Kartöflur, alls konar uppáhalds

Kartaflan er skemmtilegt grænmeti og ómissandi hluti í matarmenningu flestra þjóða. Kartaflan er í dag fjórða mikilvægasta uppskeran í heiminum á eftir hrísgrjónum, hveiti og maís. Mér finnst reyndar að byggið mætti vera ofar á lista þar sem það er jú undirstaða alls bjórs en það er bara ég.

Kartöflur eru gott meðlæti og oftast flottar soðnar bara, einfalt og gott en það er svo hægt að leika sér endalaust með þær og töfra fram dásamlega rétti. Stundum jafnvel stela kartöflurnar senunni og eru betri en sjálfur rétturinn sem þær eiga að bæta upp. Af og til dett ég niður á svona geggjaðan kartöflurétt en til þessa hef ég svo alltaf bara gleymt þessum réttum skömmu eftir að ég smakka eða elda. Nú langar mig að skrá þetta niður hér svo ég geti gripið í það þegar ég þarf. Ykkur er að sjálfsögðu frjálst að nota þetta líka 🙂

Ofnbakaðar kryddkartöflur að hætti Sigrúnar

Ég ætla að byrja á afar einföldum rétt, reyndar eru þessir réttir allir einfaldir ef út í það er farið. Þennan rétta lærði ég að gera af Sigrúnu minni sem er snillingur í eldhúsinu.

Litlar fallegar smælki kartöflur, eins nýjar og hægt er, helst nýupptekið. Það er þannig að nýrri kartöflur eru betri en eldri. Það þarf ekkert að skræla þessar. Skerið í tvennt og setjið í eldfast mót. Það er svo sem í lagi að nota bara venjulegar kartöflur, þá þarf að passa að skera þær í bita sem eru svipaðir að stærð.

Ólífuolía yfir, slatti, salt og pipar og ferskt timían og rósmarín. Svo er ofsalega gott að skera heilan hvítlauk í tvennt og setja með. Við setjum líka pressaðan hvítlauk yfir. En ofnbakaður heill hvítlaukur verður fáránlega góður og frábær með kartöflunum.

Þetta fer svo bara í ofninn við 200 gráður og bakað þangað til þær eru orðnar stökkar og dálítið krumpaðar. Gott að hræra í þessu annað slagið. Þetta er geggjað og mun slá í gegn.

Stökkt parmesan smælki í skírðu smjöri

Þessar eru alveg magnaðar. Aftur erum við með smælki. Nýrri betri en eldri. Ég held að Beta mágkona Sigrúnar hafi kennt okkur þetta á sínum tíma en man ekki alveg samt!

Við ætlum að gera skírt smjör (ghee) en það viljum við nota svo smjörið brenni ekki þegar við bökum kartöflurnar. Setjið ca 150g smjör í pott á móti 1 kg af smælki. Hitið smjörið á meðal hita í potti í ca 10 mín eða þar til það byrja að falla út gyltir/brúnir bitar og farið að myndast froða á yfirborðinu. Ef þið gerið óvart brúnt smjör þá er það bara allt í lagi, það er þá bara enn meiri karamella og hneta í bragði.

Finnið svo eitthvað ílát og búið til síu úr handþurku. Síið svo smjörið í gegn. Þið ættuð að fá tæran fallegan gulan vökva.

Nú skerið þið smælkið í tvent, hellið skírða smjörinu yfir ofnplötu. Magn smjörs ræðst að stærð plötunnar sem aftur ræðst af fjölda kartaflna. Hafið smjörið þannig að það rétt nái að hylja yfirborðið. Rífið svo parmesan yfir, slatta þannig að osturinn þeki alla plötuna algerlega, raðið þá kartöflunum yfir með sárið niður. Saltið svo yfir og smá timian líka, það er geggjað. Bakið loks í ofni við 200 gráður þar til kartöflurnar eru orðnar stökkar en mjúkar að innan. Þetta er alveg klukkutími! Ef osturinn virist hafa gufað upp sár meginn, ég hef nefnilega lent í því, þá má alveg snúa kartöflunum þannig að sárið snúi upp og bætið svo rifnum parmisan osti yfir og inn í ofninn í smá stund. Pínu svindl en samt betra en að henda kartöflunum.

