Ofngrillaður humar í hvítlaukssmjöri með Tripel Karmeliet og Hva Saa!? frá Mikkeller

Það eru eiginlega forréttindi að geta gætt sér á íslenskum humar. Þetta er einstakt en rándýrt hráefni sem ber að handfjatla með virðingu. Það eru til margar aðferðir að elda humar en mér finnst alltaf best að grilla eða ofnbaka uppúr smjöri og hvítlauk því þannig nýtur humarinn sín best, svo einfalt er það bara. Við þekkjum öll vel hve hvítvín og humar fara vel saman eða kannski er það bara það eina sem við höfum prófað? Það er fín pörun og á fullkomlega rétt á sér en er þetta besta pörunin? Það er góð spurning og bara um að gera að kanna það.


RÉTTURStór humar grillaður í ofni með hvítlaukssmjöri, hvítvíni/bjór (LEFFE BLOND t.d) og rjóma.  Skelin er klippt upp, humarinn er svo dreginn úr skelinni og settur upp á hana. Humri er svo raðað í eldfast mót.  Því næst vel af hvítlaukssmjöri yfir humarinn, svo er bjór (1.5dl) eða hvítvíni hellt yfir og 1.5 dl rjóma. Svo er þetta sett í ofn á grill í 3-6 mín.  Smakkið humarinn til og passið að ofelda ekki.

HVÍTLAUKSSMJÖRIÐ:  T.d. þessi hér uppskrift frá Eldhússögum. Allt sett í matvinnsluvél og maukað vel.

 • 1 rauður chilipipar, fræhreinsaður
 • 1 búnt steinselja
 • 2-3 heilir hvítlaukar, afhýddir (já, þú last rétt, 2-3!)
 • 500 g smjör, við stofuhita
 • 1 msk maldonsalt
 • reykt paprikuduft á hnífsoddi
 • svartur pipar úr kvörn

BJÓRINN: Belgískt öl er tilvalið fyrir humarinn því það er jafnan ekki mjög beiskt en hefur þó mikinn og skemmtilegan karakter.  Við viljum alls ekki nota bjór sem yfirtekur viðkvæman humarinn.  Við völdum hér TRIPEL KARMELIET sem er stórkostlegur belgískur abbey bjór eða klausturöl með mikil krydd og kræsingar.  Bjórinn yfirtekur bragðlaukana og hreinsar dálítið humarinn frá og maður fær að njóta alls sem bjórinn hefur að bjóða.  Svo stelur humarinn aftur senunni í næsta bita og fær fyllilega að njóta sín á eigin spítur.

MIKKELLER HVA SÅÅ (belgískur pale ale með villigeri) var hinn bjórinn sem við völdum en hann hafði þver öfug áhrif.  Virkilega skemmtilegt því hér tvinnast bjór og réttur saman í mjög spennandi fléttu sem kemur stórkostlega út í munni.  LEFFE BLOND sem við notuðum í soðið passar líka vel.  Endilega að prófa þetta en þessi bjór fæst allur í vínbúðinni góðu.


Við Sigrún skelltum okkur á nýju ári í bústað, allt á kafi í ævintýralegum snjó og góð stemning.  Ég er vanur að elda humar á sumrin en hann gengur svo sannarlega á veturnar líka.  Við ákváðum að prófa bjór með að þessu sinni, reyndar eitthvað sem við höfum oft gert áður.  Þegar maður drekkur bjór með humar þarf að fara varlega, við viljum alls ekki og ég undirstrika alls ekki yfirgnæfa viðkvæmt bragðið af humrinum með of bragðmiklum bjór.

img_5739

Byrjum á humrinum, höfum það bara einfalt því það er oftast lang best. Humar ofnbakaður í hvítlaukssmjöri með steinselju og góðu brauði með.  Hér viljum við alvöru humar, ekki skelbrot eða eitthvað bland, við erum að tala um stóra flotta og glæsilega humarhala. Svona þannig að maður tekur andköf þegar askjan er opnuð.  Ja eða þannig. Gott er að klippa skelina eftir endilöngu og kippa svo humrinum upp á skelina. Við þetta hverfur oftast görnin sjálfkrafa en ef hún er enn til staðar er auðvelt að taka hana frá undir rennandi vatni. Þetta er dálítið dútl en gengur þó furðu hratt, sérstaklega ef maður er með góðan bjór við höndina og ljúfa tónlist. Mér finnst best að kremja aðeins humarinn áður en byrjað  er til að brjóta skelina aðeins að neðan, þá er auðveldara að kippa humrinum uppúr skelinni. Humrinum er svo raðað í eldfast mót og svo er smjörblöndunni smurt á humarinn, og hér spörum við ekkert smjörið.

