Púrtvíns Marsala Kjúklingur, þessi er svakalegur

Ég elska einfalt og sem minnst uppvask. Þessi réttur er allur í einni pönnu, eða svona næstum ef maður telur kartöflumúsina með. Uppskriftin gerir ráð fyrir marsala víni en við áttum það ekki til og notuðum því púrtvín í staðinn. Útkoman var bara dásamleg.

Það sem þarf fyrir 4

  • Kjúklinga lærkjöt urbeinað, einn bakki
  • 1 kg kartöflur
  • 150 g smjör plús smjör til steikingar
  • Ca 1/2 dl rjómi
  • Hveiti til að velta kjúklingnum uppúr
  • Salt og pipar
  • 2 stk skarlottulaukur, skorinn smátt
  • 2-3 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 2 mtsk timían
  • 2 mtsk rósmarín
  • 2-3 tsk dijon sinnep
  • 1-2 mtsk Worcestershire sósa
  • 1 bakki sveppir
  • 1 dl Púrtvín, eða Marsala
  • 1 dl bragðmikið kjúklingasoð
  • 2 dl rjómi

Aðferð

Komið kartöflumúsinni af stað, skrælið kartöflur og setjið í pott og látið sjóða. Þegar kartöflurnar eru soðnar þá hellið þið vatninu af þeim, bætið um 150g smjöri saman við, eða meira og stappið vel saman. Saltið líka og smakkið til. Smá rjómasletta fullkomnar þetta. Takið svo til hliðar.

Kryddið kjúkling á báðum hliðum með salt og pipar, veltið svo uppúr hveiti. Hitið pönnu og steikið kjúklinginn uppúr smjöri og smá olíu. Takið svo af pönnunni.

Skerið 2 stk skarlottulauk í smátt og pressið 2-3 hvítlauksgeira. Mýkið þetta á meðalhita í meira smjöri á sömu pönnu. Bætið svo útá pönnuna 2 mtsk timían kryddi og 2 mtsk rósmarín, 2-3 tsk dijon sinnepi og um mtsk worcestershire sósu, látið malla aðeins. Skerið svo sveppi í tvent og bætið á pönnuna, bætið svo um 1 dl Marsala víni eða ef þið eigið það ekki þá Púrtvíni. Flamberið svo vínið. Bætið svo um 1 dl kjúklingasoði samanvið og látið malla áfram, bætið salti og pipar eftir smekk og svo 1-2 dl rjóma.

Setjið svo kjúklinginn aftur út á pönnuna og látið sjóða dálítið niður þannig að sósan verði þykk og djúsí. Berið svo fram á pönnunni og ekki gleyma kartöflumúsinni.

Verði ykkur að góðu