Skýjaborgin NE IPA T1, það verður ekki ferskara en þetta!

Það er með fagnaðarlátum sem ég kynni til leiks Skýjaborgina frá Borg Brugghús en um er að ræða fyrsta bjór í nýrri tilraunalínu frá brugghúsinu og fær hann því merkinguna T1.  Bjórinn er um 7% New England IPA eða NEIPA sem er sá bjórstíll sem menn eru að tapa sér yfir um heim allan í dag, stundum kallað the „haze craze“ eða skýja æðið því einkennandi fyrir þennan bjórstíl er skýjað útlit hans, oft svo að hann minnir á ávaxtasafa frekar en eitthvað annað.  Nánar um NEIPA stílinn hér.  Borg hefur gefið út nokkrar hugmyndir að merkimiða T- línunnar á fésbókarsíðu sinni en ég hef valið þá útgáfu sem mér finnst flottust fyrir þessa  Tilraunalínu eins og sjá má hér til hliðar.

Skýjaborg

Ef við skoðum merkimiðann nánar má sjá nýtt tákn, TAP ONLY sem þýðir einfaldlega það að þessi bjór kemur bara á krana, ekki á dósir eða flöskur eins og hugmyndin er í dag amk og því verður aðeins hægt að fá tilraunabjórinn á útvöldum börum borgarinnar, og takið eftir, í ofsalega takmörkuðu magni.  Skýjaborgin kemur t.d. bara á örfáa bjórbari og þá bara einn eða tveir kútar á hvern stað ef ég skil Borgar menn rétt.   Merkimiði er því í raun bara svona formlegheit því hann mun ekki fara á neitt svo sem nema ef við einhvern veginn neyðum Borg til að setja þetta í aðrar umbúðir en það er önnur umræða.

Skýjaborgin er alla vega stórkostlegur og algjörlega það sem ég kalla NEIPA en það er þó umdeilt hvort þessi stíll sé til sem eiginlegur bjórstíll og menn deila líka um hvað það sé sem skilgreini stílinn.   Ég á sjálfur erfitt með að skilgreina stílinn en einmitt svona er NEIPA fyrir mér, safaríkur og „djúsí“ með ávaxtablæ og rétt örlítið beiskjubit frá humlunum og svo vil ég persónulega hafa hann skýjaðan og flottan en það er svo sem bara útlitsatriði en samt, það er hluti af upplifuninni ekki satt?

hver þarf „taprooms“, þetta gerist bara ekki ferskara en þetta!

Útgáfa Skýjaborgarinnar er með dálítið sérstöku sniði en þetta er í fyrsta sinn í sögu brugghússins sem bjór kemur eins ferskur og þessi til neytandans og er afar sjaldgæft að svona gerist á Íslandi.  Bjórnum verður nefnilega tappað á kúta á morgun (föstudag), fer svo beint út í bíl og beint á þá bari sem valdir hafa verið og geta tengt strax við dælu hjá sér.  Þetta þýðir að bjórinn verður kominn á krana aðeins nokkrum klukkustundum eftir að honum er tappað á kúta, sem er sérstaklega mikilvægt í þessu tilviki því NEIPA stíllinn krefst þess að bjórinn sé drukkinn eins ferskur og mögulegt er.  Það er nefnilega svona sem bjórgerðarmennirnir hjá Borg vilja að þú upplifir Skýjaborgina.  Erlendis geta bjórsmiðir gert þetta með svo kölluðum „taprooms“ sem eru litlir barir út af brugghúsinu sjálfu og fólk getur þá drukkið bjórinn af krana um leið og hann er tilbúinn frá brugghúsinu.   Ef þið viljið smakka þessa perlu þá er um að gera að fylgjast með á fésbókarsíðu Borgar á morgun og drífa sig á þá staði sem munu dæla þessu því þetta klárast jafnvel á morgun eða hinn.

Founders CBS, einn eftirsóttasti bjór veraldar?

