Dokkan brugghús á Ísafirði

Ég kíkti loksins á Dokkuna á Ísafirði en Dokkan er fyrsta verstfirska brugghúsið, stofnað í oktober 2017.  Þetta er svo sem ekki beint í alfaraleið fyrir mig þannig að ég hef hingað til ekki átt leið hjá.  Ég kom til Ísafjarðar í fyrsta sinn um helgina, ofsalega skemmtilegur snotur bær.  Ég var nefnilega kominn í skuld við vini okkar Björgvin og Satu sem hafa búið á Ísafirði í nokkur ár og verið að bíða eftir innliti frá okkur Sigrúnu.  Alla vega, Dokkan, ég er svo sem ekki að smakka bjórinn þeirra í fyrsta sinn enda fást dósir frá þeim í Vínbúðinni í RVK en það bara eitthvað annað þegar maður er kominn á staðinn þar sem bjórinn er skapaður, og fá hann svo af krana í notalegri bruggstofu (taproom).  Bjór á heimavelli er alltaf bestur,  það segi ég alla vega. 

Dokkan er skynsamlega staðsett við höfnina þar sem stóru farþegaskipin leggja að og því tryggður ákveðinn straumur viðskiptavina ekki bara um helgar heldur virkum dögum líka.  Þetta er huggulegur staður sem serverar bæði mat og bjór af 12 krönum.  Það er líka myndarlegur dósakælir upp við einn vegginn.  Svo eru stórar glerrúður sem gefa gestum innsýn inn í sjálft brugghúsið þar sem galdrarnir gerast.

Ég smakkaði nýjan bjór frá þeim, Skutull IPA sem er ofsalega skemmtilegur single hop Galaxy IPA.  Galaxy eru spennandi humlar sem hefur verið erfitt að fá á heimsvísu en þeir gefa bjórnum sérstakt bragð.  Ég rabbaði stuttlega við Hákon sem er einn af eigendum Dokkunnar og spurði um Skutul í dós til að taka með heim.  Hann átti það ekki til enda var hann bara að fara skella honum á dósir sama kvöld. Hins vega bauð hann mér að renna við morguninn eftir áður en við rúlluðum heim á leið.  Ég þáði það boð og fékk með mér tvær kippur af bjórnum.  Við erum að tala um það ferskasta sem hægt er að fá, ekki sólarhrings gamall IPA á dós er bara geggjaður.  Miðinn var ekki klár en það er bara allt í lagi.

Ég mæli með að kíkja við á Dokkuna ef menn eru á ferð um Vestfirði, ég held að þetta sé eina handverksbrugghúsið á Vestfjörðum nema Galdri reyndar á Hólmavík.  En það er í lagi því menn geta bara byrgt sig upp af dósum fyrir ferðalagið.