Ævintýraeyjan Krít í mat og drykk

Ég var að upplifa Krít í fyrsta skipti í sumar og mun án efa koma aftur, þetta er dásamlegur sælureitur fyrir fólk sem elskar góðan mat, drykk, safaríkar baðstrendur og spennandi menningu. Já og vinalegt fólk. Ekki skemmir fyrir að það er auðvelt að komast hingað frá Íslandi þar sem Icelandair flýgur núna beint til Chania frá Keflavík.
Ég ætla ekki að þykjast geta listað hér upp allt það besta við Krít eða hvaða veitingastaði ber að eltast við eða forðast. Ég ætla heldur ekki að þykjast vera sérfróður í grískri matargerð, ekki enn sem komið er alla vega. Mig langaði bara að punkta niður svona það helsta sem okkur fannst standa uppúr í 14 daga ferð okkar til eyjarinnar miðað við staðsetninguna þar sem við gistum og svæðið þar í kring. Mögulega gagnast það einhverjum sem er á höttunum eftir ævintýri fyrir öll skilningarvitin.

Til að byrja með þá erum við farin að ferðast í júní til útlanda frekar en í júlí eða ágúst. Júní er frábær tími til að ferðast á því ferðamannastraumurinn og örtröðin virðist ekki byrja fyrr en í júlí. Hitinn á suðlægari slóðum er líka viðráðanlegri þannig að ég mæli með þessum tíma, nema auðvitað ef fólk vill meiri hita og læti?

GISTINGIN

Litlar búðir og kaffihús í gamla bænum í Chania

Líklega eru flestir sem koma til Krítar að gista í eða við Chania sem er önnur stærsta borg eyjarinnar á eftir höfuðstaðnum Heraklion sem liggur austar á eyjunni. Það búa um 60.000 íbúar í Chania af um 640.000 á eyjunni allri. Þetta er fallegur bær, sérstaklega gamli bærinn og gamla höfnin sem er vel varðveitt í sinni upphaflegu mynd í feneyskum byggingarsíl.
Við erum að tala um litlar verslunargötur þar sem þú finnur litlar búðir, kaffihús, bari, spennandi skyndibitastaði og iðandi mannlíf. Það er gaman að rölta þarna um og villast í litlu þröngu götunum eða tilla sér niður á einhvern af veitingastöðunum við gömlu höfnina og panta sér smá snarl á borð við Dakos eða Saganagi ost skolað niður með ísköldum kranabjór og horfa á mannlífið líða hjá eða bara njóta útsýnisins yfir höfnina.
Það er líka gaman að rölta út að vitanum sem stendur í mynni hafnarinnar en þaðan er flott útsýni yfir höfnina og gamla bæinn.

Gamli bærinn og höfnin í Chania

Á kvöldin breytist stemningin algerlega, litlu þröngu göturnar breytast í kósí veitingastaði þar sem fólk situr úti í rökkrinu við borð með daufri birtu frá kerti eða lukt. Mjög kósí stemning. Barirnir lifna líka við með hlátrasköllum og gleði og litlu búðirnar eru margar opnar áfram fram á kvöld.

Dularfull stemning í Chania að kvöldi

Ég get ímyndað mér samt að í júlí og ágúst sé erfitt að fóta sig í mannmergðinni hér og er gott að hafa það í huga þegar fríið er skipulagt. Unglingurinn sem var með í för var mjög sáttur vip Chania því þar er að finna eina Starbucks staðinn á eyjunni skv honum þ.e.a.s en það er auðvitað ekkert sem maður er venjulega að eltast við eða hvað?

Spilia Village hótelgarðurinn

Við gistum ekki í Chania heldur í pínu litlu þorpi sem heitir Spilia og er um 30 km vestan við Chania. Þetta þorp er krúttlegt, rólegt klassískt grískt þorp og nánanast engir ferðamenn nema á eina hótelinu í þorpinu, Spilia Village sem ég mæli svo sannarlega með. Við vorum í húsi tengt hótelinu með sundlaug útaf fyrir okkur. Það voru engir gestir í nálægum húsum og því afar rólegt og þægilegt hjá okkur. En okkur var þó tjáð að það væri mun meira líf í júlí og ágúst hér, allt uppbókað. Starfsfólkið hér allt mjög vinalegt og þægilegt og vill allt fyrir mann gera.