Þið þekkið vonandi öll KBS og velgengni þessa magnaða bjórs, ef ekki þá er um að gera að drífa sig í að bæta úr því.  CBS er svo enn eitt ævintýrið frá Founders, sem lengi vel hefur verið eitt af mínum uppáhalds. Oft er talað um hvíta hvali í þessum efnum (white whale) sem mér finnst í raun ekki réttnefni því hvítir hvalir eru í raun bara alls ekkert sjaldgæfir.  Menn eru líklega að tengja við Moby Dick sem var jú einstakur, hins vegar eru Beluga Hvalir alls ekkert sjaldgæfir og þeir eru hvítir eins og hveiti.  Ég kýs að kalla svona bjór Geirfugl sem kannski er heldur ekki rétt því Geirfulgar eru alls ekki til.  Nóg um það, þessi bjór er alla vega nógu andskoti sjaldgæfur og einn eftirsóttasti bjór veraldar vilja menn meina.   Founders bruggaði þennan bjór fyrst fyrir ansi mörgum árum og varð hann „instant success“.

Sagan segir að þeir hafi bara dottið niður á þessa blöndu þegar þeir komust yfir eikartunnur sem notaðar höfu verið undir þroskun hlyndsýróps og svo bourbon.  Þeir Founders menn ákváðu að prófa að gera KBS uppskriftina (tunnuþroskaður imperial stout), sem þá var orðinn meðal rómuðustu bjórum veraldar, og skella þeim á tunnurnar.   Úr varð þessi magnaði konfektmoli sem þeir kölluðu Canadian Breakfast Stout eða bara CBS.  Bjórinn sló rækilega í gegn.  Founders bruggaði bjórinn síðast árið 2011 og þá í litlu upplagi og kláraðis hann strax og menn börðust hreinlega um síðustu flöskurnar.  Nú 6 árum síðar ákvað Founders, ekki síst vegna mikils þrýstings frá fylgjendum sínum um heim allan, að gera loksins annað batch sem hluta af svo kallaðri Barrel Aged seríu sinni, sem inniheldur tunnuþroskaðan bjór af ýmsum toga.  Bjórinn kom út í lok síðasta árs og var hægt að fá í öllum fylkjum Bandaríkjanna í afar, afar takmörkuðu upplagi og þurftu menn að forpanta aðgang að röðum fyrir útgáfu bjórins á hverjum stað.  Sem sagt, nánast ómögulegt að fá þetta helvíti.   Þessu hefur svo skolað hér á strendur okkar Íslendinga fyrir tilstuðlan Andra og Inga hjá Járn og Gler og verður að teljast álíka undalegt og þegar menn uppgötva á næstu árum að maðurinn hefur aldrei lent á tunglinu.

Þetta er sturlun, CBS mun detta í almenna en takmarkaða, býst ég við, sölu á næstunni en í fyrsta sinn í sögunni hér ætla ég ekki að gefa upp tímapunktinn því ég í minni einskærri græðgi og eigingirni ætla að kaupa þetta allt sjálfur þegar þetta kemur í Vínbúðirnar!

Þess má geta að þessi bjór er svakalega flottur með bóndadags kökunni frá Mosfellsbakaríi þetta árið enda hefur uppáhalds súkkulaðikarlinn minn Hafliði haft hönd í bagga með gerð þessa kræsinga.  Þvílíkt combo!!!

Stærsta bjórsamkoma Íslandssögunnar, Bjórhátíð á Kex dagana 22.-24.2.2018

Nú eru hátíðarnar um garð gengnar og nýtt ár runnið upp og ekkert virðist framundan nema myrkir kaldir vetrarmánuðir, en þá sjáum við ljós í svartnættinu, nýja von, Bjórhátíðin á Kex!  Já Bjórhátíð á Kex er orðin einn af þessum föstu punktum í tilverunni hjá nautnaseggjum og bjórvinum þessa lands og ætti í raun að vera hátíð allra sem áhuga hafa á sjálfstæði einstaklingsin og frjálsræðishyggju.  Bjórhátíð er nefnilega haldin að tilefni „afmæli bjórs á Íslandi“ eins og dagurinn 1. Mars er oft kallaður en það er sá dagur þegar við Íslendingar máttum aftur kaupa okkur bjór árið 1989 eftir langt og heimskulegt bjórbann.   Hátíðin verður nú haldin í 7 sinn dagana 22. – 24. Febrúar 2018 en hún hefur verið að vaxa ört síðustu ár.  Hvert árið hefur slegið árinu á undan út í glæsileika og fjölda brugghúsa og núna 2018 verður hátíðin algjörlega snar geggjuð ef marka má langan og fallegan lista brugghúsa sem munu mæta með bjórinn sinn að þessu sinni.  Þetta er bara eitthvað sem enginn, með einhvern snefil af áhuga á að gera vel við sig, má missa af.

