Þetta er einn af mínum uppáhalds réttum á Eriksson Brasserie, ég fæ bara ekki nóg af honum. Hann er sem smáréttur á Eriksson en það má alveg panta tvo í einu. Ég ákvað að fá Sigrúnu mína með í lið og prófa að gera þetta heima. Það tókst glimmrandi vel. Svona gerðum við þetta.
Það sem þarf fyrir 4 sem aðalrétt
- 750 g ferskt gnocchi eða heimagert
- 3-4 skarlottulaukar saxað fínt
- Lúka af steinselju, saxað
- 4 hvítlauksrif rifinn
- 100 til 150 g smjör
- 3 dl hvítvín
- 4 dl sterkt kjúklingasoð
- 250 ml rjómi eða meira
- Sveppir skornir smátt
- Strengjabaunir, skornar í örlitla bita
- Lúka af graslauk skorinn smátt
- Estragon, pipar, hvítlauksduft og salt á sveppina
- Safi úr hálfri sítrónu
- 2 bollar rifinn parmesan
- Svört truffla skorinn þunnt í mandolin
Aðferðin

Við byrjuðum á að skera skarlottulauk (3-4 stk) í smátt og góð lúka af ferskri steinselju er líka skorin smátt. Þetta var svo mýkt í smá olíu og helling af smjöri á pönnu. Svo reif ég yfir þetta með rifjárni 4 hvítlauksgeira. Blanda vel saman á pönnunni.
Næst er það hvítvínið, 3 dl og kjúklingasoðið. Ég hitaði 400ml af vatni og hrærði saman amk matskeið af kjúklingakrafti. Bætti þessu á pönnuna og sauð þetta áfram niður. Það er allt í lagi að pipra aðeins en ekkert salt, þetta varð nefnilega aðeins of salt hjá mér. Kreistið hálfa sítrónu yfir og blandið saman.
Á meðan þetta er að sjóða niður þá er fínt að byrja á sveppunum. Skerið sveppi í smátt, ca ein askja og steikið í slatta af smjöri. Hér má krydda með pipar, salt og ég notaði estragon og hvítlauksduft líka. Þegar sveppirnir eru vel eldaðir bætið þið smátt skornu strengjabaununum út í og mýkið. Það á samt ekki að vera of mjúkt, það má vera smá bit í baununum. Takið til hliðar.
Svo er það bara að bæta rjómanum saman við soðið á pönnunni og láta malla áfram, loks 2 bollar af rifnum parmesan og látið bráðna saman við.
Sjóðið gnocchi, ca 3 mín eða þar til það fer að fljóta upp. Hellið vatninu af og veltið gnocchi upp úr sósunni. Það má líka bara blanda gnocchi saman við sósuna en ég vildi hafa sósuna í lágmarki hjá mér. Setjið svo á disk, hellið sveppa baunablöndunni yfir.
Skerið truffluna í örþunnar sneiðar helst með mandolin yfir gnocchi og klippið svo ferskan graslauk yfir allt.