Plateia Cafe Meze

Það eru tveir veitingastaðir í þorpinu, báðir í 1 mín göngufæri frá okkur. Við urðum fyrir vonbrigðum með annan þeirra og fórum ekki aftur á hann en hinn Plateia Cafe Meze er frábær og fórum við oft á hann og aldrei nein vonbrigði. Ég held að við höfum prófað allt á matseðlinum þegar upp var staðið eða svona 95%. Frábær matur og verðlag gott. Hér fengum við mikið af klassískum grískum réttum og á föstudögum er lifandi tónlist og jafnvel dans. Staðurinn er fjölskyldurekinn og kemur mikið af hráefninu í réttina frá fjölskyldunni sjálfri sem er með hænur og kindur og ræktar ýmsar kryddjurtir og ávexti. Allar ólífurnar og ólíurnar koma líka frá þeirra eigin uppskeru. Mjög skemmtilegt, svona beint frá bónda. Reyndar er það þannig að flestir sem hér búa eru með einskonar sjálfsþurftarbúskap, rækta appelsínur, sítrónur, krydd ofl og halda hænur og bíflugur jafnvel og fá þannig egg, hunang og kjöt. Virkilega rómantískt allt saman. Fólk forðast að fara í matvörubúðir hér því verðlag þar er fáránlega hátt og alveg á pari við það sem við upplifum heima á Íslandi.

Þó svo að þorpið sé krúttlegt og veitingastaðurinn frábær þá mæli ég með að vera á bíl hér ef maður vill skoða eitthvað en það er líka hægt að leigja hjól á hótelinu en það er auðvitað takmarkað sem maður kemst á þeim. Ég held að næst myndum við vilja blanda dálítið saman, vera t.d. viku í Chania og svo seinni vikuna í litlu þorpi á borð við Spilia og vera þá með bíl.

UMFERÐARMENNINGIN

Það er ósköp þægilegt að vera á bíl hér en bílamenningin er dálítið spes samt og er eins og menn fari ekki eftir vegmerkingum. Gatnamót eru oft mjög skrítin í þorpunum og þar eru þröngar götur sem getur verið snúið að aka eftir. Svo eru auðvitað engin bílastæði eða nánast engin þannig að maður þarf oft að leggja dálítið frá áfangastað sínum og ganga rest.
Það eru einhvers konar hraðbrautir hér en ég átta mig ekki á hámarkshraða þar. 90km/klst er það hæsta sem ég hef séð merkt. Mig langaði samt að nefna aksturslagið á þessum hraðbrautum, fyrst taldi ég mig vera að keyra fyrir aftan manneskju með heilablóðfall eða undir áhrifum vímuefna. Svo sá ég fleiri og fleiri svona ökumenn og áttaði mig á að það væri ég sem væri úr skjön við hina. Vegirnir eru þannig að það er ein akrein í hvora átt aðskildar með ýmist brotnum eða óbrotnum línum og það eru óbrotnar línur yst en svo kemur mjög breiður vegkantur. Bílarnir virðast rása á veginum, eru ýmist hálfir útaf eða alveg út á vegkantinum. Umferð á móti er varasöm því maður mætir oft bíl sem er hálfur inn á þinni akrein þrátt fyrir tvöfaldar óbrotnar línur. Stundum eru þrír bílar hlið við hlið á þessum vegum sem nota bene eru bara með einni akgrein í hvora átt.
Svo virðist sem Grikkir noti vegkantinn fyrir hægari umferð og það virðist þannig vera hefð fyrir því að þú færir þig yfir á vegkantinn, já yfir óbrotnu línuna, til að hleypa hraðari umferð framhjá. Einnig gott að vera ekkert of nálægt miðlínunni því eins og ég sagði, stundum koma bílar á móti hálfir inni á þínum vegarhelming.

