Magnað Grískt Salat

Salat, er það eitthvað spennandi kann einhver að spyrja? Maður hefur oft hent í salat með steikinni t.d. bara skorið eitthvað grænmeti niður og blandað salat úr Bónus. Ekkert spennandi. Jú jú stundum tekst manni vel til og gott salat er ansi gott. Við vorum á Krít á dögunum og fengum okkur auðvitað grískt salat og það sem var kallað cretan salat og þvílíkt sælgæti. Það kom okkur á óvart hversu ofsalega gott þetta salat var og mig langaði auðvitað að skilja hvernig hægt væri að gera þetta svona gott. Líklega er það hráefnið, það er því miður þannig að hér heima á Íslandi komumst við ekki auðveldlega í fyrsta flokks hráefni, tómatarnir eru frekar döll og það sama má segja um papríkuna og ostinn. Ólífurnar hér eru líka bara grín í flestum tilvikum, í raun skammarlegt að kalla þetta ólífur. Reyndar er hægt að finna innfluttan grískan fetaost ef maður er ofsalega heppinn og í Krónunni má finna góðar ólífur sem kosta samt augun úr. Alla vega, það er mikilvægt að finna góðar ólífur, ekki spara í þær, frekar sleppa að gera salatið. Dressingin skiptir reynda miklu máli og það er vel hægt að bjarga þessu með góðri dressingu. Síðan við komum heim höfum við verið dugleg að prófa okkur áfram og tekist bara nokkuð vel til.

Það sem þarf í salat fyrir ca 4-6

Þetta eru svo sem engin geimvísindi. Fer auðvitað eftir smekk líka en við höfum verið að nota heila gúrku, eina gula papríku, stóra fötu af kirsubejratómötum, hálfan rauðlauk, góðar ólífur og svo einn til tvo fetaostakubba eða einn íslenskan ostakubb sem reyndar er aðeins stærri. Svo viljum við brauðteninga, slatta.

Í dressinguna þar:

  • Safi úr hálfri sítrónu
  • Rauðvínsedik, 1-2 mtsk
  • Ólífuolía, extra virgin, um 3 mtsk
  • Dijon sinnep, 1 tsk
  • Kryddblanda, oregano, chili, papríku duft, salt og pipar. (Við höfum notað gríska kryddblöndu en þetta er cirka það sem er í henni)

Aðferð

Ég hef verið að gera salat vitlaust til þessa, litlir fetaostabitar úr krukku blandað í salatblöndu úr Bónus. Aldrei aftur. Hér er engin salatblanda eða fetabitar úr krukku. Þú þarf helst að hafa mandolin, skerðu gúrkuna á ská í mandolíni þannig að þú færð sporöskulaga sneiðar. Skerðu svo hálfan rauðlauk líka í mandolíni, skerðu tómatana til helminga og paprikuna í bita. blandaðu þessu saman í skál. Bættu brauðteningum og ólífum saman við og blandaðu áfram. Svo er að græja dressinguna, smakkaðu þig áfram með kryddin. Blandaðu svo dressingu saman við salatið. Raðaðu nokkrum gúrkusneiðum meðfram rönd skálarinnar. Taktu svo feta eða ostakubbinn og skerðu hann i tvo þríhyrninga og svo er hægt að skera hvern þríhyrning eftir röndinni þannig að þú færð tvo þríhyrninga úr einum. Legðu ostinn ofan á salatið, skreytið með rauðlauksræmum og slettið svo smá dressingu yfir.

Færðu inn athugasemd