Þessi súpa er í miklu uppáhaldi hjá börnunum okkar enda er hún geggjuð. Bragðmikil og mettandi og afar einföld í framkvæmd! Pönnusteiktu ostasamlokurnar fullkomna máltíðina. Þessa er gott að grípa í þegar maður veit ekkert hvað á að elda. Fínt að eiga alltaf nokkrar dósir af mutti tómötum inní skáp.
Það sem þarf fyrir 4
- 3 dósir Mutti tómatar (heilir), maukað í blandara
- 3 mtsk tómatpúrra
- 1 L nautasoð, má vera kjúklinga eða grænmetis
- 300 ml rjómi eða meira
- Salt og pipar
- Súrdeigsbrauð í sneiðum
- Ostur, t.d. Tindur og Hávarður
- Hunangs dijon sinnep
- Majones til að pennsla brauðið
- Fersk basillika
- Góð ólífuolía
Aðferð

Maukið tómatana í blandara (3 dósir), gerið 1L nautasoð og blandið saman í pott. Bætið við 3 mtsk tómatpúrru samanvið. Látið malla á meðalhita í dágóða stund. Hrærið í annað slagið. Bætið salt og pipar saman við og smakkið til. Þetta mallar í amk klukkustund. Bætið svo rjóma saman við undir lokin, 300ml til 500ml. Þið finnið þá áferð sem þið viljið. Látið malla áfram á meðan þið græjið brauðin.
Súrdeigsbrauðið er penslað með hunangs dijon sinnepi, setjið svo ostinn á brauðið, slatta sko og gerið samlokur. Penslið svo úthliðarnar með majonesi. Steikjið samlokurnar á pönnu á báðum hliðum í ólífuolíu þangað til osturinn er bráðnaður. Skerið svo hverja samloku til helminga og berið fram með súpunni.

Ausið súpunni í skálar, dreypið nokkrum ólífuolíudropun yfir og skreytið með basilliku. Berið fram með ostasamlokunum til að dýfa í súpuna.