Stutt dásamlegt stopp í Gdansk

Örstutt stopp á framandi slóðum. Ég hef aldrei komið til Póllands, ekki einu sinni þegar við Sigrún túruðum um Evrópu á Interraili fyrir all nokkrum árum síðan, veit reyndar ekki afhverju við stoppuðum ekki í Póllandi? En núna vorum við að bæta fyrir það, við skruppum til Gdansk í Póllandi, þriggja nátta stopp. Á svona stuttum tíma nær maður vissulega ekki að upplifa allt sem er í boði eða kynnast borginni almennilega, maður er heldur ekki endilega að reyna það. Fyrir okkur átti þessi ferð að vera afslöppunarferð og þvi ekkert stress. En alla vega, hér eru nokkur orð um mína fyrstu upplifun í þessari borg!

Nokkur góð ferðaráð

Hótelgistingin er mikilvægari en maður heldur. Við gistum á frábærum stað, sem er mikilvægt þegar stoppið er stutt, sem sagt að velja hótel sem er vel staðsett miðað við þínar þarfir hverju sinni svo þú komist leiðar þinnar fótgangandi en ert ekki að eyða tíma á hverjum degi í að komast í það sem þú vilt sjá og upplifa. Við vorum á Hilton í gamla bænum, frábært hótel alveg við ánna í hjarta gamla miðbæjarins eða í raun við upphaf gamla miðbæjarins ef svo má að orði komast. Við völdum hótelið vegna þess að við vildum vera í gamla bænum því við ætluðum ekkert að fara í miklar skoðunarferðir en vildum skoða svona það helsta samt og oftast er “gamli bærinn” í borgum Evrópu snotur og huggulegur og vert að skoða. Við völdum þetta hótel reyndar líka því þar er heilsulind sem bíður uppá gufu, sundlaug, rooftop sólbaðsaðstöðu og nudd. Við Sigrún erum líka mikið fyrir rooftop bari og á þessu hóteli er einmitt einn slíkur sem okkur fannst ofsalega fínn. Flottir kokteilar, frábært útsýni yfir gamla bæinn og góð stemning en þegar við vorum þarna var plötusnúður sem hélt uppi stemningunni. Þjónustan mætti hins vegar vera örlítið betri, dálítið hæg fannst okkur en ok maður leggur sumt á sig!

 

Rooftop barinn á Hotel Hilton

Venjulega er ég búinn að plana mikið fyrir svona borgarferðir, eins og hvað á að skoða, helstu pöbba og veitingastaði og alltaf er ég búinn að bóka nokkra veitingastaði fyrirfram en ekki að þessu sinni, þessi ferð var bara svona skyndi ákvörðun hjá okkur. Ég hef nefnilega lært það af biturri reynslu, þó það hljómi rómantískt, að það getur bara verið frekar súrt að ætla sér bara svona að rölta um og ramba inn á frábæran veitingastað, einhvern falinn fjársjóð í einhverju snotru húsasundi (það er bara í bíómyndum). Það sem gerist iðulega er að þú ert að rölta um, orðinn svangur eða vantar góðan drykk í kropp, hitinn er að drepa þig, þú ert allur þvalur og óþægilegur og þú ferð að leita í dálítilli örvæntingu erftir stað til að svala öllum þörfum þínum á, eitthvað skjól en þú lendir á stað sem reynist svo vera bara svona la la eða jafnvel slæmur. Svo eftir matinn þinn eða drykkinn þá nokkrum skrefum lengra gengur þú fram á ofsalega kósí og flottan stað sem þú hefðir miklu frekar vilja tilla þér á. Þannig var það hjá okkur alla vega hér áður fyrr, áður en við fórum að plana smá fyrir ferðalög okkar. Lífið er of stutt fyrir slæma matarupplifun! Vertu búinn að skoða og plana, og jafnvel bóka borð á nokkrum stöðum fyrirfram. Það er alltaf hægt að afbóka bara ef stemningin er ekki þannig að það henti þér þegar þú ert kominn á áfangastað. Ekki misskilja, þetta á ekki að vera niðurnegld dagskrá sem ekki má víkja út frá, meira svona beinagrind sem má styðjast við ef maður vill. Planið á ekki að valda streitu. Ég gerði þetta ekki í þessari ferð, braut mína eigin reglu, við lentum í veseni fyrsta daginn, römbuðum inn á stað sem lofaði góðu, fullt af fólki á staðnum, flott útsýni yfir litla sæta göngugötu en svo fengum við versta…LANGVERSTA foccacia sem ég hef bara smakkað. Myndi líkja því við strokleður, seigt, gúmmíkennt og bara vont. Bjórinn var fínn og einhver kæfa sem við pöntuðum var í lagi. En upplifunin bara alls ekkert góð. Ykkur til varnar heitir þessi staður Machina eða eitthvað í þeim dúr.

