Bao gufusoðið brauð

Við erum hér með ótal uppskriftir af réttum þar sem bao bun er í aðalhlutverki. Fólk er dálítið að spyrjast fyrir um uppskriftina af brauðinu sjálfu. Hér kemur hún, til einföldunar. Svo er það bara í ykkar valdi að raða í þetta fyllingu. Læt samt fylgja með hér neðst það sem ég gerði síðast en það var svakalega gott.

Það sem þarf, (þetta gerir um 10-12 brauð)

  • Vatn, 3/4 bolli eða 177ml, volgt, ca 25 gráður.
  • Þurrger, 1,5 tsk
  • Olía, 2 mtsk
  • Hveiti, 365g
  • Sykur, 2 mtsk
  • Lyftiduft, 2 tsk

Aðferð

Velgið vatn, setjið gerið í vatnið og látið aðeins blotna, passa bara að hafa ekki of heitt vatn. Því næst er 2 mtsk olíu hrært saman við og þetta látið standa. Setjið svo hveiti, sykur og lyftiduft í hrærivélaskál. Blandið aðeins saman. Setjið svo hnoðarahaus á og stillið á frekar lágan hraða. Hellið gervatninu hægt saman við og aukið svo hraðan og hnoðið deigið saman. Þegar þetta er komið í klump hreinsið þið rest deig úr skálinni og bætið í klumpinn.

Deigið á að vera aðeins klístrað en ekki þannig að það þurfi hveiti á borðið. Ef það er of klístrað þá bætið þið ögn meira hveiti saman við og öfugt, ef of þurrt þá setjð þið smá vatn. Hoðið þetta saman. Pennslið svo skál með olíu, setjið deigbolluna í og plastfilmu yfir. Látið svo hefast í klst á volgum stað.

Undirbúið fyllinguna hver svo sem hún er. T.d. hér að neðan. Klippið til ca 12 búta af bökunarpappír og hafið tilbúna. Þegar deigið hefur tvöfaldast að stærð rúllið þið því út í lengju. Ekki vera að hnoða allt loftið úr deiginu hér. Skiptið svo deiginu í 10-12 jafn stóra búta. Fletjið hvern bút út í höndunum, myndið disk. Hér er bara að prófa sig áfram með þykktina. Það má nota kökukefli en alls ekki gera mjög þunna diska.

Pennslið svo helminginn með olíu og lokið þannig að þið eruð með hálfmána. Setjið hvern hálfmána á bökunarpappírs bút. Raðið mánunum á plötu og látið lyfta sér undir viskastykki í aðra klukkustund.

Svo er það suðan. Best er að nota bambus gufukörfu en það er hægt að nota bara t.d. svona grænmetisgufugræju. Setjið vatn í Wok pönnu og bambusinn yfir, ekki láta vatnið ná upp í bambuskörfuna. Náið upp gufu. Svo raðið þið hálfmánunum í gufugræjuna og lokið. Bakið þetta í 7-8 mín. Ekki opna til að kíkja hvernig gengur. Látið svo kólna ögn áður en borið er fram.

Rifin confit de canard með kóríander, sellerírót, graslauk og teríakí sósu

Það er hægt að kaupa geggjaða önd í dós í Bónus, confit de canard. Þetta er svakalega góð önd. Setjið öndina í eldfast mót, smá af fitunni með og bakið í 200 gráður þar til heitt í gegn og aðeins stökkt.

Rífið niður sellerírót, setjið í skál, bleytið í þessu með góðri ólífuolíu, sítrónusafa úr einni sítrónu og smá salti. Látið standa í kæli

Svo er bara að rífa niður kóríander og klippa til graslauk. Reyndar hafði ég pæklaðan rauðlauk með líka og sriracha sósu.

Þegar bao brauðið er tilbúið er bara að rífa niður öndina og raða þessu öllu í brauðið og njóta. Geggjað.