Ramen núðlur með ungnautafilet og eggjum

Ég var með spúsunni í matar og bjórferð í Kaupmannahöfn um daginn. Gríðarlega skemmtileg ferð. Á leiðinni heim var ég ekki kominn með nóg af mat og drykk en sem betur fer er ekki of seint að njóta þó þú sért kominn í gegnum öryggisleit á Kastrup flugvelli. Þar er nefnilega Mikkeller með bar og beint við hliðina á er Ramen to Bíiru sem er í eigu Mikkel Bjergsø og Daisuke Uki og er ekta japanskur núðlustaður sem sameinar japanskan skyndimat og hágæða danskan handverksbjór. Ég náði mér þarna í ljúfan öl á Mikkeller og spicy núðlur með grísasíðu og eggi. Ég var mjög sáttur því í mörg ár hef ég verið að stefna á að prófa Ramen to Bíiru en aldrei náð því. Í stuttu máli var þetta bara alveg geggjað og bjórinn parast einkar vel við.

Það góða við Evrópuflug er að þú getur flogið heim á kristilegum tíma, við vorum t.d. lent kl 16:30 og komin í Krónuna klukkutíma síðar og ég farinn að elda Ramen 40 mín eftir það. Já ég eldaði með ómissandi stuðningi Sigrúnunnar minnar spicy ramen núðlur með ungnautafilet og hálflinsoðnum eggjum. SVAKALEGA GOTT!

Galdurinn er að gera gott soð, ég man ekki alveg hlutföllin því þetta er bara svona að prófa sig áfram dæmi, smakka til en ég reyni hér að henda niður svona circa það sem ég gerði. Svo er bara að smakka sig áfram.

Það sem þarf fyrir 5

 • 500 g Ungnautafilet eða annað gott nautakjöt
 • 7 egg
 • 2-3 L nautasoð (vatn blandað með 3-4 mtsk nautakrafti)
 • 2-3 mtsk ferskur, rifinn engifer
 • 4 hvítlauksrif, rifinn
 • 2 dl soyasósa
 • 1 mtsk sriracha sósa
 • 2 tsk fennel fræ
 • 4 mtsk Tom Yum Paste (áttum ekki til miso paste)
 • 4 stjörnuanis
 • 2 tsk salt
 • 1 mtsk sesamolía plús sletta til að steikja kjötið uppúr
 • 1 tsk sterkar chiliflögur
 • 1 lime skorið í báta
 • Portobello sveppur skorinn í bita (af því að ég átti til einn)

Fyrir marineringu

 • 1 tsk Rósapipar, mulinn
 • 2 tsk reykt papríka
 • Salt
 • rifinn ferskur engifer
 • 3 tsk hvítlausksalt
 • 2 tsk kóríander krydd
 • 2 mtsk soyasósa
 • 2 mtsk ólífuolía
 • 1 mtsk el Toro krydd

Aðferðin

Ok ég byrjaði á að skera kjötið í ca 6-7 mm þykkar sneiðar og krydda. Fann til það sem ég átti, kóríander krydd, toro krydd, reykt papríka, hvítlaukssalt og steytti svo rósapipar og smá salt yfir. Nuddaði þessu inn í kjötið. Bætti kóríander kryddi við og svo reif ég helling af engifer, líklega verið um 2 tsk og dreifði yfir kjötið. Bleytti vel í með soyasósu og ólífuolíu og lét svo bara standa svona.

Sauð næst eggin, það hefur tekið mig dálítinn tíma að finna út úr hvernig ég næ íslenskum eggjum hálflinsoðnum en það tókst. Eggin sett varlega í sjóðandi vatn, ekki bullsjóðandi vatn því þá springa þau. 7 mín og 10 sekúndúr. Hellið heita vatninu af og látið kalt vatn renna í amk 2 mín í pottinn. Þetta stoppar eldunina. Takið skurninn af og geymið. Við erum að miða við að fá eggjarauðu sem er soðin í köntum en næstum því lin alveg innst.

Setjið olíu í stóran pott, smá smjörklípu. Steikið hvítlaukinn (4 geirar) ásamt rifinn engifer (hellingur, 2-3 mtsk) og fennelfræ (2 tsk) í smá stund, bætið svo við öllu hinu, nema eggjum og kjöti auðvitað og náið upp suðunni. Ég átti til portobello svepp sem var orðinn svekktur í ískápnum, skar hann í bita og henti í pottinn. Svo er þetta bara soðið í dágóða stund, amk klukkutíma. Smakkið svo til, bætið útí eftir þörfum soya, sriracha eða það sem þykir passa. Lækkið svo hita og látið malla. Bætið nautasoði saman við ef þetta virðist of lítill vökvi.

Sjóðið svo núðlurnar skv leiðbeiningum. Steikið svo kjötið í 30 sek á báðum hliðum uppúr sesamolíu og leggið til hliðar. Smakkið til. Ef of lítið eldað þá bætið þið bara nokkrum sekúndum við. ATH kjötið eldast áfram í soðinu á eftir.

Búið til listaverkið

Þetta er það skemmtilega við eldamennsku, að raða saman og bera fram. Sigtið núðlurnar og skammtið í fallegar skálar, hellið soðinu yfir þannig að þetta verði vel blautt, ekki samt alveg súpa. Leggið nautakjöt yfir í enda skálanna, skerið eggin til helminga og setjið tvo helminga í hverja skál, ef of linsoðin þá látið þið eggin meira ofan í soðið. Dreifið svo kóríander yfir og kreistið einn límónubát yfir allt og leggið annan ofan á núðlurnar. Njótið með t.d. IPA eða NEIPA bjór.