Einn besti mánudagur í langan tíma. Stout reykt grísarif með fáránlegri stout BBQ sósu og auðvitað stout í glasi

Ok það er mánudagur leiðinlegasti dagur vikunnar og svo er grenjandi rigning og rok í þokkabót. Ég var búinn snemma í vinnunni í dag og ákvað að reyna að bjarga deginum. Hvað er þá betra en eitthvað gott í gogg skolað niður með einhverju enn betra? Mig langaði að grilla, sama hvernig veðrið var enda var ég nokkuð viss um að ef ég myndi fara út að grilla þá myndi sólin koma fram. Það gerðist reyndar ekki, en það hætti samt að rigna þegar ég kom út með kjötið og sólin aðeins gægðist fram, það er eitthvað. Annars var það svo sem ekki málið, það er nefnilega líka Game of Thrones kvöld í kvöld, já fyrsti þáttur í síðustu seríunni og þá er eins gott að hafa dálítið huggulegt.

Ég ákvað að prófa þessa uppskrift, af því að ég hafði dálítinn tíma. Þetta er stout reykt grísarif í stout bbq sósu með hrásallati (coleslaw). Uppskriftina sá ég á Thebeeronesse á instagram. Ef þetta lagar ekki súra mánudaga þá er ekkert sem gerir það.

Það er gott úrval af stout hér á klakanum þannig að það er af nóg að taka, ég ákvað að nota Ghost Rider frá Gæðingi enda um ofsalega nettan stout að ræða. Engir öfgar en er þó með karakter og bítur ögn frá sér. Það eru áberandi ristaðir tónar, brennt kaffi og ögn lakkrís enda er smá lakkrís í bjórnum. Beiskja merkjanleg en þægileg, frekar þurr en sætur á tungu. Þennan

Það sem þarf (fyrir 4)

fyrir reykta dæmið

  • 2 bollar viðarspænir, t.d. Hickory kubbar frá Grillbúðinni, það eru til margar sortir
  • 1 og 1/2 dós stout, t.d. Ghost Rider Stout
  • tveir álbakkar, ekki með gati í botninn
  • tveir einnota ál grillbakkar
  • bökunarplata djúp
  • ofngrind

fyrir aðalréttinn

  • grísarif, 1 kg ca
  • 1 lítill rauðkálshaus
  • 1 lítill hvítkálshaus
  • 5-6 gulrætur
  • 1/2 krukka majones
  • 1 – 2 tsk gróft sinnep
  • 1/2 dós sýrður rjómi.

fyrir BBQ sósuna á kjötið

  • 1 msk ólífuolía
  • 4 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 1/4 bolli Kikkoman soyasósa
  • 170g tómatpúrré
  • 2 msk Worcestershire sósa
  • 2 msk epla edik
  • 2 tsk sriracha sósa
  • 2 tsk reykt papríkuduft
  • 1 tsk laukkrydd
  • 1 dós stout
  • 1/3 bolli púðursykur

20190415_2228042119510875.jpg

Aðferð

  1. Þetta er skemmtilegt dútl, að byggja lítinn „reykofn“ og svo töfra fram kræsingar, magnað. Byrjið á viðarkubbunum. Setjið þá í skál, 2 bollar og svo hellið þið einni dós af stout yfir. Það þarf að dekka alveg kubbana og ath þeir draga í sig bjórinn. Það þarf því að passa að fljóti alltaf yfir, bæta þá bjór eftir þörfum. Látið standa í amk 2 tíma, eða jafnvel sólarhring.
    .
  2. Svo er fínt að finna eitthvað tilbúið kryddnudd á kjötið eða blanda eitthvað gott saman bara og nudda í kjötið. Ég fann eitthvað Jamaican Jerk Spices (úr Nettó) og notaði það en það var bara af því að ég fann ekkert annað. Þetta var samt alveg geggjað. Látið svo kjötið standa bara á meðan þið græjið annað.
    .
  3. Setjið ca 1 msk af ólifuolíu í pott og náið upp meðal hita, pressið 4 geira af hvítlaug í pottinn og mýkið aðeins. Bætið svo öllu hinu í pottinn 1/4 bolli soya sósu, 170g (ein dós) tómatpúrré, 2 msk Worcestershire sósu, 2 msk epla edik, 2 tsk sriracha sósa, 2 tsk reykt papríkuduft, 1 tsk laukkrydd, 330 ml stout, 1/3 bolli púðursykur. Hrærið þessu öllu saman og látið krauma við meðal hita. Hrærið í öðru hvoru þar til þetta er orðið dálítið þykkt og djúsí. Safnið sósunni svo saman í stóra krukku.
    .
  4. Þegar viðarkurlið hefur staðið nægilega lengi er því dreift út á djúpa ofnplötu, ekki með öllum vökvanum. Svo er nokkrum matskeiðum af vökvanum dreift yfir. Setjið svo ofngrind yfir. Takið einnota álbakka, gerið göt á hliðarnar, ekki botninn og leggið ofan á grindina. Loks er einnota ál-grillbakka sett ofan á álbakkann og svo kjötið þar ofaná. Pakkið þessu svo vel inn í álpappír, með ofnplötunni og öllu þannig að enginn reykur sleppi út úr þessu.
    .
  5. Hitið grillið, reynið að hafa það í kringum 170-200 gráður. Setjið svo reykofninn á grillið og látið malla í um 2 tíma eða svo. Eða þar til kjötið er orðið laust dálítið frá beinunum. Takið þá kjötið af og pennslið með BBQ sósunni og fírið vel upp í grillinu. Grillið svo kjötið í ca 3 mín á báðum hliðum og berið svo fram.

20190415_193632-011475822900.jpeg

Hrásallatið er einfalt. Skerið rauðkálið fínt í ræmur, sama með hvítkálið og gulræturnar. Blandið þessu svo saman í skál með majó og sýrðum rjóma, smá epla edik, gróft sinnep, ca tsk og salt og pipar eftir smekk og berið fram.

Pörunin

Ok þetta er ekki fine dining heldur dálítið messí puttamatur en þetta er alveg hrikalega gott. Ég held ég geti aldrei borðað aftir svínarif nema á þennan máta. Kjötið dettur af beinunum í munninn og leysist í sundur, mjúkt og dálítið feitt og djúsí. Reykurinn er vel merkjanelgur og svo þessi svakalega sósa sem rífur aðeins í. Ferska hrásallatið léttir á öllu og svo er þessi notalegi stout ofsalega kærkominn með ögn beiskju og bit sem er gott mótspil við allri mýktinni og fitunni í kjötinu. Ristin og kaffið tengir vel við reykinn í kjötinu en svo er einnig ögn sæta sem á vel við karamelliseringuna á kjötinu. Ég held að ég myndi ekki vilja hafa neitt annað með þessu en akkúrat þetta. Gæðingur Ghost Rider er snilld hérna og svo er hann á þægilegu verði líka.

Við skulum ekki gleyma því að í BBQ sósuna er heil dós af Ghost Rider og svo er önnur og rúmlega það í viðarspæninum. Þetta tengir allt lúmskt saman í restina. Uss og það besta er, sólin kom fram þegar ég setti þetta á grillið. Það er aftur aftaka veður í dag, spurning um round tvö?

IMG_8663