Vert að skoða í mat og drykk

Anda dumplings á Geneza

En maður lætur ekki deigan síga heldur leggst bara í smá vísindi eða les smá pistil á Bjór og Matur ;). Við lentum ekki í neinum vandræðum eftir þetta og get ég svo sannarlega mælt með nokkrum stöðum í mat og drykk, sem ég geri hér að neðan. Við vorum ekkert sérstaklega að eltast við pólska matargerð í þessari ferð, sem einkennist dálítið af kjöti, ljúffengum pylsum og eins konar dumplings svo eitthvað sé nefnt.. Svo eru þeir mikið fyrir að súrsa grænmeti á borð við kál og gúrkur. En eins og ég segi þá ætla ég sannarleg ekki að þykjast vita eitthvað um pólskan matarkúltúr, ég skoða það bara síðar. Við smökkuðum reyndar oft alls konar dumplings rétti, allt bara frábært. Ítalskir veitingastaðir eru frekar áberandi allt um kring sem er bara hið besta mál enda elskum við Sigrún ítalska matargerð.

Það eru margir veitingastaðir meðfram Motlawa ánni í gamla bænum

Það eru t.d. nokkrir meðfram Motlawa ánni svo sem Sempre, Geneza, Viceversa ofl.
Við náðum ekki að prófa Sempre sem reyndar lofar góðu ef marka má dóma á netinu, hann var reyndar líka á öðrum stöðum í borgninni og líka í Sopot strandbænum sem ég kem aðeins inná neðar. Geneza og Viceversa fengu hins vegar að elda ofan í okkur. Það er í raun af nóg af taka þarna, ef maður vill snæða við árbakkann, verðlag nokkuð mismunandi auðvitað en ég held að almennt sé lækki verðlag þegar fjær dregur ánni. Viceversa er frekar vænn við budduna, þjónustan vinaleg og maturinn mjög góður, ekki fine dining samt en bara fínn. Reyndar fannst okkur nauta carpaccio-ið sem við fengum okkur í forrétt pínu skrítið en líklega einhver túlkun á réttnum sem við eigum ekki að venjast. Aðalréttirnir voru hins vegar frábærir, óaðfinnanlegt gorgonzola gnocchi og grísa saltimbocca skolað niður með þéttu Primitivo rauðvíni.

Frábært pólskt orange vín á Geneza

Nokkru ofar meðfram ánni sömu meginn er svo Geneza, annar ítalskur staður með mjög flottan mat. Ég held ég myndi frekar mæla með þessum ef valið væri milli þessara tveggja. Kannski er það bara af því að þar fengum við frábært pólskt orange vín sem við fundum ekki annars staðar. Hér er tilvalið að tilla sér og kæla sig niður í steikjandi sólinni með köldum drykk og skoða mannfólkið sem líður hjá. Það var hér sem við settumst niður fyrsta daginn eftir skelfilega foccacia málið og vorum við því dálítið svöng.

