Ég hef látið mig dreyma um franska lauksúpu síðan ég fékk þetta í París fyrir nokkrum árum síðan. Fyrir einhverja kann þetta að hljóma undarlega, lauksúpa! Já þannig er það bara, þetta er geggjað. Ég var reyndar pínu stressaður, mögulega var það bara umgjörðin og stemningin sem hreif mig á sínum tíma. Franskt kaffihús, 28 stiga hiti og sól, ísköld Gul Ekkja (kampavín) og dásamleg eiginkona. Allt verður gott við þessar aðstæður ekki satt?
Ég hef reynt að fá að elda þetta heima síðustu árin en konan mín hefur alltaf skotið það niður bæði vegna þess að börnin myndu sennilega ekki borða þetta og svo gæti þetta farið illa í maga. En loksins fékk ég grænt ljós um daginn. Ég fann uppskrift sem mér leist vel á og henti í þetta. Vá, svakalega gott…nú er næsta verkefni að fá að gera þetta aftur sem fyrst.
Það sem þarf fyrir 4
- 70 g smjör
- Ólífuolía til steikingar
- 1 kg laukur, skornir í tvent og svo í þunnar sneiðar
- 2 tsk sykur
- 4 hvitlauksgeirar, skornir í þunnar sneiðar
- 2 mtsk hveiti
- 300 ml þurrt hvítvín
- Um 1 L heitt mjög bragðmikið nautasoð
- Súrdeigs eða venjulegt baguette skorið í snittur
- 200 g gruyére ostur eða bara einhver bragðmikill ostur sem þið haldið uppá
Aðferð
Bræðið smjörið með ólífuolíu (ca 1 mtsk eða svo) á stórri pönnu. Skerið laukinn (1 kg) og látið malla undir loki í 10 mínútur þar til orðið mjúkt. Stráið svo sykrinum yfir og hrærið saman. Eldið áfram í amk 20 mín, Passa samt að brenni ekki. Hrærið stöðugt í þessu þar til laukurinn er orðinn “karmellaður”.
bætið útá pönnuna þunnu hvítlauks sneiðunum (4 hvítlauksgeirar) rétt í lokin og mýkið örlítið áfram. Dreifið svo 2 mtsk hveiti yfir og hrærið vel saman.
Hækkið nú hitann og hrærið áfram meðan þið hægt og rólega bætið um 300ml hvítvíni samanvið. Svo er það nautasoðið. Látið svo malla í 15-20 mín undir loki.
Skerið baguette niður í snittustærð. Ristið á pönnu í smjöri. Þar til orðið golden. Setjið lauksúpuna í eldfastar skálar og tvö snittubrauð í hverja skál. Rífið svo ostinn yfir, helling af osti, á að vera smá haugur alveg. Setjið inn í ofn við 200 gráður þar til osturinn hefur bráðnað. Berið fram, flott að rífa smá steinselju yfir eða graslauk til skrauts.
Það má líka bara grilla brauðið sér í ofninum með ostinum yfir og bæta brauðinu svo út í súpuna þegar hún er sett á borð.

Njótið með ísköldu kampavíni, helst Gulu Ekkjuna til að ná sömu stemningunni og var þarna í París um árið 🙂
You must be logged in to post a comment.