GRÍSK MATARGERÐ

Hér erum við komin inn á það sem er best við Krít að okkar mati, maturinn, já ok strendurnar eru líka svakalegar reyndar, sjá neðar. Við vorum með miklar áætlanir um að elda mikið sjálf enda með heilt hús undir okkur en sú hugmynd er eiginlega ekki góð. Til að byrja með eru mjög takmörkuð eldhúsáhöld í eldhúsinu, þú ert aldrei að vinna með þín áhöld alla vega, verðlag í matvöruverslununum var mjög hátt, svipað og heima bara og svo vill maður auðvitað rannsaka gríska matargerð og vill bara fá þetta óaðfinnanlegt frá heimamönnum. Við elduðum samt nokkrum sinnum, þá helst tzatziki og grískt salat sem var mjög gott samt. En ég mæli með því að gera sem minnst heima í eldhúsinu nema þú sért grískur kokkur auðvitað.
Ef þú ert svo virkilega að spara aurinn þá ferðu í strætisfæði á borð við Gyros. Í næsta þorpi við okkur er frábær grillstaður, Kaneva (https://maps.app.goo.gl/Uq4b9FtjRiX8ErM26?g_st=ic) https://maps.app.goo.gl/Uq4b9FtjRiX8ErM26?g_st=ic þar sem maður fær gyros vefjur á 500 kr stykkið og er þetta alveg heil máltíð takk fyrir.

Grísa Gyros vafið í pita

Við hér á Bjór og Matur erum mikið matarfólk og því er fókusinn hjá okkur alltaf dálítið mikið á mat og drykk þegar við ferðumst út fyrir landssteinana. Grikkir lifa fyrir að njóta og njóta til að lifa eitthvað sem okkur finnst einmitt það eina rétta. Matur er stór þáttur í grískri menningu og eiga þeir marga stórkostlega þjóðarrétti. Við reyndum að smakka eins marga og við gátum. Auðvitað nær maður ekki öllu í einni ferð en það er gaman að reyna. Hér á eftir eru nokkrir réttir sem við mælum sérstaklega með að smakka. Það má einnig sjá smá samantekt á instagramminu minu undir highlights. Auðvitað munum við svo reyna að gera þetta heima þegar við komum heim og pósta uppskriftum ef vel tekst til.

Tzatziki ómissandi hluti grískrar máltíðar

Tzatziki. Ég held að það sér eðlilegast að nefna þetta meðlæti efst á lista enda ómissandi hluti af grískri matargerð. Menn nota þetta sem bara sósu á gott brauð, út á salatið eða sem fyllingu í t.d. Gyros eða bragðbætir á souvlaki grillkjötið. Það er alltaf hægt að bæta matinn með tzatziki. Þettar dálítið eins og indverska raita nema hráefnið og auðvitað bragð ekki það sama. Í tzatziki er notað grísk jógúrt, gúrka, hvítlaukur, hvítvínsedik eða sítrónusafi, ólífuolía, salt og krydd á borð við dill eða mynta. Ég mæli með að panta alltaf tzatziki með þegar pantaður er matur á veitingastað.

Mouzakka

Mouzakka er líklega með þekktari grískra rétta og er algjört möst að smakka. Ekki bara einu sinni því útgáfurnar eru mismunandi á milli veitingastaða. Uppistaðan í þessu eins konar lasagne eru kartöflur í skífur sem eru annað hvort steiktar í ofni eða djúpsteiktar og þeim svo raðað í eldfast mót. Eggaldin í sneiðum og svo nautahakk eða blanda af lamba og nautahakki. Þetta er lungnamjúkt, bragðmikið og dásamlegt. Þetta er eitthvað sem við munum reyna við heima á Íslandi.

Grískt salat

Gískt Salat eða Cretan Salat, kallað líka Horiatiki. Ok ég var þarna líka eins og þið, hugsaði salat, maður hefur margoft gert salat með alls konar. Er það eitthvað spes? Hér er það bara einhvern veginn öðruvísi og geggjað gott. Líklega er það dressingin og fetaosturinn er svo magnaður. Kannski er það bara að allt hráefnið er fyrsta flokks. Grískt salat inniheldur djúsí tómata, gúrkubita eða sneiðar, græna papríku, rauðlauk, kalamata ólífur og svo stóra fetaosta kubba efst. Brauðteningar eru oft líka með. Mér finnst virkilega smart að hafa svona stórar blokkir af feta efst en ekki blandað í salatið í litlum bitum.