Bjórhátíðin á Kex er eins og bjórhátíðir eru flestar í heiminum í kringum okkur, brugghús mæta með alls konar fljótandi kræsingar, oft eitthvað sem er sérlagað fyrir hátíðina og svo er drukkið og spjallað og haft gaman.  Svona hátíð er kjörið tækifæri til að smakka nýjungar og ögra bragðlaukunum og oft á tíðum uppgötva eitthvað alveg nýtt bragð eða nýjan bjór sem maður vissi bara ekki að væri til.  Það er líka frábært að geta svo rætt við bjórsmiðina sjálfa um hvernig bjórinn varð til eða hvaða hráefni eru notuð ofl en oft er heilmikil saga á bak við bjórinn sem maður er með í glasinu sem stundum er ótrúleg og spennandi.   Upplifunin gjörbreytist þegar maður veit vinnuna á bak við drykkinn.  Ekki nóg með góðan bjór þá verður einnig boðið upp á lifandi músík og snarl.

Þegar þetta byrjaði allt saman fyrir 7 árum þá voru örfá íslensk brugghús sem kynntu til leiks bjórinn sinn en íslenskum brugghúsum hefur fjölgað töluvert síðan og áhugi erlendra bjórsmiða á að koma á Bjórhátíð er orðinn gríðarlegur.  Við erum að tala um að núna í febrúar getur maður smakkað hér á litla Íslandi erlendan bjór sem á stundum er bara ekki hægt að smakka nema kannski beint frá viðkomandi brugghúsi í takmörkuðu magni.  Mörg þessara brugghúsa eru með stærstu nöfnum í bjórveröldinni og bjór þeirra svakalega eftirsóttur.

KEXhatid3
Mynd af Bjórhátíð 2017,eftir Lilju Jóns.  Birt með góðfúsu leyfi Kex

Við megum svo ekki gleyma íslensku brugghúsunum en þau eru að verða verulega áhugaverð og gera mörg hver stórkostlegan bjór.  Í ár erum við að sjá flotta mætingu, við erum með snillingana frá Borg brugghús sem hafa verið með frá upphafi held ég en það er alltaf eitthvað kyngimagnað frá þeim á krana, svo er virkilega spennandi að fylgjast með KEX brewing sem að mínu mati eru meðal þeirra bestu í íslenskum bjór enda virðast þeir bara brugga bjór sem er eins og sniðinn fyrir mig?  The Brothers Brewery hafa hingað til verið að gera skemmtilegan og vandaðan bjór sem vert er að skoða og svo verða glæný brugghús á Bjórhátíð svo sem Lady Brewery sem alveg negldu fyrsta bjórinn, First Lady IPA.  Við munum svo einnig sjá brugghús sem hafa ekki einu sinni hafið göngu sína svo sem Reykjavík Brewing Company og Malbygg en þessi brugghús eru mjög lofandi og munu án efa umturna íslenskri bjórsenu ef ég þekki þessa kappa rétt.  Reykjavík Brewing Company stefnir á að opna núna á fyrstu mánuðum ársins og Malbygg kemur þar fljótt á eftir með opnun í kringum mars apríl ef ég hef það rétt eftir. Smiðjan Brugghús er einnig í smíðum í Vík og mér sýnist þeir vera að stefna á opnun ú sumar. Ég verð að viðurkenna að ég þekki lítið til þeirra sem standa á bak við brugghúsið en það verður gaman að fá að smakka fyrsta bjórinn frá þeim á Bjórhátíð.

Eins og fyrr segir þá er listi brugghúsa langur og spennandi og mörg stór nöfn hafa boðað komu sína.  Það væri ómögulegt að fara yfir þau öll hér svo vel sé enda er stundum bara skemmilegra að vita sem minnst, þannig verða oft skemmilegustu uppgötvanirnar.  Mig langar þó aðeins að skoða erlendu bjórgerðirnar betur.  Hér má sjá listann í heild sinni, 48 brugghús!