Auðvitað hægt að krydda þetta að vild, t.d með rósmarín, oregano, timian eða hvað það nú er sem kætir ykkur.

Stökkar hjúpaðar parmesan kartöflur

Þessar eru alveg geggjaðar, ég held ég hafi smakkað þetta fyrst hjá nágranna okkar Björk Snorra!

Skrælið kartöflurnar og sjóðið í potti. Setjið ca 300 grömm hveiti í poka. Hér fer auðvitað eftir hve mikið af kartöflum þið eruð með. En við viljum að hveitið hjúpi vel kartöflurnar. Kryddið hveiti með salti og pipar og mikið af rifnum parmesan, ég hef líka prófað örlítið af reyktri papríku með, ofsa gott.

Slítið svo kartöflurnar til helminga með höndunum og setjið í pokann með hveitinu. Lokið pokanum og hrisstið vel þannig að kartöflurnar fái á sig hveitihjúp.

Setjið kartöflurnar í eldfast mót, setjið svo stórar smjörklípur yfir hér og þar og inn í ofn við 200 gráður. Fylgist með þessu í ofninum. Bætið smjörklípum ofan á ca einu sinni til tvisvar og látið bráðna niður. Þegar kartöflurnar eru orðnar stökkar og gullbrúnar þá er þetta klárt.

Rugl, þetta er dálítið eins og djúpsteikt en samt ekki!

Brakandi andafitu konfekt

Þessar kartöflur kenndi mér að gera Ragnar Freyr Ingavarsson, eða Læknirinn í eldhúsinu eins og hann kallar sig líka. Eins og með hinar uppskriftirnar þá er þetta frekar einfalt. Lykillinn hér er andafitan. Þú færð fituna t.d. í dós af Confit de Canard sem þú færð í Bónus eða Krónunni. Afgangs fitu frystið þið í poka þangað til næst.

Þetta er einfalt, svo einfalt reyndar að mig langar næstum til að semja eitthvað bull til að láta þetta hljóma flókið. En ég geri það ekki samt, við erum saman í þessu.

Sem sagt, skrælið kartöflur, sjóðið svo í vatni með smá salti í ca 7 mín. Ég gleymdi mér auðvitað og tók ekki tíman en þetta á ekki sjóða þar til þær eru tilbúnar.

Setjið svo slatta af hveiti í poka ásamt salti og pipar. Bara svona eftir höfðinu. Setjið svo kartöflurnar í pokann og hristið þannig að hveitið hjúpi kartöflurnar.

Setjið andafitu á pönnu og hitið upp, steikið svo kartöflurnar í fitunni á dálítið háum hita. Við erum ekkert að eltast við að brúna þær en gott að velta kartöflunum aðeins um þannig að það komi aðeins litur á þær og fitan hjúpi allar hliðar (auðvitað eru í raun ekki hliðar á kartöflum, þær eru hnettir en þið vitið hvað ég á við).

Hitið bakarofn í 180 gráður. Svo setjið þið pönnuna í ofninn ef pannan þolir það, annars er það bara að henda þessu í eldfast mót en látið fituna á pönnunni fylgja með. Bakið svo í ca 50 mínútur. Tékkið bara á kartöflunum, þegar þær eru orðnar stökkar og vel litaðar þá eru þær klárar (sjá mynd t.d.). Fólk á eftir að gapa yfir þessu hjá ykkur!

Groddaralega kartöflumúsin sem Máninn minn elskar

Ok kartöflumús er ekki bara kartöflumús. Hér læt ég eina uppskrift með sem sonur minn sem venjulega er ekkert fyrir kartöflur eða kartöflumús elskar. Enn aftur erum við með eins ferskar kartöflur og við finnum.

