Kaupmannahöfn er líklega með betri borgum í Evrópu fyrir bjóráhugafólk en þar má finna marga áhugaverða staði þar sem bjór er í aðalhlutverki. Warpigs er einn af þessum stöðum sem maður verður að skoða, jafnvel þótt maður sé ekki mikill bjóráhugamaður.

Warpigs er í eigu Three Floyds og Mikkeller sem bæði eru stór nöfn í bjórheiminum. Three Floyds er lítið handverks brugghús í Munster Indiana í Bandaríkjunum. Þeir hafa verið að síðan þeir opnuðu árið 1996 og eru í dag með þekktari bjórgerðum í heimi. Bjór þeirra er vægast sagt ögrandi og gríðarlega vinsæll og hefur unnið til margra verðlauna. Þeir eiga nokkra hype bjóra ss Dark Lord sem slegist er um þegar hann kemur út ár hvert og svo þarf að nefna Zombie Dust sem margir þekkja sem besta Pale Ale í heimi. Það er almennt erfitt að komast í bjórinn þeirra því þeir eru ekki stórir og senda aðeins til nokkurra ríkja í Bandaríkjunum.
Í Evrópu er þannig nánast ómögulegt að komast í Three Floyds bjór. Warpigs bjórinn er bruggaður á staðnum en hann er samt sem áður handverk Three Floyds að hluta til og túlkun þeirra á bjór skín vel í gegn og því kjörið tækifæri að smakka bjór frá þessum köppum í Kaupmannahöfn en á Warpigs eru 22 kranar af geggjuðum bjór.

Mikkeller er svo án efa orðið stærsta nafn á bjórsenunni þegar þetta er skrifað. Það þekkja allir bjórperrar Mikkeller en Mikkeller með Mikkel Borg Bjergsö í broddi fylkingar er sannarlega einn mesti brautryðjandi vandaðs handverksbjórs (craft beer) í veröldinni í dag. Kaupmannahöfn eru höfuðstöðvar Mikkeller og hefur að geyma margar Mikkeller perlur.

Warpigs er staðsettur í „kjötþorpi“ eða k∅dbyen í Kaupmannahöfn, já þú ert að lesa þetta rétt, kjötþorp! Við erum að tala um lítið hverfi eða stórt torg ekki svo íkja langt frá Hovedbanegården (lestarstöðinni) sem samanstendur af helling af kjötbúðum, kjötvinnslustöðum og veitingahúsum sem. Sérhæfa sig í kjöti af öllum toga, Tomma Borgari er meira að segja á staðnum ef maður er í stuði fyrir burger. Það er ekki tilviljun að Warpigs sé mitt í þessari kjötparadís því þeir státa af geggjuðum reykofnum þar sem þeir hægelda bæði nauta- og svínakjöt af ýmsum toga, Texas style. Kjötið er alltaf ferskt og svo fær það að malla í allt að 14 tíma áður en það er framreitt. Það skemmtilega við staðinn er að ef þú ert seinn á ferð geturðu vel lent í því að kjötið sé búið því þeir byrja alltaf daginn með fersku kjöti sem svo bara klárast þegar það klárast sama dag.

Það er ágætt að vita að Warpigs er ekki „fine dining“, hér er öll áhersla lögð á gott hráefni bæði í mat og drykk. Staðurinn er mjög hrár, þú mætir nærð þér í álbakka og ferð að kjötborðinu og pantar þann bita sem þér langar í, það eru nokkrir mismunandi í boði, svo er eitthvað meðlæti og salat einnig með. Þetta færðu svo á álbakkann þinn beint, engir diskar eða slíkt. Loks ferðu að barnum og pantar eitthvað geggjað til að skola þessu niður. Síðan finnur maður sér sæti á trébekkjum í rúmgóðum matsalnum eða ef sólin skín úti á kjöttorginu sjálfu. Það eru svo nokkrar mismunandi sósur á borðunum sem maður getur leikið sér með. Sem sagt enginn dress code, bara að mæta og njóta og muna að kjötið klárast mögulega þegar líður á kvöldið. Ég má svo til með að benda á minn uppáhalds bjór sem oft er þarna á krana, Real Estate Mongol sem er 5 eða 6% pale ale með Citra humlum ofl. Ég held að þetta sé annað nafn á Zombie Dust sem nefndur var hér að ofan. Þegar hann er ferskur er hann með því betra sem maður lætur ofan í sig. Annar sigurvegari er svo Big Drunk Baby. Að lokum er vert að hafa í huga að Three Floyds eru dauðarokkarar inn við beinið og því er stundum heldur hávær músík eða dauðarokk sem yfirgnæfir allt þannig að það getur verið erfitt að fara á trúnó þarna.

Real Estate Mongule