TaflaII

Mikkeller, To Øl og BRUS
Þegar við skautum yfir listann sjáum við þarna góðkunningja á borð við Mikkeller, To Øl og BRUS sem flestir ættu nú að þekkja enda hafa þessi dönsku brugghús verið á Kex í nokkur ár, og svo eru þessir gaurar auðvitað á bak við Mikkeller & Friends ReykjavíkMikkeller er einfaldlega eitt stærsta nafn bjórheimsins, ætla ég að leyfa mér að segja, og mun ég ekki fjalla nánar um þá hér enda má lesa um þá víða.  Það sama má segja um To Øl og BRUS (bjórrestaurant rekinn af To Øl) sem hafa verið að vaxa mikið síðustu ár, ég held bara varla að ég hafi smakkað vondan bjór frá þeim?

Lord Hobo
Svo sjáum við hetjur sem voru líka á síðustu Bjórhátíð eins og Lord Hobo, Brewski, Other Half, Collective Arts og Alefarm.  Ég man að öll þessi brugghús slóu í gegn síðast, karlarnir frá Lord Hobo sem koma alla leið frá Boston USA eru álíka skemmtilega ruglaðir og bjórinn þeirra er góður en þeir voru með nokkrar perlur í fyrra, ég man t.d eftir fáránlega djúsí og ljúfum DIPA.   Prófið að ræða við þá, þeir eru kolruglaðir.

Alefarm
Svo var hið danska Alefarm að koma mér verulega á óvart síðast en þeir eru virkilega flínkir í að brugga sveitabjór (saison) og safaríka IPA bjóra sem sæta mikilla vinsælda um þessar mundir.  Þó svo að vera frekar nýtt brugghús þá eru þeir að rísa hratt í bjórheiminum og mikill áhugi er fyrir bjór þeirra á öllum stærstu bjórhátíðum veraldar.  Á síðu Mikkeller segir orðrétt „one of the best things that have happened to the Danish Beer scene the past few years.“.  Stór orð frá stórri bruggstjörnu!

Kexhatid2
Mynd af Bjórhátíð 2017,eftir Lilju Jóns.  Birt með góðfúsu leyfi Kex

Brewsky
Fyrst við vorum að tala um norræn brugghús hér að ofan er rétt að nefna til sögunnar Brewsky sem er sænskst örbrugghús sem vert er að hafa auga með en þeir eru eitt af þessum brugghúsum sem eru að stækka ört og þeir gera fáránlega ljúfa og ávaxtaríka IPA bjóra. Þeir mættu í fyrra og slóu í gegn.  Þó svo að þeir séu ekki á lista yfir top 100 bestu brugghúsa heims á Ratebeer 2016 þá kæmi mér ekki á óvart að sjá þá þar á 2017 listanum sem en er ekki kominn út.  Brewsky stendur m.a. á bak við bjórhátíðina Brewskyval í Helsingborg en þangað mættu mörg flottustu brugghúsa veraldar á síðasta ári.

Talandi um Ratebeer lista, þá er 100 bestu brugghús heims ansi flottur listi til að vera á en valið stendur á milli rúmlega 22.500 brugghúsa víðs vegar um heiminn. Ef þið skoðið listann á Ratebeer þá sjáið þið að  stór hluti þeirra brugghúsa sem eru að koma á bjórhátíð eru á listanum yfir 100 bestu brugghús heims. Flott ekki satt?

Other Half Brewing
frá Brooklyn New York er mér sérstaklega sönn ánægja að fá að kynna til leiks en þetta er eitt af þeim brugghúsum þessa veraldar sem ég er hvað mest spenntur fyrir þessi misserin.  Bjórinn frá þessum meisturum er algjör draumur en þeir gera mikið af safaríkum og þægilegum IPA bjór eða NE IPA eins og menn vilja flokka þá, sem er einmitt sá stíll sem er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana.  Ég er því kannski ekki hlutlaus, hins vegar er bjórheimurinn sammála mér í þessu en þess má geta að Other Half voru valdir 7. besta nýja brugghús heims á meðal rúmlega 3800 brugghúsa á Ratebeer 2015 og núna sitja þeir í 10. sæti yfir bestu brugghús veraldar á Ratebeer (2016 listinn).  Það verður að teljast nokkuð gott ekki satt? Hvort sem það er safaríkur IPA, spriklandi saison eða ögrandi súrbjór þá er það allt saman gott.  Já það er vert að smakka bókstaflega allt sem þessir gaurar koma með á Bjórhátíð 2018, þetta er sjaldgæft tækifæri.