Við þurfum 1 kg nýjar kartöflur helst smælki , 100 til 150g íslenskt smjör, 1 dl rjóma ca. salt, ekki pipar og 1 dl rifinn parmesan ost

Sjóðið kartöflur með hýði í vel söltu vatni. Sigta mest allt vatnið frá. Stappa kartöflurnar með kartöflustappara. Bætið smjöri saman við og stappið vel saman við kartöflurnar. Bætið svo rjómanum saman við smám saman. Rjóminn er til viðmiðunnar, má vera meira eða minna. Passið bara að músin verði ekki of þunn. Salta eftir smekk og rífið svo parmesan ost í lokin. Þetta er ofsalega ljúffeng kartöflumús!

Kartöflu demantar drekktir í smjöri

Ég fékk þetta hjá félaga mínum og kollega Lækninum í Eldhúsinu fyrir skemmstu, þetta var alveg magnað, drengurinn var með minnir mig lambalundir og alls konar en ég bara man það ekki almennilega því kartöflurnar stálu senunni. Ég spurði Ragnar hvernig hann gerði þetta og hann sagði mér að þessar kartöflur hefðu aldrei komið svona vel út hjá honum áður. Hann var í raun ekki alveg viss hvað hann gerði öðruvísi þessu sinni.

Ég ákvað að láta á reyna og viti menn, þetta kom vel út, líklega með betri kartöflu meðlæti sem maður fær.

Fyrir þennan rétt er best að hafa stórar kartöflur, ekki þó bökunarkartöflur. Afhýðið kartöflurnar, skerið þær svo þannig að þær líti út eins og demantar, sem sagt þannig að þið fáið fram marga fleti á hverri kartöflu. Stærstu hliðarnar eiga að vera yfirborðið og undirlagið, svo skerið þið hliðarnar líka. Sjá mynd!

Skerið allar hliðar þannig að þið myndið eins konar demant.

Setjið kartöflurnar svo á pönnu ásamt heilmiklu smjöri, við erum að tala um amk 100g til að byrja með á pönnu sem er full af kartöflum. Ferskt timian og rósmarín með ásamt 5-6 hvítlauksgeirum.

Látið þetta malla á meðal hita, snúð þeim reglulega þannig að allar hliðarnar brúnist, já smá dútl. Bætið smjöri á pönnuna, kartöflurnar sjúga í sig smjörið, við viljum hafa nóg. Þegar allar hliðar eru brúnaðar þá búið þið til kjúklingasoð og hellið yfir kartöflurnar þannig að það næstum flýtur yfir kartöflurnar. Hér kemur smá twist.

Skv Ragnari á að setja þetta inn í ofn svona, bæta smjöri yfir og baka þangað til vökvinn er uppurinn. Ég gerði þetta svona en mér fannst kartöflurnar ekki verða stökkar eins og hjá Ragnari en þær voru svakalega góðar. Þetta voru munnleg fyrirmæli og mögulega misskildi ég eitthvað?

Ég ætla þó næst að gera þetta svona. ATH hef vissulega ekki prófað sjálfur að gera þetta svona. Sjóðið kjúklingasoðið alveg niður, bætið svo slatta af smjöri yfir, 2-3 hvítlauksgeira og bakið við 200 gráður í ofni þangað til kartöflurnar eru orðnar stökkar og fallegar.

Fylltar bakaðar bacon kartöflur

Þessar eru dásamlegar með t.d. góðri steik. Við duttum fyrst inn á þetta frá Kjötkompaníinu en þessar kartöflur kosta ansi mikið þar og því fórum við í tilraunir heima eins og svo oft áður. Viti menn, við erum komin með jafn ef ekki betri kartöflur fyrir mun minni kostnað,
Finnið til myndarlegar bökunarkartöflur, bakið þær í ofni við 200 gráður þar til þær eru orðnar bakaðar. Við notum 4 kartöflur fyrir 6 manneskjur.