Saganaki, djúpsteiktur gruyere eða feta

Saganaki. Ef þér líkar ostur þá munt þú elska þennan rétt. Saganaki er djúpsteiktur ostur, oftast gruyere eða feta eða annar ostur sem bráðnar vel. Með þessu fylgir ferskur sítrónubiti sem er kreistur yfir ef maður vill. Einfalt en gott, ég mæli líka með að borða þetta með tzatziki. Þetta er fullkominn biti fyrir máltíðina eða bara sem snarl með ísköldum grískum lager. Sonur minn fékk sér þennan rétta nánast í hvert mál. Við höfum svo sem djúpsteikt ost heima en hér eftir mun ég reyna að negla þetta þegar heim er komið. Vandamálið er líklega gæðin á ostinum heima?

Gemista/Yemista

Gemista/Yemista. Gemista er mjög vinsæll réttur, þetta er í raun fylltur bakaður tómatur eða papríka. Fyllingin getur verið alls konar, klassístk hrísgrjón eða risotto, fíntskorið grænmeti og stundum hakkað nauta eða grísakjöt. Þetta er svo bakað í ofni með eins konar marinara sósu. Í raun er ekkert rétt eða rangt í þessu, aðal málið er að fylla þetta grænmeti og baka.

Dakos

Dakos. Þetta er flott sem forréttur eða bara smá biti með góðum bjór eða víni. Dakos er dálítið eins og þurr brauðbolla skorin til helminga og sem minnir á brauðtening í áferð, ofan á þetta eru svo hakkaðir tómatar, krydd og grískur feta eða mizithra ostur. Mjög létt og þægilegt.

Gyros vefja í pítubrauði

Gyros og souvlaki pita. Oft er talað um að Grikkir hafi fundið upp pítuna, ég ætla ekki að dæma um það en eitt er víst að Grikkir eru með þeim fyrstu sem tala um pitubrauð. Ýmist er pítubrauð fyllt með grillkjöti og grænmeti eða borið fram á diski ásamt pitubrauði og grænmeti. Klassískt eru franskar kartöflur með í fyllingunni. Munurinn á gyros og souvlaki er dálítið óljóst finnst mér, gyros á samt meira við kjötkeilu líkt og kebab. Sem sagt kjötið er þrætt upp á tein þannig að það myndi stóra keilu og svo látið snúast og grillast þannig, oftast kjúklingur, grís, lamb eða kjúklingur, á meðan souvlaki er þrætt á minni tein og er eldað lárétt. Kjötið er svo borðað beint af teininum eða sett í pítubrauð. Gyros er hins vegar rakað af kjötkeilunni og borið þannig fram í pítubrauði eða á diski með brauðiniu. Í raun skiptir þetta ekki máli, ef þú pantar gyros eða souvlaki í pítubrauði ættir þú að fá hrikalega góða pítu. Þetta er frábær skyndibiti og kostar lítið. Hér nýtur auka tzatziki sósa sín fullkomlega því oft er ekkert voða mikið af sósu í þessu.

VÍN, BJÓR OG ANNAÐ FLJÓTANDI

Við á Bjór og Matur erum löngu komin dálíð út fyrir bara að fjalla um bjór. Freyðivín er nefnilega í miklu uppáhaldi hjá okkur líka en rauðvín og kokteilar eru að koma mikið inn líka.
Ég viðurkenni að ég hef ekki tengt Grikki við léttvín og alls ekki freyðivín en Grikkir gera svo sannarlega ljómandi vín og eru reyndar með elstu vínframleiðendum veraldar og eru til heimildir um 6000 ára virðulega sögu þeirra í víngerð. Grísk vín hafa í gegnum söguna verið mikils metin og í hávegum höfð.

