Filet Mignon með frábærri kartöflumús og demiglace

Ég held að nautafilet sé uppáhalds steikin mín í nauti strax á eftir tomahawk steikinni. Þetta kjöt er bara svo dásamlegt, bráðnar í munni og gælir við mann alveg ef hún er rétt elduð. Filet Mignon er miðhlutinn úr filet steikninni og maður eldar hana í minni steikum en ekki í heilu lagi eins og filet.

Gordon Ramsay elskar þessa steik og til eru nokkur myndbönd á netinu sem sýna hvernig hann gerir þetta. Ég ákvað að prófa eina aðferð en svo fannst mér þetta verða eitthvað skrítið þannig á miðri leið breytti ég út af og fór okkar leið bara eins og við eldum nautakjöt hér á bæ. Útkoman var algerlega geggjuð og ég mátti til með að skrá aðferðina niður hér svo þið getið notið líka.

ÞAÐ SEM ÞARF

  • Filet mignon steikur mv fjölda í mat, steik á mann
  • 3 lárviðarlauf
  • 3-4 hvítlauksgeirar
  • 1 mtsk timían
  • 1 mtsk rósmarín
  • Salt og pipar
  • Kjúklingasoð
  • 5-6 sveppir skornir í grófa bita

Fyrir kartöflumúsina

  • 1 kg kartöflur
  • 2 tsk timían
  • 2 tks rósmarín
  • 2-3 tsk salt
  • 100 g smjör í það minnsta
  • 1-2 dl rjómi

Fyrir demi glace

  • 1-2 skarlottulaukur, skorinn smátt
  • 50 g smjör til að steikja úr
  • 50 g kalt smjör í kubbum
  • 3 mtsk hlynsíróp
  • 2 dl rauðvín
  • 2 dl vatn
  • 1 mtsk timían
  • 2 teningar sveppakraftur
  • Salt og pipar

AÐFERÐ

Demi glace
Best er að byrja á sósunni, hún tekur smá tíma. Skerið skarlottulauk í smátt og setjið í pott. Mýkið í smjöri, bætið timían útí og smá salt og pipar. Ca tveir teningar sveppakraftur raspað saman við og svo látið malla í ca 2 dl rauðvíni, 3 mtsk hlynsírópi og ca 2 dl vatni. Þetta þarf að sjóða vel niður. Ef verður of þykk má bæta smá vatni saman við. Sigtið svo lauk og kryddin frá.  Setjið aftur í pottinn. Alveg í lokin er köldu smjöri (um 50g) í kubbum hrært saman við og hiti lækkaður. Sósan ætti að fá á sig gljáa og minna á þunnt síróp. Ekki bæta neinum vökva saman við eftir að smjörið fer útí.

Krydduð kartöflumús
Næst er það kartöflumúsin, skrælið kartöflurnar og sjóðið þar til þær eru tilbúnar. Sigtið vatnið frá og stappið saman með helling af smjöri. Kryddið með salti, rósmarín og timían. Magnið af smjöri fer bara eftir því hvernig þið viljið hafa hana. Hafið smá hita undir pottinum á meðan. Bætið svo rjóma líka samanvið. Þetta eru alla vega 2 dl en hér stillir maður sig bara af. Músin á að vera loftkennd og létt, ekki eins og gúmmí. Ef hún verður þannig má hræra meira vatni og rjóma saman við.

Filet mignon
Þá er það heiðursgesturinn, sjálf steikin. Saltið og piprið á öllum hliðum. Ég hitaði svo olíu á pönnu, bætti saman við lárviðarlaufum, krömdum hvítlauksgeirum, rósmarín og timían kryddi og steikti svo kjötið á öllum hliðum. Það þarf að koma dálítið kröst á kjötið. Svo hellti ég kjúklingasoði út á pönnuna samkvæmt ráðleggingum Gordons en þá fannst mér þetta eitthvað skrítið, ég vildi alls ekki sjóða kjötið. Tók því kjötið af og setti í ofnskúffu og inn í ofn við 140 gráður. Hellti smá af soðinu á pönnunni yfir kjötið og setti hvítlaukinn og lárviðarlaufin með kjötinu.

Ég hélt áfram að láta soðið malla á pönnunni, bætti saman við smá smjöri og sveppum. Lét malla aðeins og svo helti ég Tokaj desertvíni út á pönnuna og flamberaði. Það mætti alveg nota púrtvín eða sherrí svo sem. Lét svo sveppina malla í þessu áfram. Þetta soð varð algjörlega magnað og líklega bestu sveppir sem ég hef gert.

Þegar kjötið var komið í 55 gráður tók ég það út, hellti soði af pönnunni yfir og raðaði sveppum efst og lét svo hvíla í 12-15 mínútur. Fullkomið medium rare!

Svo er bara að raða þessu á disk. Kartöflumúsin fyrst, svo kjötið ofaná og sveppirnir efst. Smá klettasalat og demiglace yfir. Algerlega fullkomin steik. Ég myndi servera Gordon þetta án þess að blikkna.