HVÍTLAUKSSMJÖRBLANDAN. Ég hef prófað margar útgáfur, þessi hér er mjög flott, þessa fékk ég af Eldhússögum en notið endilega það sem þið eruð vön að nota ef það er gott.

 • 1 rauður chilipipar, fræhreinsaður
 • 1 búnt steinselja
 • 2-3 heilir hvítlaukar, afhýddir (já, þú last rétt!), gott að nota solo-hvílaukana sem koma í heilu.
 • 500 g smjör, við stofuhita
 • 1 msk maldonsalt
 • reykt paprikuduft á hnífsoddi
 • svartur pipar úr kvörn

 

img_5745Þegar smjörið er komið á er HVÍTVÍNI hellt yfir, 1.5 dl eða meira, það er alveg í lagi. Við Sigrún kláruðum óvart nánast allt hvítvínið kvöldið áður í heita pottinum en við áttum að sjálfsögðu til bjór þannig að ég hellti flösku af Leffe Blond yfir humarinn í staðinn og það kom sko vel út, maður lifandi. 1.5. dl RJÓMA er einnig hellt yfir.

Gott er að láta þetta standa aðeins og lofa bjórnum/víninu að vinna sig inn í humarinn. Svo skellum við þessu bara inn í ofn á 225 gráður í 5-6 mín. Gott er að tékka bara á humrinum eftir þennan tíma, ef vantar aðeins uppá þá bætið þið við 2-3 mín, passa bara vel að ofelda ekki humarinn því þá er þetta búið.

Gott brauð með er nauðsynlegt því smjörið bráðnar niður í bjórinn/hvítvínið og rjómann og myndar dásamlega sósu við eldunina sem maður verður að sjúga upp með góðu brauði.  Við notuðum ofnbakað nanbrauð að þessu sinni.

BJÓRINN sem fullkomnar réttinn. Að þessu sinni völdum við Sigrún belgískan bjór því við viljum ekki of mikla beiskju og humla með þessum rétt en belgískur bjór er ekki þekktur fyrir beiskjuna. Belgíska gerið er kraftmikið og dularfullt og gengur mjög vel með sjávarfangi sem kallar á bjór sem ekki er of massífur. TRIPEL KARMELIET er einn af okkar uppáhalds belgíska öli, þetta er bragðmikill og flókinn abbey/klausturöl sem er stórkostlegur einn og sér en líka flottur matarbjór.  Við erum hér með notalega ávaxtasætu og skemmtilegt gerkrydd og svo dásamlegan yl frá 8.4% áfengis. Við Sigrún förum í þennan þegar við viljum eiga virkilega notalegar stundir. Tripel Karmeliet gengur vel með humrinum, hann stelur ekki senunni en heldur alveg sínum karakter. Bjór og humar upphefja ekki hvorn annan heldur tekur bjórinn við boltanum frá humrinum. Það er að segja viðkvæmar bragðflækjur máltíðarinnar staldra við í munni og fá að njóta sín alveg þar til bjórinn tekur við með sínum einstöku bragðtónum. Við næsta munnbita tekur svo humarinn völdin aftur. Mjög skemmtilegt.

img_5757

Þegar við förum í MIKKELLER HVA SÅÅ? er allt annað uppá tengingum. Hér tvinnast bjór og réttur saman í mjög flotta fléttu. Bjórinn er af gerðinni belgískur pale ale með villigeri og er túlkun Mikkellers á belgíska Trappist bjórnum Orval. Bjórinn er mjög sérstakur fyrir óvana bragðlauka sökum villigersins sem gefur svo kallaðan „funky“ keim sem mjög erfitt er að lýsa. Menn reyna með „leður“, „háaloft“, „mysa“, „fúkkabragð“ ofl. Bjórinn er mildur en þó með dálítið humalbit í restina. Þetta kemur mjög vel út með humrinum og fléttast vel saman við hvítlaukinn. Beiskir humlarnir klippa fituna niður í smjörinu og rjómanum án þess að drepa niður humarkeiminn. Hér finnur maður svo bæði bjórinn og humarinn í eftirbragði alveg þar til að kemur að næsta bita.  Virkilega skemmtilegt.  Við Sigrún gátum ekki alveg ákveðið okkur hvor pörunin var betri og því höfum við báða bjórana með hér.  Ég held reyndar að þýskur gose sem er súrbjór með ögn seltukeim gæti komið gríðarlega vel út með þessum rétt líka.  Prófa það næst!