Philly Cheesesteak, rib-eye steikarsamloka

Ég hef einu sinni smakkað það sem menn kalla philly cheesesteak í Bandaríkjunum en það er nautasteik og ostur ásamt steiktu grænmeti borið fram á ristuðu langbrauði. Þessi samsetning er ættuð frá Philadelphia USA og má kannski segja að sé forveri eða fyrirmynd Hlöllabátanna? Ég veit ekki en þetta minnir mikið á minn uppáhalds Hlölla, Sýslumanninn! Alla vega, sonur minn spurði mig um daginn hvernig philly steik bragðast, hann langaði að smakka og þar sem það er mjög langt að ferðast til Philadelphiu þá ákvað ég að skoða uppskriftir og henda saman í þetta. Ég var staddur í bústaðnum okkar og því með takmarkaða vinnuaðstöðu en þetta gekk og var hrikalega gott.

Við Sigrún höfum gaman að því að finna drykki sem passa vel við matinn okkar. Paranir þar sem drykkurinn bætir við eða upphefur matinn og líka öfugt, það er ótrúlega gaman að upplifa þetta. Að þessu sinni sáum við fyrir okkur öflugan IPA með sinni humlabeiskju og bit en jafnframt sætu. Úlfur Úlfur er frábær double IPA frá Borg Brugghús en hann paraðist fullkomlega við þennan rétt.

Það sem þarf fyrir 5

Kjötið og osturinn er í aðalhlutverki hér og því þarf að velja gott hráefni. Ég náði mér í tvær fallegar rib-eye steikur en það má samt nota annað kjöt svo lengi sem það er fitusprengt og djúsí. T.d. Chuck flap steik, ég hefði notað hana en hún var ekki til hjá Sælkerabúðinni þar sem ég kaupi allt mitt kjöt.

Sonur minn valdi ostinn, Hávarður sem er flottur havarti ostur og svo völdum við góðan þroskaðan cheddar ost fyrir bechamel ostasósuna. Svo er það brauðið, ég veit ekki hvernig brauð er best í þetta en ég notaði Hlöllabrauð en það fæst í Nettó, stundum!

  • Gott kjöt, ca 720 grömm
  • Havarti ostur, ég notaði vel rúmlega hálft stykki
  • Cheddar fyrir sósuna
  • Paprikur, 2 stk.
  • Laukur, 1 stór skorinn í sneiðar
  • Hlöllabrauð, 5 stk ristuð í ofni
  • Sveppir, sneiddir og steiktir. Er ekki klassískt á philly steik samt
  • Smjör, hveiti, salt og pipar. Önnur krydd að vild

Aðferðin

Ok, nú verða kjötvinir kannski smá sárir en ég byrjaði á að setja steikurnar inn í frysti. Já því það þarf að skera það niður í örþunnar sneiðar og það er best gert með kaldar steikur. Passa að frysta samt ekki steikurnar.

Á meðan steikurnar eru í frystinum er fínt að græja grænmetið. Sneiðið papríkurnar og laukinn og auðvitað sveppina ef þið eruð með þá. Mýkjið papríku og lauk á pönnu í ólífuolíu, ég nota alltaf smjör líka, það verður bara betra þannig. Salt og pipar og annað krydd að vild. Ég var með ferskt rósmarín sem ég skar smátt. Látið þetta malla. Sveppina steiki ég sér í miklu smjöri, salt og pipar, smá estragon og svo er alltaf gott að nota eitthvað áfengi eins og púrtvín til að poppa þetta upp.

Ekki gleyma kjötinu, tékkið á því, þegar það er orðið vel kalt og stíft finnið þið hárbeittan hníf og skerið steikurnar í þunnar sneiðar, eins þunnt og þið getið. Trimmið samt fitu og sinar af fyrst. Saltið og piprið kjötið og látið standa þar til allt er klárt.

Gerið bechamel ostasósuna. 50g smjör sett í pott og látið bráðna, bætið svo 50 g hveiti samanvið og hrærið, látið malla aðeins, svo þarf að þynna þetta með mjólk þannig að þetta verði kannski eins og súrmjólk, salt og pipar eftir smekk, smakkið til. Bætið svo rifnum osti samanvið, t.d. Cheddar eða eitthvað annað spennandi. Ca 100 – 150 g ostur en þið bara smakkið það til. Látið ostinn bráðna vel saman við, þynnið þetta með mjólk eða vatni. Smakkið til með salti. Leggið til hliðar.

Nú er allt klárt fyrir kjötið. Hitið ofn í 180 gráður, verið tilbúin með brauðið, það má ekki fara of fljótt inn í ofn svo það brenni ekki. Nú er það spurning með pláss. Ég gat bara gert tvo skammta af kjöti í einu en ef þið eruð með stærri pönnu þá gerið þið meira í einu. Ég skipti kjötinu í 5 skammta, sama með papríkuna og laukinn. Svo er það bara olía á pönnu, stillið á meðal til háan hita. Skellið kjötinu á, þetta tekur mjög stuttan tíma. Ekki ofelda. Ágætt að henda brauðinu inn í ofn núna.

Steikið kjötið í ca mínútu, hrærið svo í því aðeins og bætið grænmetinu ofan á, lækkið hitann eða takið pönnuna aðeins af. Blandið kjöti og grænmetinu saman. Skellið ostinum á, margar sneiðar, þetta er ostasteik. Þegar osturinn er bráðnaður þá blandið þið öllu saman. Setjið pönnuna á hita ef þarf en ekki hafa þetta of lengi á hitanum. Í raun bara á meðan osturinn er að bráðna inn í blönduna. Það má krækja í einn kjötbita til að smakka og kanna ástandið.

Takið brauðin út og skammtið ostakjötblöndunni á hvert brauð. Ekki gleyma sveppunum. Setjið svo bechamel ostasósuna yfir og berið fram með góðum double IPA já eða bara ísköldu kók glasi!

Það má svo auðvitað bæta þetta stökkt kál, tómata eða eitthvað annað ef maður vill en þá er maður kominn út fyrir conceptið philly cheesesteak!