Við pöntuðum arancini til að deila. Ég hef borðað arancini marg oft en þessi réttur var líklega sá fallegasti til þessa. 3 fullkomnar stökkar kúlur í basil olíu og með berjasultu, framsetning sem ég er ekki vanur. Glasið af orange víninu kostaði dálítið, eða 48 zloty eða rétt undir 1500kr. Við enduðum líka ferðalag okkar með hádegisverði á Geneza og vorum ofsalega sátt. Ég mæli með bökuðu fíkjunum fylltum með rjómageitaosti og hunangi, svakalegt og öskrandi góð pörun við orange vínið. Ég pantaði líka gnocci sem var ofsalega gott með bragðflækjum sem við höfðum aldrei smakkað áður, sætt, súrt og rjómakennt allt í senn. Hér fengum við okkur líka dumplings fyllt með langelduðu rifnu andakjöti, svakalega gott en svona dumplings er klassíker í pólskri matarmenningu.

 

Það voru tveir staður sem stóðu uppúr fannst okkur. Fyrst má nefna True sem er frábær “fine dining” staður í frönskum stíl sem ég mæli svo sannarlega með. Þetta kostar alveg smá en þú ert að fá flotta þjónustu og geggjaðan mat, vel þess virði. Óaðfinnanlegur matur og meira að segja espressoið í lokin var fullkomið. Við pöntuðum í forrétt villtar grillaðar argentískar risarækjur í hvítvíni með kókosmjólk, chili og skarlottulauk og svo grillaðan hörpudisk í beurre blanc sósu. Þetta var algerlega geggjað, rækjurnar brögðuðust nánast eins og humar og sósan sem kom með þeim var eins og beint af himnum ofan, ég hefði getað sett þetta á flösku og drukkið í stórum stíl. Sósan kom fullkomlega á móti sterku chiliinu á rækjunum. Aldrei nokkurn tíman hef ég skammað eins góðar rækjur. Harpan kom í beurre blanc sósu með að ég held basil olíu og svo næfurþunnum eplaskífum, salvíu og létt steiktum mandarínu bátum. Blanda sem algerlega gekk upp. Þetta pöruðum við svo með góðu kampavíni en hefðum getað farið í eikað eða smjörað hvítvín á borð við Chardonnay eða Chablis.
Í aðalrétt var það svo “beef tenderloinmeð demi glace, grænum sykurbaunum í dásamlegri brúnni smjörsósu og svo smjörsteiktir chantarell sveppir í demi glace og dill soðsósu. Maður velur allar sósur og meðlæti sér eftir eigin höfði. Ég vil þakka Hugrúnu okkar fyrir þessa frábæru ándingu.

Bestu pizzur sem ég hef smakkað á Ostro


Hinn staðurinn er líka við ánna, en bara hinumeginn alveg við litlu hreyfanlegu göngubrúnna. Ostro heitir hann, hann er ítalskur og valinn nr eitt af ítölskum stöðum á svæðinu ef maður treystir internetinu. Ostro er mun ódýrari staður enda sérhæfir hann sig í eldbökuðum flatbökum þannig að ef þú ert pizza aðdáandi þá skaltu ekki missa af þessum stað. Reyndar þó þú borðir ekki einu sinni pizzu þá muntu elska þessar, það getur bara ekki annað verið. Með bestu pizzum sem ég hef smakkað. Við erum að tala um fullkomlega bakaðar súrdeigs pizzur, maður gæti í raun sleppt öllu áleggi og borðað botninn einan og sér en ekki gera það samt, álegið er svo geggjað líka. Pizza nr 11 var stórkostleg, bianco með ítölsku salami, þunnum peruskífum, gorgonzola, mozzarella og valhnetum. Hin pizzan var nr 5 minnir mig,bragðmikil gorgonzola pizza sem sveik ekki. Á matseðlinum er vert að taka eftir vínpöruninni sem þeir mæla með fyrir neðan hverja pizzu, hvort sem er hvítt eða rautt. Skemmtilegt.

