Hin fullkomna Tomahawk steik

Tomahawk steik er í raun bara ribeye með stæla. Ef þér líkar við ribeye eða rifauga eins og þetta heimfærist yfir á íslenskuna þá áttu eftir að elska tomahawk. Steikin er bragðmeiri líklega frá beininu en svo eldar maður tomahawk líka öðruvísi, meiri bruni á grillinu t.d.

Ég hef reynt að gera hina fullkomnu tomahawk síðustu árin. Hún kostar sitt þannig að maður kannski getur ekki æft sig hverja helgi. Stundum hefur hún heppnast vel en stundum ekki. Undanfarið hefur þetta samt verið að ganga vel og mér fannst kominn tími til að skrá þetta niður hér.

Aðferðin

Mér finnst skemmtilegast að gera beina eldun á grilli, ekki reverse sear eins og mikið er talað um. Fyrst er að krydda steikina vel á öllum hliðum. Bara eitthvað gott krydd, pipar, salt ofl. Ég var með truflusalt og pipar núna síðast. Reyndar líka rosmarín krydd. Pressið kryddið vel inn í kjötið á allar hliðar þess, líka þykku fituröndina.

Hitið grillið, reynið að halda hitanum í kringum 200 gráður. Setjið svo steikina á grillið og eldið í um 12 mínútúr. Snúið steikinni á mínútu fresti meðan eldað er, þá meina ég líka upp á rönd. Fitan í kjötinu mun kveikja bál, það er allt í lagi. Það má samt færa kjötið úr eldinum aðeins þegar snúið er. Við þessa aðferð bráðnar fitulagið vel inn í kjötið. Það er allt i lagi þó það komi eins og brunaskorpa á kjötið.

Óbein eldun, næst er að slökka á öllum brennurunum nema einum. Færðu steikina í hornið á grillinu fjærst brennaranum og lækkaðu hitann aðeins. Svo er bara að láta malla undir lokuðu grillinu. Ágætt ef hitinn fer ekki yfir 150 gráður. Snúið svo kjötinu annað slagið þannig að ekki sama hlið snúi alltaf að brennaranum sem er í gangi. Þegar kjarnhiti hefur náð um 51 gráðu takið þið kjötið af og látið hvíla undir álpappír í ca 10 mínútur. Kjarnhiti ætti að hækka um nokkrar gráður og enda í 54 -55 gráðum. Fullkomið medium rare. Ég hef reyndar lent í því ítrekað með marga mismunandi hitamæla að þeir mæla bara eitthvað bull. Treysti meira á að pota í kjötið til að meta.

Við setjum oftast smjörklípu ofan á steikina og rósmaríngrein á meðan hún hvílir undir álpappírnum. Svo er bara að skera stykkið niður í fallegar steikur en halda beininu með, það lítur bara svo vel út. Maður er svo sannarlega að borga fyrir beinið og því um að gera að láta það njóta sín. Hins vega má benda á að til er steik sem menn kalla kúrekasteik eða cowboy steik sem er í raun Tomahawk nema með afskornu rifbeini. Sama kjötið nema ódýrari.

Færðu inn athugasemd