Skerið skallottulauk og hvítlauk smátt og mýkið á pönnu í smjöri. Magnið fer eftir smekk og magn af kartöflum. Takið laukinn af pönnunni en ekki skola pönnuna. Steikið bacon á sömu pönnu þar til orðið stökkt. Skerið svo baconið smátt og setjið til hliðar. Takið kartöflurnar út úr ofni skerið til helminga og skafið kartöflurnar innan úr hýðinu en passið að gera ekki gat á hýðið. Geymið hýðið. ATH við náum ekki að fylla öll hýðin því vi viljum kúffylla hýðin.

Stappið kartöflurnar í smjöri, mikið af smjöri, blandið við bacon, lauk og hvítlauk á pönnunni. Rífið heilan hvítlauksost yfir og kryddið með salt og pipar. Blandið þessu saman. Þynnið með rjómaosti og smá rjóma ef þarf. Við notuðum ca 1/2 til heilan dl rjóma og tvær kúfaðar mtsk rjómaost á 4 kartöflur. Fyllið svo aftur hýðin með “kartöflustöppunni”, rífið rest af hvítlauksostinum yfir eða einhvern annan ost og kryddið með smá reyktri papríku. Setjið svo inn í ofn aftur til að hita aðeins upp og bræða ostinn. Berið svo fram. Svakalega gott með góðri ribbeye steik t.d.

Kúffyllið hýðin, athugið að það verður ca einn hýðishelmingur afgangs! Bakið svo aftur til að hita þetta upp og bræða ost.

Ég er að safna svona kartöflu töfrum, ef þið lumið á einhverju geggjuðu þá endilega sendið á mig línu og ég prófa!

Stökkar kartöflur steiktar í andafitu

Þessi réttur fékk svo mikla athygli á instagramminu okkar að ég ákvað að henda hér inn uppskrift. Stökkar kartöflur steikar í andafitu, fullkomið meðlæti með alls konar mat. Ég fékk þessa uppskrift hjá vini mínum Lækninum í Eldhúsinu en ég er svo sem ekki viss um að hún sé alveg eins því þetta var bara svona munnleg uppskrift frá honum í gegnum konuna mína og til mín. En það er allt í lagi, þetta er bara geggjað og kom mér í raun óvart hversu vel þetta kom út, ef einhver hefði fært mér þetta hefði ég veðjað á að þetta væru djúpsteiktar kartöflur.

Það sem þarf í þetta:

  • Kartöflur, skrældar
  • smá salt og pipar
  • andafita (t.d. sem umlykur confit de canard í dós)
  • hveiti

Aðferðin

Þetta er einfalt, svo einfalt reyndar að mig langar næstum til að semja eitthvað bull til að láta þetta hljóma flókið. En ég geri það ekki samt, við erum saman í þessu. Ég var með önd sem ég kaupi í dós, Confit de Canard, en þessi önd er alveg fáránlega góð. Andalærin eru umlukin andafitu í dósinni sem ég notaði að hluta til í þessar kartöflur en restina geymi ég t.d. þar til næst bara.

Sem sagt, skrælið kartöflur, sjóðið svo í vatni með smá salti í ca 7 mín. Ég gleymdi mér auðvitað og tók ekki tíman en þetta á ekki sjóða þar til þær eru tilbúnar.

Setjið svo slatta af hveiti í poka ásamt salti og pipar. Bara svona eftir höfðinu. Setjið svo kartöflurnar í pokann og hristið þannig að hveitið hjúpi kartöflurnar.

Setjið andafitu á pönnu og hitið upp, steikið svo kartöflurnar á dálítið háum hita. Við erum ekkert að eltast við að brúna þær en gott að velta kartöflunum aðeins um þannig að það komi aðeins litur á þær og fitan hjúpi allar hliðar (auðvitað eru í raun ekki hliðar á kartöflum, þær eru hnettir en þið vitið hvað ég á við).

Hitið bakarofn í 180 gráður. Svo setjið þið pönnuna í ofninn ef pannan þolir það, annars er það bara að henda þessu í eldfast mót en látið fituna á pönnunni fylgja með. Bakið svo í ca 50 mínotur. Tékkið bara á kartöflunum, þegar þær eru orðnar stökkar og vel litaðar þá eru þær klárar.

Gangi ykkur vel!