Hollandaise sósa eins og ég geri hana

Mér finnst dálítið mikið vesen að gera þessa sósu, ég geri hana líklega ekki nógu oft. Mér finnst þessi sósa bara ómissandi með hleyptu eggi, t.d. eggs Benedicts en þessi sósa er líka mögnuð með reyktum laxi og á fisk. Það eru til margar uppskriftir og hef ég reynt nokkrar. Hér er sú leið sem ég fer og hefur reynst mér best.

Ég geri oft Bernaise sósu frá grunni og hef einhvern veginn náð bara ákveðinni lagni með hana. Reyndar gerum við hana best þegar við erum saman að gera hana ég og Sigrún mín. Hollandaise sósa er í raun mjög svipuð sósa, nánast alveg eins en samt ekki. Auðvitað meiri sýra og sítróna í Hollandaise. Ég ákvað því bara að gera hana eins og Bernaise.

Það sem þarf fyrir ca 3-4:

 • 3 eggjarauður
 • 150 g smjör, brætt í potti (mögulega þarf ekki allt)
 • ca 2 tsk hvítvínsedik
 • sítrónusafi eftir smekk
 • salt og pipar
 • smá heitt vatn í bolla

Aðferðin:

Ok við byrjum á að einangra eggjarauðurnar (3 stk) í bolla. Bræðið svo smjörið (ca 150g) í potti og takið af hitanum.

Setjið vatn í pott og náði upp hita, ekki láta bullsjóða heldur bara þannig að það rétt bærist vatnið. Setjið hitaþolna skál yfir, ekki láta snerta vatnið. Hafið lægsta hita sem þarf til að halda vatninu heitu. Skálin má ekki verða of heit þá endið þið með hrærð egg.

Pískið eggjarauðurnar stöðugt í smá stund, bætið um 2 tsk hvítvínsediki saman við, pískið áfram þar til þær eru farnar aðeins að þykkna. Ég tók hér pottinn af hitanum, pískið áfram og byrjið að hella smjörinu í mjórri bunu saman við á meðan þið pískið stöðugt. Smjörið má ekki vera heitt. Ef ykkur finnst sósan vera að þykkna um of þá þurfið þið ekki að nota allt smjörið.

Svo má fara að bæta sítrónusafanum við. Smakkið bara til, hversu súrt viljið þið hafa þetta. Pískið stöðugt. Á þessu stigi fer þetta stundum að kekkjast aðeins hjá mér eða verður of þykkt og ég fer í vont skap. Þá minnir Sigrún mig á að ég á eftir að setja heitt vatn saman við. Salt og pipar og svo bætið þig vatni samanvið til að þynna sósuna og losna við kekkina ef þarf…

Svona virkar þetta amk hjá okkur og við fáum frábæra mjúka og djúsí sósu út úr þessu. Ég mæli samt með að þetta sé það síðasta sem þið gerið áður en matur er borinn fram þannig að sósan sé aðeins volg.

Kóríander og basilicu sósa með hvítlauk, hunang og lime

Ég var að grilla geggjuð kjúklingaspjót þegar Sigrún mín ákvað að snara sér inn og græja einhverja sósu. Þetta er útkoman, alveg svakalega flott sósa sem gengur með alls konar. Fullkomin með þessum kjúkling.

Það sem þarf

 • 1 lúkufylli af fersku kóríander
 • 1 lúkufylli af ferskri basilicu
 • hálf dolla grísk jógúrt (350g dolla)
 • ca 100g majónes
 • 2, hvítlauksgeirar
 • 1 tsk hunang
 • safi úr hálfri límónu
 • salt og pipar eftir smekk

Aðferð

Allt sett í „blender“ og maukað þar til orðið algerlega sameinað. Smakkið til með salt og pipar. Flóknara er það ekki.

Ein besta sósa sem til er með kjöti!

Ég má til með að pósta þessu sem sér innleggi.  Við Sigrún, eða Sigrún eiginlega, gerði þessa sósu á síðasta ári með kryddhjúpuðu lambakórónunni sem ég var með.  Sósan er algjört salgæti, líklega með betri sósum sem ég hef smakkað.  Við prófuðum sósuna svo um jólin með Nautalund Wellington og hún algjörlega sló í gegn.  Allir sem ég hef heyrt að hafi prófað þessa sósu eru sammála.  Þetta er geggjað.

Hér er því sósan komin ein og sér í færslu og ég hvet ykkur til að prófa hana með lambi, nauti og jafnvel grís.  Gæti mögulega komið vel út með kjúlla eða kalkún líka?

 • Tasty Rauðvínssósugrunnur (Bónus), 2 pakkar
 • Vatn ca 500 ml
 • Rauðvín, 2-3 dl
 • Skarlottulaukur 3 stk, smátt skorinn
 • Hlynsíróp, 1,2 dl
 • Rifsberjahlaup eftir smekk
 • Soya sósa eftir smekk, 2-3 tsk
 • Rjómi 2,5 dl
 • Ferskt rósmarin , ca tsk af nálum skorið smátt
 • Ferskt timian ca tsk af laufum skorið smátt
 • Smjör, ca 50g
 • salt og pipar

Aðferð:

Ok, þetta tekur dálítinn tíma, gerið ráð fyrir tveim tímum amk.  Setjið rauðvínssósugrunn í pott, ásamt vatni og rauðvíni (2-3 dl).  Sjóðið vel niður ca um helming af vökvamagni (bæta má við vatni eftir þörfum). Mýkjið laukinn, ásamt rósmarín og timían í smjöri á pönnu og setjið svo út í sósuna ásamt hlynsíróp (1,2 dl) og rifsberjahlaup eftir smekk, sojasósu (ca 2-3 tsk) og lofið að malla í góðan tíma á meðalhita.  Bætið svo rjóma (2,5 dl) úti nánast í lokin og látið malla á lágum hita á meðan annað er undirbúið sem þið eruð að elda.  Alveg í blálokin er smjör (ca 50g) sett útí í teningum, pískið vel saman og svo salt og pipar eftir smekk!

Njótið!!!