Cloudwater Brewing
Á þessum sama lista liggur breskt brugghús í 5. sæti, Cloudwater brewing sem staðsett er í Manchester UK.  Þessir gaurar hófu starfsemi sína á sama tíma og Other Half árið 2014 og hafa náð álíka árangri.   Sjálfur hef ég smakkað lítið frá þeim en það sem ég hef komist yfir hefur verið virkilega vandað og gott.  Ég mun klárlega mynda röð við Cloudwater básinn á komandi hátíð og vera með læti, mikið hlakka ég til.

De Garde Brewing
Talandi um 10 bestu brugghús heims, þá er De Garde Brewing nr 7 á þeim lista.  Hvað er í gangi hérna eiginlega, er þetta ekki litla Ísland sem við erum að tala um annars?  De Garde bruggar bjór á eins náttúrulegan máta og hægt er.  Þeir sérhæga sig í sjálfgerjuðum bjór (spontant fermented) af belgískum toga og nota aðeins villiger og þá er ég ekki að tala um einangrað ræktað villiger, nei ég er að tala um villiger sem fyrirfinnst í andrúmsloftinu í kringum brugghúsið í Oregon USA, rétt eins og menn gera í Cantillon í Brussel.  Til þess notar þeir svo kallað kæliskip eða coolship þar sem soðinn kældur bjórvökvinn er látinn standa á meðan örverur allt í kring lenda í vökvanum og byrja að gerja hann.  Við erum að tala um bakteríur og gersveppi sem gefa frá sér sérstakar bragðflækjur sem sumir kalla súrt og „funky“.   Bjórinn er svo fluttur yfir í eikartunnur og látinn þroskast þar frá 3 mánuðum og upp í rúmlega 3 ár áður en hann fer á flöskur.  Þar hefst svo önnur gerjun sem kolsýrir bjórinn á náttúrulegan máta.  Já þetta er sannkallað „craft“.

Bokkereyder
Svo er það Bokkereyder, lítið belgískt ævintýri sem frábært er að fá að taka þátt í á komandi hátíð.  Þetta er lítið brugghús, líklega það minnsta á komandi hátíð og nokkuð óþekkt þangað til bara nýlega þegar það var valið besta nýja brugghús heims 2016 á Ratebeer á meðal 6500 nýrra brugghúsa . Ég hef ekkert smakkað frá þeim fram til þessa en það mun breytast núna í febrúar.   Það er Raf Souvereyns sem stendur fyrir Bokkereyder en hann er mikill áhugamaður um sjálfgerjaðan villibjór eða lambic sem Belgar eru svo frægir fyrir.  Þekktustu lambic brugghús veraldar eru án efa Cantillon og 3 Fonteinen en Bokkereyder er smám saman að skipa sér sess meðal þeirra bestu.  Þetta verður líklega það erlenda brugghús sem mun koma mest á óvart á Kex hátíðiðinni þetta árið?

The Veil Brewery
er svo annað nafn sem fær bjórnörda þessa heims til að nötra af spenningi, ég skelf alla vega.  The Veil hófu framleiðslu sína í Richmond Virginia í Bandaríkjunum árið 2016 og voru svo valdir þriðja besta nýja brugghús heims á ofan töldum lista á Ratebeer.  Þeir sérhæfa sig í og brugga eingöngu IPA og DIPA sem er sá bjórstíll sem vinsælastur er meðal bjóráhugafólks.  Þetta er frábært, hér gengur maður að því vísu að fá góðan IPA og ekkert rugl.  Ég skal segja ykkur að þó ég sé að fara mynda röð við Cloudwater básinn þá mun ég finna leið til að mynda enn lengri röð við The Veil básinn, þetta verður rosalegt.  Hér er smá upphitun fyrir ykkur (https://theaudienceawards.com/films/the-veil-brewing-company-130253)

Civil Society Brewing
Ef við höldum áfram niður lista bestu nýju brugghúsa heims 2016 þá er í 5. sæti fjölskyldubrugghúsið Civil Society Brewing sem ætla mætti að væri frá öðrum hnetti en það er staðsett í Jupiter Florida, hvar sem það nú er?  Brugghúsið einblínir á vel humlaðan bjór ss IPA og DIPA en það er jú það sem við viljum ekki satt?  80% af framleiðslunni fer alla vega undir humlaðan bjór.  Þetta brugghús mun án efa verða eitthvað!

