugðinn en kom alveg svakalega vel út, ég er jafnvel pínu stoltur svei mér þá!

Það sem þið þurfið fyrir ca 4 (ath þetta er forréttur eða smáréttur):

  • Reykt bleikja, eitt flak
  • klettasalat
  • piparrótarsósa, heimagert eða bara úr búð.
  • kavíar
  • ca 2 límónur, rifinn börkur
  • amerískar pönnukökur (heimagerðar eða tilbúið mix úr búð)
  • gott þurrt freyðivín, Cava eða Champagne t.d.

20191106_190939.jpg

Aðferð:

Byrjið á að gera deigið fyrir lummurnar, eða notið bara tilbúið mix úr búðinni og blandið.  Steikið litlar pönnukökur á pönnu í olíu en gott er að láta reglulega smjörklípu á pönnuna til að fá meiri gljáa á pönnsurnar og bragð.

Græjið piparrótarsósuna, það eru til ótal uppskriftir á netinu. Það er gott að hafa hana dálítið spicy en má þó ekki vera of kraftmikil fyrir bleikjuna.

Lofið pönnsunum að kólna, smyrjið svo piparrótarsósunni á þær, svo setjið þið slatta af klettasalati ofaná, skerið bleikjuna í þunna strimla og raðið ofaná.  Því næst setjið þig smá kavíar ofan á bleikjuna og endið á að rífa börk af límónu yfir.  Ég kreisti líka ögn límónusafa yfir fiskinn til að fá meiri sýru (smekksatriði).

Njótið:

Berið þetta svo fram með límónubátum ef menn vilja meiri sýru.  Parið svo við gott þurrt cava, champagne að annað freyðivín sem þið þekkið og njótið í botn.  Þetta er ljómandi góð samsetning.

20191106_193443-01.jpeg