Við prófuðum nokkur rauðvín hér, allt vín sem við höfum aldrei séð áður eða heyrt af. Vivino appið hjálpaði mikið við valið en stundum völdum við bara flöskuna eftir útlitinu. Við vorum nánast allaf ánægð með vínin sem við völdum, við viljum helst bragðmikil og þétt rauðvín, ekki of sæt en heldur ekki of súr. Ég ætla ekki að fjalla meira um þau hér en það er alla vega hægt að ganga út frá því að fá góð rauðvín hér. Hvítvín líka geri ég ráð fyrir en við prófuðum lítið af þeim.

Domaine Karanika er eitt af frægari freyðivíns framleiðendum Grikkja, allt ofsalega ljúft sem við smökkuðum, sérstaklega rosé útgáfan.

Freyðivínin eru annar handleggur en þau komu svo sannarlega á óvart. Við Sigrún konan mín erum mikið búblufólk, við elskum gott kampavín eða frískandi spænskt cava. Vandað crémant er líka voða vinsælt hjá okkur þegar við viljum fá franskar búblur á viðráðanlegu verði og á Ítalíu drekkum við bara franciacorta.
Kampavín hér kosta svipað og heima, kannski 1000 kr ódýrara og úrvalið er ekki mikið. Við höfum ekki séð mikið cava en það er prosecco sem ræður hér ríkjum eins undarlegt og það er. Ég skil bara ekki afhverju veitingahús, hótel, krár ofl bjóða bara kampavín eða prosecco þegar mun betri freyðivín eru til og ég tala nú ekki um þegar þau eru framleidd í landinu? Ég mun aldrei skilja það. Grikkir búa nefnilega til sitt eigið freyðivín og það er svo sannarlega í topp gæðum. Framleitt með sömu aðferð og kampavínið, metode traditional en má auðvitað ekki kallast champagne nema í því héraði í Frakklandi. Við smökkuðum einar 5 tegundir, allt virkilega gott og vandað nema kannski ein. Það er meira að segja einn framleiðandi á Krít sem gerir virkilega fínt freyðivín.

Freyðivín frá Krít, virkilega gott


Við fundum freyðivínin í matvöruverslunum og vínbúðum hér, ekki á veitingastöðunum. Ef þú ætlar að prófa ekki bíða þar til þú ert kominn á flugvöllinn, þar er ekkert til nema prosecco og kampavín já og smá cava frá Freixnet

Ég hef sagt þetta áður, eða nokkurn veginn svona, á instagram og vefsíðinni okkar líka en verður ekki of oft kveðið og segi ég það hér aftur. “Ef þú ert að ferðast á Ítalíu, láttu kampavín eiga sig nema þér sé sama um budduna, forðastu prosecco nema þér sama um gæðin og fáðu þér frekar fransiacorta. Það sama á við um Spán, þar er það cava sem er málið og svo hér á Grikklandi, láttu procecco vera og finndu flösku af grísku freyðivíni, helst brut, það er virkilega gott”.

Ískaldur lager við höfnina í Chania

Bjórinn á Krít. Verum hreinskilin, Grikkir eru ekki þekktir fyrir bjór og myndi ég ekki vera að eltast sérstaklega við hann hér. Þeir gera ágætis ljósan lager sem er ofsalega þakklátur í hitanum. Ískaldur ljós lager af krana í 28 stiga hita er bara æði. Heima á Íslandi myndi maður sennilega hella honum í vaskinn. Það er samt sem áður smá von fyrir hörðustu bjórnördana því skammt frá Chania eða 25 km vestur af borginni er handverksbrugghús sem kallar sig Cretan Brewery.

Smakkprufur á Cretan Brewery Charma

Brugghúsið sem er staðsett mitt í gróðursælum litlum dal umkringt appelsínu og ólífutrjám og er fyrsta brugghúsið á svæðinu, mögulega það eina ég skal ekki segja. Þeir framleiða nokkra mismunandi bjóra, allt létt og þægilegt, meira að segja vel drekkanlegan IPA og skemmtilegan dunkel, en það sem mér fannst eiginlega merkilegra er að þeir bjóða upp á mat líka og það var sko ekkert slor. Besta cretan salat sem ég smakkaði í þessari ferð takk fyrir og meze plattinn var bara geggjaður. Mæli með þessu ef þú ert með einhvern sem keyrir.

