Djúpsteiktur grískur Saganaki ostur

Við heimsóttum krít núna í sumar og drukkum svo sannarlega í okkur gríska matarmenningu. Eitt af því sem við tókum með okkur heim var steiktir osturinn Saganaki. Reyndar talað um djúpsteiktan fetaost en það var oft líka guyere eða annar sambærilegur ostur. Ef maður skoðar uppskriftir þá er ekki talað um djúpsteikt samt. Alla vega það er hægt að gera bæði. Ég er búinn að prófa nokkrum sinnum eftir að ég kom heim að steikja ostinn á pönnu í mikilli olíu. Fólk var að kalla eftir uppskrift á instagramminu áðan og því ákvað ég að henda þessu inn hér enda afar einfalt.

Það sem þarf fyrir ca 2-4

  • Grískur fetaostur 2 stk ef þú finnur, annars íslenskan salatost. Eða gruyere ost sem er geggjaður líka.
  • Ein sítróna skorin í báta
  • Balsamic crema
  • Slatti af olíu til að steikja uppúr
  • Hveiti til að velta ostinum uppúr
  • 2 egg, pískuð í skál
  • Pancho rasp til að velta ostinum uppúr
  • 1-2 tsk rósmarín krydd
  • 2-3 tsk oregano
  • 1 tsk reykt papríka
  • Salt og pipar

Aðferð

Þetta er svo einfalt, snýst aðalega um að brenna sig ekki á olíunni. Taktu fram þrjár skálar, settu hveiti í eina, tvö egg í aðra, pískuð og pancho rasp í þá þriðju. Kryddið raspið með kryddunum og blandið.

Takið ostin úr umbúðunum, skerið í tvo þríhyrninga og velti fyrst upp úr hveitinu, allar hliðar. Ef osturinn er of þurr þá má bleyta hann með vatni. Dustið aðeins hveitinu af, veltið svo ostinum uppúr eggjunum og því næst uppúr raspinu þannig að osturinn hjúpist vel á öllum hliðum. Líka á röndinni.

Hitið olíu í djúpri pönnu. Hafið vel af olíu þannig að osturinn hálf drekkist í henni. Þegar olían er orðin heit þá er bara að skella ostinum varlega út í og steikja á báðum hliðum þar til allar hliðar eru orðnar gullbrúnar og osturinn mjúkur að innan.

Setjið ostinn á disk, sprautið balsamic kremi yfir og berið fram með sítrónusneiðum.