Pönnusteikt Heimskautableikja með brúnuðu lauksmjöri, kapers og ristuðum möndluflögum

Það er gaman að setja langa fyrirsögn á einfalda rétti, þá virkar dálítið eins og maður hafi verið að standa í ströngu. En Þessi réttur er elegant og gómsætur og í raun frekar einfaldur í framkvæmd. Bleikjan okkar bara það einföld og góð. Það mikilvægasta í þessum rétt er að ná elduninni á bleikjunni fullkominni.

Það sem þarf (fyrir 4)

  • Fersk bleikja með roði. Magn fer bara eftir hvað menn borða
  • 3-4 mtsk möndluflögur
  • Um 250 g smjör
  • 2 tsk kapers
  • 1 stór gulur laukur
  • 1 kg kartöflur, má vera ögn minna

Aðferð

Best að byrja á möndluflögunum (3-4 mtsk). Ristið þær á pönnu og leggið til hliðar. Svo er það smjörið (um 75g), brúnið það í potti, passa bara að brenna það ekki, við viljum fá dulitla hnetu/karamellu lykt af því. Takið til hliðar, bætið 2 tsk kapers útí. Skera niður stóran lauk í sneiðar og mýkið á pönnu í smjöri. Bætir þessu svo út í brúna smjörið.

Svo er að græja kartöflumúsina, gerið eins og þið eruð vön, ég skræli ca 1 kg af kartöflum, sýð í potti, sigta vatn frá og stappa svo með helling af smjöri, 100 – 150 g. Saltið og smakkið til. Smá rjómi í lokin gerir músina enn meira djúsí.

Bleikjan er svo söltuð með salti og pipar á báðum hliðum. Steikið svo bleikjuna á heitri pönnu í olíu og smjöri, með roðið niður. 3 mín, snúið svo við og bæti aðeins meira smjöri á pönnuna, aldrei hægt að nota of mikið af smjöri. Gott að ausa yfir fiskinn smjörinu og elda áfram í 1-2 mín eða þar til fullelduð.

Hitið brúna smjörið aðeins upp og berið fram. Setjið kartöflumús á disk, leggið bleikjuflakið ofaná og svo toppa þetta með lauksmjörinu og ristuðu möndluflögunum.

Þetta parast sérlega vel með funky gulvíni eða amerískum wild ale. Hvítvín gengur líka en bara svo boring!