Við vorum með Chicken 65 um daginn en það er mjög vinsæll réttur á heimilinu enda frábær indverskur réttur. Á meðan ég var að dúlla mér í að gera hinn fullkomna chicken 65 henti Sigrún mín í kryddaðar kartöflur og naan brauð. Við höfðum aldrei gert svona kartöflur áður en þær algerlega stálu senunni. Ég varð dálítið lítill í mér bara. Sigrún gerði þetta nánast eftir höfðinu en fylgdi þó einhverri beinagrind sem hún fann á netinu. Hún gat samt ekki sagt mér alveg hlutföllin í þessu þannig að ég ákvað að prófa að elda þetta sjálfur og smakka þetta til með hana við hlið mér. Hér er afraksturinn. Geggjað!
Það sem þarf
- Ca 200 g smjör
- 1 laukur skorinn smátt
- 2-3 hvítlauksgeirar pressaðir
- Fersk engiferrót, ca 2 cm bútur raspaður niður
- 1 og 1/2 tsk garam masala krydd
- 2 tsk túrmerik
- 1 tsk kóríanderkrydd
- Chilli flögur, magn fer eftir tegund og smekk
- 2,5 dl vatn
- Um 2 dl kókosmjólk
- 3 mtsk tómatpúrra ef ekki meira
- 1 askja kirsuberjatómatar, skornir í bita
- 1 kg kartöflur, skornar í litla bita
- Ferskur kóríander

Aðferð
Byrjum á að skræla kartöflurnar og skera í litla bita og leggið til hliðar. Skerið einn lauk í smátt og pressið 2-3 hvíltauksgeira. Mýkið þetta í helling af smjöri á pönnu.
Bætið svo út á þetta 1,5 tsk garam masala kryddi, 2 tsk túrmerik og 1 tsk kóríanderkrydd. Rífið svo ferska engiferrót yfir þetta allt líka. Blandið vel saman. Eldið þetta aðeins á pönnunni til að sprengja upp kryddin og ná bragðinu meira fram.
Bætið svo chilli flögum útá eftir smekk, 2,5 dl vatn, 2-3 mtsk tómatpúrra og svo niðurskornum kirsuberjatómötum ásamt kartöflubitunum. Ég setti líka 1 dl af kókosmjólk á pönnuna. Lét þetta svo malla á meðan annað var undirbúið. Líklega 20 mínútúr, ekki hræra stöðugt í þessu, skemmtilegra að halda tómötunum heillegum.
Bætti svo öðrum dl af kókosmjólk samanvið og setti svo í pönnunni í ofn við 190 gráður. Ég lét þetta svo bara bakast í ofninum þar til kartöflurnar voru alveg mjúkar að innan með bakaðri gylltri áferð að utan. Soðið er líka orðið að þykkri sósu utan á kartöflunum.
Svo eru kartöflurnar settar í skál og alveg lúkufylli af ferskum kóríander yfir.
You must be logged in to post a comment.