TÚRKISBLÁR SJÓR OG BLEIKAR BAÐSTRENDUR

Náttúran hér er stórbrotin, fjöll og dalir og nánast hvert sem litið er má sjá víðáttumiklar breiður af ólífutrjám enda Grikkir 3. stærsti framleiðandi ólífuolíu í heimi. Á Krít má finna 35 milljónir ólífutrjáa takk fyrir. Í þorpunum má svo sjá appelísnutré, sítrónutré og ferskjutré út um allt. Annað slagið ekur maður framhjá vínekrum líka enda framleiða Grikkir flott og góð vín eins og fyrr segir. Það sem vakti líka athygli mína er hversu græn og blómleg sveitin er meðfram hraðbrautinni, maður ekur ekki í gegnum þurra eyðimörk eins og t.d. á Spáni heldur eru runnar í alls konar blóma meðfram veginum, bleik, gul, rauð blóm og svo litlir pálmar hér og þar og auðvitað ólífutrén. Mjög fallegt.

Ég verð svo að eyða orðum í strendurnar, nú er ég alls ekki mikið fyrir baðstrendur, reyni að forðast þær eftir bestu getu því ég er ekki mikið fyrir að liggja eins og klessa í sólinni og allur sandurinn sem finnur sér leið í öll skúmaskot fer dálítið í mínar fínustu. En, í þessari ferð var ég dolfallinn, ég elska fallega náttúru og maður minn, strendurnar á Krít eru eitthvað annað. Þær eru eins og maður sér í bíómyndum sem gerast á eyjum, lengst út í kyrrahafi eða álíka. Við skoðuðum nokkar af ströndum eyjarinnar, bæði frægar og minna frægar strendur og við vorum að elska þær allar. Sandur er alltaf sandur, pirrandi en hvílíkt sjónarspil. Hvítar sandstrendur sem ná langt út í kristaltærann sjóinn. Hvítur sandbotninn gerir sjóinn grænbláan og svo út í túrkis þegar lengra kemur frá ströndinni, það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu. Jafnvel mágur minn sem við hittum í þessari ferð og sem hatar svona strendur var himinn lifandi og þá er nú mikið sagt.

Horft niður á Balos ströndina

Balos er ein af þeim ströndum sem þú verður að skoða á Krít. Hún kemur fram efst eða næst efst á lista yfir strendur á Krít enda á hún það sannarlega skilið blessunin. Þetta er einfaldlega fallegasta strönd sem ég hef komið á og hef ég skoðað þær nokkrar í gegnum tíðina.
Það sem gerir hana svona magnaða eru nokkur atriði, best að skoða líka myndirnar hér. Það hversu afskekkt hún er gerir hana spennandi, það er enginn bær eða þorp sem liggur við ströndina heldur taka brattar fjallshlíðar við af sandströndinni. Sum staðar eru grjóthnullungar út í vatninu sem greinilega eru tilvaldir staðir fyrir ljósmynd “litla hafmeyjan” style en það voru ófágar konur sem komu sér fyrir uppá þessum grjótum til að pósa fyrir myndavélarnar í alls konar stellingum. Það er ekki til svona mynd af mér samt.
Hluti af Balos ströndinni liggur að grunnu lóni, þar nær sjórinn upp að hnjám þannig að maður getur vaðið þvert yfir lónið sem er líka vel heitt og notalegt. Botninn er hvítur og í fjarlægð virðist fólk vera að vaða mjólk upp að hnjám, Hinu meginn mætir ströndin svo opnu Miðjarðarhafinu með þessum dáleiðandi túrkisbláa sjó. Balos er líka ein af bleiku ströndum Krítar en í sannleika sagt þarf að hafa smá fyrir því að sjá bleika litinn en á sumum stöðum er samt alveg smá bleikt svæði sem kemur ægilega vel út á mynd.