Það er ekki hægt að bóka borð hér, maður þarf bara að næta og líklega að standa í smá röð við árbakkann (ekki bak við hús þar sem líka er aðkoma að staðnum) en röðin gengur hratt fyrir sig og verðlaunin eru ríkuleg.

Við tókum svo eftir öðrum stað þarna við ánna sem vakti áhuga okkar aðallega vegna þessa að fyrir utan var alltaf löng biðröð af fólki sem freistuðu þessa að fá borð síðar um kvöldið en það þarf að bóka borð þarna með löngum fyrirvara. Staðurinn heitir Cheleb in Wino, hjómar eins og Seleb í glasi en þýðir held ég brauð og vín. Ég veit ekkert hvort þetta er góður staður eða þess virði að hanga í röð fyrir en hann sker sig alla vega mjög úr þarna við árbakkann með þessa röð fyrir framan og svo er allt húsið upplýst í fjólubláum lit og mikil stemning. Lofar góðu en ómögulegt að segja nema prófa sjálfur.

Bjór í Gdansk

Ég get svo ekki fjallað um veitingastaði hér án þess að nefna Piwnica Rajcó sem er brugghús eða bruggbar staðsettur beint fyrir aftan Neptúnus styttuna sem er eitt helsta tákn Gdansk. Piwnica er bruggbar sem þýðir að þeir brugga allan bjórinn sinn á staðnum og þeir eru líka með mat. Ég smakkaði allan bjórinn frá þeim, 6 tegundir í 4 heimsóknum, allt virkilega vandað og gott. Það er frábært að sitja úti við stóra torgið og sötra bjórinn og leggjast í mannlífsrannsóknir, bara vera og slaka!


Ef hitinn er að drepa þig úti eru stórir gangar og salir neðanjarðar og bar auðvitað líka. Þú getur hér virt fyrir þér brugghúsið og flottu gerjunar og þroskunartankana sem standa í röðum bak við glervegg í öðrum endanum. Þú getur drukkið bjórinn með nokkrum aðferðum, pantaðu staka bjóra í krús 0,3L , 0,5 eða 1L eða ef þú ert sjálfstæður getur þú keypt kort og dælt þínum bjór sjálfur að eigin vali. Svo er líka hægt að fá bjórturn, ef þú ert í góðum félagsskap og smekkur ykkar er eins. Turninn er þá fullur af bjór sem kemur á borð til þín. Það er svo krani neðst og þú dælir sjálfur beint í glösin ykkar. Loks er hægt að fá smakkbakka sem alltaf er góð hugmynd ef maður veit ekkert hvað maður vill.

Maturinn ku líka vara mjög góður, ég get ekki tjáð mig mikið um hann en ég fékk mér bara einn smárétt þarna, anda dumplings sem voru fáránlega góðir.

8% Baltic Porter á Piwnica

Ég ætla ekki að reyna að ráðskast með þig mikið en gerðu það fyrir mig að smakka Baltic Porterinn þeirra, hann er frábær 8% baltic porter sem er stíll sem fundinn var upp á þessum slóðum. Kannski ekki bestur í hitanum en fullkominn að kvöldi dags. Svo er Amberinn þeirra skemmtilegur, fullkominn matarbjór ef þú vilt fara í matseðilinn líka.
Það eru fleiri bjórstaðir í Gdansk, meira að segja slatti af craft börum en ég skoðaði þá ekki í þessari ferð, þetta var bara ekki þannig ferð. Svo er annar bruggbar í gamla bænum, Brovarnia sem státar af besta bjór Póllands að þeirra eigin sögn. Þessi staður er auglýstur bak og fyrir t.d. á flugvellinum og víðar. Staðurinn sem er staðsettur á neðri hæð Hótel Gdansk kemur líka upp ofarlega þegar maður leitar á netinu eftir bestu veitingastöðum borgarinnar. Við borðuðum ekki þarna en ég greip einn IPA sem var stórkostlegur. Ég sé að það er vel hægt að fara hingað í sérstaka bjórferð, set það á to do lista hjá mér.

