Það er svo gaman að ferðast um heiminn og smakka á matarmenningu annarra þjóða og detta inn á eitthvað nýtt. Þannig spretta upp hugmyndir að réttum til að spreyta sig á heima við. Við vorum á dögunum í Prag sem er dásamleg borg og matarmenning mikil svo ég tali nú ekki um bjórinn. Þar smakkaði ég bestu súpu sem ég hef smakkað, já ég segi það bara, ég man alla vega ekki eftir að hafa smakkað betri súpu í langan tíma. Þetta var reyndar á mjög flottum veitingastað uppá þaki í 30 stiga hita með ægifagurt útsýni yfir þessa stórbrotnu borg, þannig að ég var dálítið hræddur um að öll þessi umgjörð hefði ahrif á upplifun mína. Ég mæli alla vega með að þið prófið þennan stað ef þið þvælist til Prag. Staðurinn heitir Coda og tilheyrir Aria lúxushótelinu sem er hið glæsilegasta.
Alla vega, súpa þessi er klassík í tékkneskum matarkúltúr og er í raun dill kartöflusúpa með gæðasveppum,. Mætti líka kalla hana sveppa dill kartöflusúpu? Svo er hefðbundið sett soðið egg í hana en á Coda var notað hleypt egg (poached egg) sem er auðvitað enn meira elegant.

Ég ákvað þegar heim var komið að prófa að gera mína eigin súpu, fullur neikvæðni reyndar því ég var viss um að ég ætti ekki séns að fanga þessa stemningu heima í eldhúsinu. En viti menn, og ég er alveg hreinskilin hér, þetta tókst svona alveg spot on. Geggjað. Uppskriftina fann ég á netinu en þar er aragrúi af uppskriftum af þessari súpu en ég valdi þá sem hljómaði sem líkust Coda súpunni. Ég fékk svo Gunnar Karl, (Dill Restaurant) sem er að mínu mati einn af okkar færustu, til að segja mér hvernig maður gerir Dill olíu. Svona þegar ég hugsa út í það þá skil ég ekki afhverju ég hef ekki gert þetta fyrr.
Það sem þarf (fyrir 4)
Ath þetta er heldur saðsöm súpa og mjg flott sem forréttur, alla vega skammtastærð ætti ekki að vera stór.
- 300g kartöflur
- 40g smjör
- 4 mtsk (40g) hveiti
- 50g sykur
- 15g (hálf dós) þurrkaðir chanterelle sveppir, þetta fæst í Netto og Hagkaup alla vega, ógeðslega dýrt. Má nota aðra þurrkaða sveppi í staðinn
- 200ml rjómi
- 3 mtsk edik, t.d. Hvítvínsedik
- 100g ferskt dill, bara blöðin, ekki stönglar
- 3 mtsk ferskt dill (blöin), fínt skorið
- Um 720ml nautasoð
- 480 ml vatn til að sjóða sveppina í
- Salt og pipar
- 4 hleypt egg
- 200ml bragðlaus olía
Aðferðin
Það er ágætt að byrja á dill olíunni, t.d. bara daginn áður. Það eru til uppskriftir á netinu. Ég fór eftir ráðum Gunna, 100g ferskt dill, bara blöðin, ekki hörðu stönglarnir. Sett í blandara, 200g bragðlaus olía og svo bara blanda vel, 8-10 mínotur. Það á að rjúka uppúr þessu en ég náði ekki því stigi en það kom samt vel út hjá mér. Svo er þetta sigtað í gegnum klút. Tilbúið!

Skolið sveppina í volgu vatni. Setjið 480 ml vatn í pott, sveppina útí og náið upp suðu. Lækkið þá hita og látið malla í 15 mínotur og leggið til hliðar.
Svo er það hveitibollan, setjið 40-50g smjör í pott, bræðið smjör á meðalhita, setjið svo 40-50g hveiti útí og hrærið í ca 1-2 mín þar til þið eruð komin með mallandi massa. Bætið nautasoði (2-3 teningar leystir upp í 720ml vatni) hægt saman við og hrærið stöðugt. Haldið áfram þar til soðið er búið. Sigtið sveppina frá soðinu og bætið því saman við súpuna. Smakkið til með salti. Náið upp suðunni og lækkið svo hitann og látið malla undir loki.
Skrælið kartöflurnar, skerið þær svo í litla kubba, ca 1 cm á kant. Bætið þeim svo út í súpuna ásamt sveppunum. Sjóðið súpuna svo þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Á meðan þetta er að gerast saxið þið dillið fínt, ekki nota stönglana, bara mjúku blöðin og litlu stönglana á þeim. Þegar súpan er tilbúin lækkið þið hitann, hrærið saman við 200 ml rjóma, 3 mtsk edik, 50g sykur og smá pipar. Bíðið aðeins með dillið.
Hleypt egg

Fyllið glerskál með köldu vatni og ísmolum, setjið vatn í pott, ca 2 mtsk epla eða hvítvínsedik saman við og náið upp suðu. Brjótið 4 fersk egg í litla bolla. Þegar suðan er komin upp þá lækkið þið hitann þar til það rétt kraumar í. Takið svo fram sigti, setjið eitt egg í sigtið og látið renna aðeins af því. Rennið svo egginu ofan í pottinn og bíðið í 2 mín og 40 sekúndur. Veiðið eggið upp og rennið því í ísbaðið. þetta stoppar eldunina. Endurtakið fyrir hvert egg. Sjá nánar hér
Takið nú súpuna af hitanum, hrærið dillinu saman við, 3 mtsk. Takið fram 4 fallegar skálar, dreifið súpunni í hverja skál, passið að sveppirnir fari með en þeir vilja falla til botns í pottinum. Setijið eitt egg í hverja skál. Nú klárast eldunin á eggjunum. Skreytið með dillolíunni og ferskum dill greinum og berið fram strax.
Pörunin
Þessi súpa er æðisleg, hún er dálítið sæt en svo kemur réttur skammtur af sýru á móti, stillið þetta af með sykri eða ediki að vild. Súpan er í senn mjúk og þægileg en samt ekki of þung. Samt er hún matarmikil og seðjandi. Ekki hafa hana of heita samt. Með þessu kemur ískald rosé kampavín eða crémant ofsalega vel út. Búbblurnar skera á fituna í súpunni og létta á pallettunni. Ískaldur tékkneskur pilsner er líka frábær með þessu, Pilsner Urquell beint af stáltanki væri auðvitað best en hér heima höfum við jú ekki þann lúxus. Svo er bara að njóta.

You must be logged in to post a comment.