Mig langar svo að nefna hér til sögunnar í lokin People Like Us sem er nýtt danskt brugghús sem hefur þá sérstöðu að vera rekið af fólki með Einhverfu.  Mikkel Borg (Mikkeller) hefur verið þeim mikill stuðningur og á stóran þátt í því að brugghúsið er komið á ról og farið að selja bjór sinn á danskan markað.  Skemmtileg pæling og vonandi góður bjór!

Já þegar maður skoðar þetta nánar má sjá að viðburðurinn er ekkert minna en stórkostlegur og alveg á pari við flottustu bjórhátíðir heims.  Þetta varður epískt.  Ég tek það fram að það eru mörg önnur virkilega spennandi brugghús sem ég hef ekki nefnt hér, bara vegna tímaskorts.  T.d. J Wakefield, Lamplighter, Surly, Collective arts ofl.  Æ þetta er allt magnað. Hlakka til að sjá ykkur!!!

Sumarlegur áramótabjór frá Kex brewing

Ég smakkaði nýjan fallegan bjór frá Kex brewing í gær sem þeir kalla Forbidden Fruit eða Forboðnir ávextir.  Um er að ræða 4% bjór af gerðinni gose sem er „ketilsýrður með helling af íslensku skyri.

Gose stíllinn er í sinni hreinu mynd ævaforn þýskur bjórstíll sem jafnan er töluvert súr en með söltum undirtón.  Bjórinn minnir þannig nokkuð á belgísku súrbjórana gueuze og lambic eða þýska Berliner weisse

Forboðnir ávextir er hins vegar hlaðinn ávöxtum af bestu sort, ástaraldin, yuzu og mangó og erum við því að tala um algjöra ávaxatombu sem sumum gæti þótt líkari ávaxtasafa en bjór.  Súri keimurinn sem einkennir gose stílinn er mjög látlaus líklega vegna ávaxtasætunnar sem tónar þetta niður. Bjórinn verður þannig auðdrekkanlegri fyrir fjöldann en á sama tíma ekki eins krassandi fyrir hörðustu bjórnördana þar sem mottoið er oft á tíðum  „því súrara því betra“.  Bjórinn er hins vegar ofsalega þægilegur, algjör svaladrykkur eða session bjór eins og stundum er sagt og maður finnur alveg fyrir látlausum skyr undirtón.  Fyrir mína parta er þetta geggjaður sumarbjór en gengur einnig sem flottur fordrykkur t.d. í áramótaveislunni.  Svo er spurning hvað myndi gerast ef hann væri notaður í kokdilli?

Forbidden Fruit er held ég ekki titlaður sérstakur áramótabjór en hann er að koma núna út rétt fyrir áramótin og hvað er það þá annað en áramótabjór? Mér skilst að þetta sé fyrsti bjórinn í „ávaxtalínu“ brugghússins og því er spennandi að sjá hvað kemur í framhaldinu frá þeim.  Ætti að vera fáanlegur á krana á Kex Hostel og Mikkeller & Friends frá og með deginum í dag!!!

Best fyrir 2018 Nr.C12 er áramótabomban frá Borg og The Brothers Brewery 2017

Þá er hann kominn í verslanir, áramótabjórinn frá Borg brugghús 2017 sem að þessu sinni er samstarf milli Borg og The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum sem er spennandi lítið brugghús á uppleið.  Bjórinn heitir Best fyrir 2018 eða BF2018 Nr. C12 og er númer 12 í röð samstarfsverkefna Borgar.  Nafngiftin er skemmtileg og bráðsniðug því hún auðveldar manni allar ákvarðanatökur á borð við hvort maður eigi að spara bjórinn og hvenær eigi að drekka hann.  Boðskapurinn er í raun bara að drekka þetta sem fyrst því það eru gæði í húfi, vilji maður svo fara alveg eftir ábendingunum þá hefur maður sem sagt 5 daga til stefnu.

Stíllinn er ávaxtaríkur skýjaður IPA sem sumir myndu kalla New England IPA (NEIPA) og er bara alls ekki galið því að mínu mati er þetta einmitt í anda þess konar bjóra, „djúsí“, „hazy“ og humlaður.  Þetta er virkilega flottur bjór og minnir dálítið á Midt Om Natten sem kom út bara rétt fyrir um tveim vikum eða svo nema hvað að þessi er aðeins meiri af styrkleika með sín 7.6% áfengis, enda er þetta áramótabjór ekki satt?  Skreytingarnar á merkimiðanum eru einnig vel lukkaðar og smell passa við áramótastemninguna, svona glansandi með áberandi litum og silfri.   Mér fannst t.d. eins og bjórinn væri hluti af borðskreytingunni á myndinni hér að ofan.  Það er Perla nokkur Kristins sem á heiðurinn að þessu en ég þekki svo sem engin deili á henni frekar nema hvað að hún er augljóslega fær á sínu sviði.

