Það er orðið allt of langt síðan við Sigrún gæddum okkur á þessu klassíska bjórsnarli, í raun höfum við ekki gripið í þetta í mörg ár. Við kynntumst þessu fyrst fyrir líklega 15 árum síðan eða svo þegar við Sigrún fórum í bjórferð til Brussel, bjórmekka Evrópu að margra mati. Fram til þess tíma var maður vanur bara saltstöngum og skrúfum með bjórnum sínum en Belgarnir opnuðu alveg augu okkar fyrir öðrum möguleikum. Það var mjög klassískt á nánast öllum börum borgarinnar að þeir buðu upp á osta/kjötbakka með bjórnum.
Belgíska ölið á einhvern veginn bara svo vel við þessa blöndu, við erum að tala um ostabita, súrar litlar gúrkur, sýrður perlulaukur, reykt pylsa og svo sterkt sinnep. Ekki flóknara en svo. Ég man þegar ég bauð fyst upp á þetta á bjórsmökkunarkvöldi í Danmörku, strákarnir voru mjöh hissa en ofsalega ánægðir og kvöldið varð einhvern veginn enn meira spes fyrir vikið.
Við Sigrún ákváðum að rifja upp gamla góða plattann á ljúfu laugardagskvöldi með WESTMALLE DUBBEL sem er einn af Trappist bjórunum margrómuðu.
SNARL PLATTI: Góður fastur ostur, t.d. Gouda, Cheddar, eða álíka. Ég valdi hér Old Amsterdam en ætlaði reyndar að hafa enskan Applewood Cheddar en ostabúðin var bara lokuð. Þessi ostur er létt reyktur og alveg geggjaður með belgískum bjór.
Svo er það pylsan, bara einhver flott reykt pylsa t.d. frá Pylsumeistaranum í Laugalæk, hér notuðum við sterkar pepperonipylsur sem koma vel út.
Svo eru það bara súrar minigúrkur, skornar aðeins niður og sýrður perlulaukur (vantar reyndar á myndina). Loks er mikilvægt að hafa gott sterkt sinnep og þá kemur Dijon fyrst upp í hugann. Við vorum dálítið svöng og því bættum við hráskinku og svo eru pekan hnetur með hunangsslettu bara svoooo gott á svona platta.
BJÓRINN: Svona platti gengur fyrir flesta bjórstíla nema kannski þá allra viðkvæmustu og mildustu eins og hveitibjórinn því sinnep og sterkar pylsur drepa bjórinn niður. Beiskja kemur heldur ekkert allt of vel út með þessu þannig að IPA, DIPA ofl líkir eru ekki bestir í þetta. Belgíski bjórinn er hins vegar fullkominn enda jafnan lítil beiskja í honum. WESTMALLE DUBBEL er belgískur Trappist bjór sem er í senn mildur og mjúkur en mjög bragðmikill með ágætis þrótt. Þessi bjór er ofsalega flottur með þessu en við gætum vel verið með eitthvað annað belgískt ss LEFFE BLOND EÐA DUBBEL, CHIMAY eða hollensku La TRAPPE bjórana.
Aðeins um TRAPPIST.
Munkabjór eins og ég kalla hann eða Trappist bjór er bjór sem þar til nýlega var aðeins bruggaður í Belgíu og Hollandi af Trappist munkum í alvöru munkaklaustrum. Í dag hafa fleiri klaustur víða um heim farið að brugga munkabjór. Sameiginlegt með þessum bjór er að hann er bruggaður af munkum innan veggja klaustursins og má þá bera Trappist merkið sem tryggir upprunann. Bjórinn er reyndar einnig með svipuðum blæ frá öllum þessum bruggklaustrum, sem sagt með belgíska eiginleika eins og ég kalla það. Trappist bjór er til sem blond (um 5-6%), dubbel (7-8%), tripel sem er í krignum 10% og loks quadrupel sem nær enn hærri hæðum. Beiskja er yfirleitt fjarverandi þar sem humlarnir sem notaðir eru eru mildir og látlausir. Hér er belgíska gerið ríkjandi í bragði og einkennandi og svo ýmsir bragðtónar frá esterum sem gerið gefur frá sér. Oft ber á ávaxtakeim, þurrkuðum suðræðnum ávöxtum, döðlum, púðursykur, karamellu ofl. Eftir því sem áfengisprósentan verður hærri verður bjórinn þurrari og beittari án þess að verða beiskur þó. Oft ber dálítið á kolsýrunni. Þessir bjórar eru virkilega flottir og vandaðir og þeir gagna gríðarlega vel með ýmsum ostum.
You must be logged in to post a comment.