Bleik slikja í sandinum á Balos strönd

Það eru nokkrar “bleikar” strendur á Krít en það er afar sjaldgæft fyrirbæri, aðeins um 10 slíkar strendur í heiminum ef ég skil það rétt.
Bleiki liturinn stafar af skel af ákveðnu krabbadýri sem er bleik að lit.
Til að komast á Balos er hægt að velja tvær leiðir. Ég mæli með þeim báðum ef hægt er. Það er hægt að keyra þetta auðveldlega ef maður er ekki hræddur við grófan malarveg og brattar hlíðar niður í sjó. Maður lullar þetta bara upp í rólegheitum, útsýnið er geggjað líka ef maður gefur því gaum. Vegurinn endar á bílastæði þaðan sem maður þarf svo að rölta niður á Balos strönd. Áður en maður byrjar að rölta niður hlíðina þarf maður að passa að gleyma ekki að fara út að fjallsbrúninni þar sem maður sér yfir öll herlegheitin. Útsýnið þaðan er eitthvað sem mun sitja í þér að eilífu. Hér er svo sannarlega hægt að ná góðum myndum. Svo tekur við rölt niður að ströndinni. Vesenið hér er svo heimleiðin því eftir heitan dag á ströndinni þarftu að brölta þetta upp aftur í kannski 28-30 stiga hita.

Hin leiðin er svo að leigja bát sem siglir með þig inn að Balos. Frá Kissamos er þetta um 30 mín sigling en um 1,5 klst frá Chania. Fer kannski eftir hvernig bát þú ert á. Þetta er ofsalega skemmtilegt líka því hér sérðu auðvitað eyjuna frá sjó, brunar meðfram bröttum hömrum og endar svo í þessum dásamlega sælureit. Menn stoppa líka alltaf við litla eyju sem er rétt út af Balos strönd. Þar getur maður baðað sig í kristaltærum sjónum eða rölt upp í gamalt virki sem er þarna efst á litlu fjalli. Útsýni þaðan er mjög fallegt. Þú getur líka gert bæði auðvitað. Ég mæli samt með ef maður er ekki í fanta formi að spara röltið og nota það frekar þegar komið er á Balos. Koma sér fyrir og rölta svo upp hlíðina kannski rúmlega hálfa leið og fá þá þetta geggjaða útsýni sem ég talaði um að ofan.

Bleikur sandur og túrkisblátt hafið á Falasarna

Elfonissi er svo enn ein bleika ströndinn og líklega er talað meira um hana en Balos. Alla vega er þetta sú strönd sem þú verður að koma á ef þú googlar Krit. Við ákváðum að sleppa henni, bæði vegna þess að hún er í um klukkutíma og 20 mínútu akstur frá Spilia en líka af því að þar er gríðarlegur ferðamannastraumur og við bara nenntum ekki að standa í því.
Við fórum hins vegar á Falasarna sem var bara í um 30-40 mínútna akstur frá okkur. Líka bleik strönd eins og Balos en mun “rólegri”. Ekki eins mögnuð og Balos en engu að síður með þeim fallegri og meira af þessu bleika. Túrkisblár sjórinn og svo löng ströndin, með hvítum sandi en líka sumstaðar klettum sem ná í sjó fram og mynda litlar víkur og mínístendur sem vert er að elta uppi ef maður vill litla paradís alveg fyrir sig. Það eru bleikir blettir víða og mér fannst bleiki sandurinn meira áberandi en á Balos. Það er svo hægt að leigja sér bekki eða jafnvel eins konar sólskýli með púðum og kósíheit. Mat og drykki er svo hægt að panta frá veitingahúsum sem liggja á stangli meðfram ströndinni. Okkar upplifun hér var frábær og mælum við eindregið með að eyða góðum degi hér líka. Aðkoma einföld á bíl, nóg af bílastæðum, veit ekkert hvernig þú kemst hingað án bíls samt.

Samantekt

En já ég hef þetta ekki lengra að sinni, nógu langt er það nú þegar. Sem samantekt fyrir þá sem nenna ekki að lesa þá er Krít bara dásamleg, sérstaklega í júní en þá er ferðamannastraumurinn ekki farinn af stað. Flogið beint um þessar myndir með Icelandair til Chania.

Matarkúlturinn er frábær, vínin geggjuð, frábærar búbblur líka og já þú finnur amk eitt craft brugghús skammt frá Chania. Náttúran er dásamleg, veður fullkomið og baðstrendurnar þær fallegustu í heiminum að okkar mati. Þarftu meira?