Kjúklinga Saltimbocca

Stundum má gera einfalda rétti, sérstaklega þegar útkoman er svona gómsæt. Þessa uppskrift fundum við á Vínotek fyrir löngu síðan og höfum við stuðst nokkurn vegin við hana, síðan.

Það sem þarf fyrir 4

  • 3-4 kjúklingabringur
  • 3 pakkar af parmaskinku
  • 8 stk fersk salvíublöð
  • Hveiti
  • Salt og pipar
  • 3 dl þurrt hvítvín
  • Kjúklingasoð
  • 100 g smjör, kalt í litlum kubbum

Aðferð

Skerið kjúklingabringurnar eftir endilöngu og opnið þær eins og bók. Ekki skera alveg yfir því þá skemmum við bókina. Leggið kjúklinginn svo á smjörpappír og setjið aðra örk yfir og fletjið aðeins út með þungu kefli. Saltið og piprið, leggið tvö salvíublöð á hverja bringu. Setjið svo 2-3 sneiðar af parmaskinku yfir hverja bringu. Loks leikið þið sama leikinn og berjið bringurnar aftur á milli sjörpappírsarka með kefli þannig að þær verði örþunnar og skinkan merst inn í kjötið.

Setjið hveiti í skál og veltið bringunum upp úr hveitinu.

Steikið svo bringurnar í smjöri og olíu, fyrst með skinkuhliðinni niður svo á hinni hliðinni. 2-3 mín á hvorri hlið. Bætið við smjöri og smá olíu ef þarf. Setjið svo bringurnar í eldfast mót og bakið í ofni við 200 gráður. Ekki þrífa pönnuna.

Gerið svo sósuna á meðan kjötið er í ofninum. Hún er sára einföld. Notið pönnuna sem þið voruð með fyrir bringurnar. Bætið út á hana amk 3 dl hvítvín, ég enda oftast í rúmlega. Um mtsk bragðmikið kjúklingasoð líka og nokkur fersk salvíublöð. Látið sjóða niður til ca helminga. Bætið þá nokkrum köldum smjörteningum útí og hrærið. Smakkið til með salti og pipar.

Berið fram kjúklingabringur með kartöflumús t.d. og hellið sósunni yfir.

Njótið með kraftmiklu rauðvíni eða góðu eikuðu hvítvíni