Ungnauta taco með geggjaðri chili-lime sósu, kóríander og rauðlauk og notalegum Pale Ale

Sorry, þið eruð líklega komin með nóg af taco uppskriftum frá mér en ekki ég samt.  Ég bara verð að lauma þessari með….svo er ég hættur, þetta er bara svo geggjað.  Já og einfalt líka…rosalega einfalt.   Ég ætla í raun að koma hér með tvær útgáfur, fljótlegu og þægilegu útgáfuna sem ég var með í gær og svo lúxus útgáfuna sem tekur aðeins meiri tíma.


wp-1488576578778.jpgFLJÓTLEGA LEIÐIN
: Heimabakað naan tekur tíma og stundum hefur maður ekki þann lúxus.  Þá er bara helvíti gott að grípa tilbúið naanbrauð úr Bónus. Reyndar fékk ég allt í Bónus nema bjórinn.  Það er ekki alveg sama hvaða brauð maður notar það eru til nokkrar útgáfur en þetta hér svínvirkar (sjá mynd) ef maður hendir því í brauðristina en þá verður það dúnamjúkt og fluffy.  Þið finnið það í kælinum.
En að réttnum, mjög einfalt en ó svo gott.  Upprunanlega er sósan eða fleytið eða hvað maður á að kalla það komið úr uppskrift frá Gordon Ramsay en svo hef ég aðeins þróað hana og notað í allt öðru samhengi en Gordoninn.  T.d. eins og hér.  Það sem þarf er:

-Kikkoman Soyasósa – 1 hluti (t.d. 1 dl)
-Ólifu Olía – 1 hluti eða jafnvel ögn minna
-Safi úr 1 lime- má vera úr tveim
-Púðursykur – 1 hluti
-Ferskur Chili, skorinn niður, fræin fara með
-Hellingur af gróft söxuðum ferskum kóríander

Þessu er bara hrært vel saman, fínt að setja í glært fallegt ílát því þetta lookar vel með rauðu chilli og grænum kóríander.
Svo er bara rifinn ostur, veljið eitthvað gott, cheddar t.d.  Hér vorum við með Cathedral extra mature cheddar ost úr Bónus líka, svo er það bara rauðlaukur í þunnum ræmum og loks eitthvað stökkt grænt ss kínakál.

Kjötið,  gott nautakjöt, ég notaði ungnautasnitsel úr Bónus, það leit rosalega vel út og mjög gott en það má nota hvaða nautakjöt sem er.  Gott er að nota hluta af sósunni til að marinera aðeins kjötið og svo er það steikt á heitri pönnu, medium rare eða rare er best.  Loks skorið í eins þunnar ræmur og þið getið.

Brauðið er sett í ristina í smá stund, þá verður það fluffy og mjúkt, brjótið það svo saman til helminga, raðið svo öllu ofantöldu í á fallegan hátt.  Sósan er þunn og lekur út hér á endunum en það er allt í lagi, þetta er götumatur og má vera smá messy!

img_6100

LÚXUS LEIÐIN: Aðeins flóknari en samt ekki mikið, gæðin eru meiri en þó ekki himinn og haf.  Þessa leið ferðu ef þú er með nóg af góðu öli í kælinum og hefur tíma til að dúllast í eldhúsinu.  Byrjaðu á sósunni/marineringunni hér að ofan.  Notaðu gott kjöt t.d. úr einhverri af kjötbúðum landsins.  Byrjaðu á að steikja það og legðu það svo í marineringu í hluta af sósunni.   Farðu svo í að gera naan deigið (sjá hér).  Þegar það er klárt er fínt að vinda sér í að gera bjórlauk (sjá hér).

Loks er bara að undirbúa meðlætið, rífa niður kóríander, kál og rífa niður ostinn.  Farðu í ostabúðina og finndu bragðmikin cheddar ost, osturinn er dálítið lykilatriði þannig að hafðu hann góðan.  Loks er bara að steikja brauðið á pönnu og svo raða í og njóta.

BJÓRINN: Þetta er bragðmikið og ríkt með seltu og ögn chilli og þolir því bjór með karakter og bragð.  Salt og pale ale fer vel saman og ég elska að para kóriander með þessum bjórstíl líka.  Saltið tónar aðeins niður beiskjuna í humlunum en beiskjan eykur hins vegar aðeins á brunann frá chilliinu sem er bara snilld.  Við Íslendingar bjóðum ekki uppá mikið úrval af pale ale einhverra hluta vegna, þetta er gríðarlega vinsæll bjórstíll og á sér mjög breiðan aðdáandahóp og ætti því að vera í mun meira magni hér heima.  Hægt er að fá tvo íslenska pale ale bjóra sem eitthvað vit er í (Einstök Pale Ale er ekki skilgreindur sem íslenskur), GÆÐING PALE ALE og svo SLEIPNIR frá Ölvisholti.  Þess má geta að nú hefur Ölvisholt fengið til sín nýjan bruggmeistara sem jafnframt er fyrsta kona Íslands til að gegna þessu hlutverki.  Ásta Ósk Hlöðversdóttir er reyndur heimabruggari og mikill bjórnautnaseggur en ég þekki hana frá árum mínum á Skúla Craft Bar þar sem við Stebbi Magg réðum hana til starfa áður en einhver annar bar myndi næla í hana.  Við sjáum sko ekki eftir þeirri ákvörðun.  Ölvisholt er í góðum höndum og spennandi að sjá hvað Ásta mun töfra fram fyrir okkur á næstu misserum.

SLEIPNIR er sem fyrr segir amerískur pale ale, 5.4% í ágætis jafnvægi.  Hann er frekar mildur og látlaus en hefur þó karakter og bragð.  Beiskju er stillt í hóf og maltkarakter látlaus.  Þetta er bjór sem allir ráða vel við  og mjög skemmtilegur með t.d. pizzu, hamborgara eða djúsí nauta taco með chilli og lime sósu.  Ef menn vilja svo poppa upplifunina enn meira upp og rífa fram chilli brunann og seltuna væri hægt að nota beiskan IPA, mér dettur t.d. í hug humlasprengjuna JACK HAMMER frá BrewDog en hann tekur vel í án þess þó að stela senunni.