Gdansk, gamli bærinn

Varðandi borgina sjálfa þá get ég bara tjáð mig um gamla miðbæinn, fyrir okkur í þessari ferð var hann bara alveg nóg. Þetta er ægilega fallegur bær, hreinlegur, enginn hundakúkur á götum, ekki sorp eða klóaklykt sem gýs upp, ekkert cannabis ský sem maður gengur inní eins og víða er orðið í öðrum borgum, engir betlarar eða slíkt. Maður upplifir öryggi og fólk hér almennt vinalegt. Ég heyrði enga amerísku, enga íslensku og varla skandinavísku ef út í það er farið, hér virðast flestir vera frá slavneskum þjóðum sem er frábært. Ég nenni ekki að hitta nágranna minn á ferðalögum mínum erlendis, nema jú ef það eru Maggi og Björk, Hreimur eða Darri og frú auðvitað…já ok líka þið hin ef þið eruð að lesa, æi þið fattið hvað ég meina? Það er miður ágúst og bærinn dálítið pakkaður af fólki, sérstaklega meðfram ánni og á stærstu verslunargötunum. Líklega væri betra að vera hér í júní eða september? Byggingarstíll er ægifagur, ég veit ekki enn á hvað hann minnir en það er eins og blanda af Prag, Stokkhólmi með smá Köben og dash af Brussel. Ofsalega skemmtilegt.

Verðlag, já við spáum í það alltaf, ég varð pínu fyrir vonbrigðum, ég var að búast við mun lægra verði en mögulega hef ég verið að flækjast inn á dýrari staði bæjarins, ég veit ekki en alla vega, sums staðar var rauðvínsglasið eða hvítvínið á svipuðu verði og heima, kampavín var dýrt eins og reyndar víðast hvar í heiminum en bjórglasið var samt alltaf töluvert lægra en heima og kokteilar rokkuðu frá um 800kr og upp í kannski 2000 kr eftir því hvar þú varst staddur.  Verðlag meðfram ánni virðist nokkuð hærra en þegar fjær dregur ánni en það er svo sem vel þekkt í öðrum borgum.

Sopot strandbærinn

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en má samt til með að nefna Sopot sem er lítill strandbær skammt frá Gdansk. Það tekur um 20 mín með Uber eða Taxa að fara frá gamla bænum t.d. Ég mæli með að fara dálítið snemma dags og eyða heilum degi og kvöldstund í þessum bæ. Stefnið á White Marlin sem liggur alveg við ströndina og röltið svo þaðan um svæðið. Það er lítill miðbæjarkjarni þarna með aragrúa af veitingastöðum og svo er mikið að gerast í kringum hótelin sem liggja við ströndina. Þetta er mjög huggulegt svæði. Það er notalegt að tilla sér á einhvern strandbarinn og fá sér drykk eða bara skella sér á ströndina og baða sig í Eystrasaltinu. Þarna er líka gríðarlega löng timburbryggja, sú stærsta í Evrópu takk fyrir. Þú borgar 10 Zloty fyrir að rölta út á hana, mjög skemmtilegt rölt. Á enda bryggjunnar er veitingastaður ef maður er svangur.

Lengsta trébryggja í Evrópu er í Sopot

Við skoðuðum því miður ekki mikið af Sopot, komum heldur seint þangað en þetta lofaði allt góðu. Ég get þó mælt með strandbarnum á White Marlin, við snæddum reyndar kvöldverð þar líka en það voru engir flugeldar, maturinn var fínn en þjónusta mjög mjög hæg sem kannski er alveg í lagi því staðsetningin er geggjuð. Alveg við ströndina og hægt að sitja líka beint á sandinum við borð undir sólhlíf. Gdansk verður sannarlega heimsótt aftur og Sopot er líka komið á to do listann hjá mér.