Bjórinn er ljúfur og mildur og maður finnur lítið fyrir áfenginu.  Safaríkir og blómlegir humlar gefa notalegan ávaxtakeim og áferð.  Þægilegt gos og svo alveg hæfileg beiskja, alls ekki mikil.   Þetta er bjór sem ég held að margir verði ástfangnir af.  Það er hins vegar ekkert víst að allir fái að smakka því bjórinn er framleiddur í takmörkuðu magni.  Maður verður samt að passa sig á að hamstra ekki í Vínbúðinni því það þarf jú að drekka þetta sem fyrst…ekki geyma!

Varðandi matarpörun!  Ég held að þessi karl komi vel út með öllu þessu þunga og fituga sem við erum með á áramótunum.  Beiskjan og humlarnir vinna vel á móti fitu og djúsí sósum og svo er þessi létti ávaxtablær skemmtilegur með t.d. kalkúninum eða hamborgarhryggnum.  Ég ætla amk sjálfur að prófa með áramótakalkúninum!

Gleðilegt ár!

Sturlaður viðburður á Mikkeller & Friends Reykjavík. Goðsögn í bjórveröldinni á klakanum!

Mig langar að segja ykkur frá dálitlu sem er alveg að fara gerast bara rétt handan við hornið, jú það eru að koma jól það er svo sem eitt og sér bara dásamlegt en það sem ég vildi nefna hér er að þessi jól, jólin 2017 munu líklega verða þau ljúfustu jól sem undirritaður hefur lifað.  Ég held meira að segja að fleiri muni deila þessari skoðun minni og hverjum er það svo að þakka?  Jú Steini og Co á Mikkeller & Friends Reykjavík eru að fara bjóða okkur í veislu og ekki bara veislu heldur veizlu með z-tu.  Ég ætla hér og nú að vera djarfur og leyfa mér að segja að þetta er bara það allra merkilegasta sem ég hef upplifað í íslenskri bjórsögu.  Já ekki dæma mig strax, menn verða að lesa aðeins áfram, ok ég viðurkenni samt að Bjórhátíðin á Kex 2018 verður líka svakaleg en hún kemur síðar.

Alla vega þann 23. Desember, eða á sjálfum heilaga Þorláki munu Reykvíkingar geta smakkað einns sögufrægasta bjór veraldar á Mikkeller & Friends Reykjavík frá Alchemist í Bandaríkjunum.  Við erum að tala Heady Topper sem er líklega einn umtalaðasti og eftirsóttasti bjór veraldar enda dæmdur besti bjór í heimi marg oft á mörgum vettvöngum.  Heady Topper hefur meira að segja verið bendlaður við að vera fyrsti New England IPA sögunnar og sá bjór sem lagði línurnar fyrir þennan stíl ef stíl má kalla.  Já sumir eru svo sem ekki sammála en það eru hins vegar allir, og þá meina ég allir sammála því að þessi bjór er frábær og jafnvel það besta sem menn hafa smakkað.  Nú er það svo að undirritaður hefur ekki smakkað þennan bjór sjálfur enda er það bara nánast vonlaust nema að þekkja réttu krókaleiðirnar.  Trúið mér, þessi bjór hefur verið á óskalista í mörg ár og það er kannski það sem gerir það að verkum að þessi viðburður fer efst á lista hjá mér í heimi bjórviðburða. Bjór & Matur getur ekki verið þekkt fyrir annað en að hafa smakkað frægasta bjór bjórsögunnar!  Mikið hlakkar mér til að loksins fá að smakka þetta undur.  Já og ekki nóg með það, Heady Topper er ekki eini bjórinn sem verður í boði frá Alchemist heldur verður líka hægt að nálgast dósir af Focal Banger sem virðist vera að taka við vinsældarkeflinu af Heady Topper og svo Beelzebub sem er geggjaður Imperali Stout skv alnetinu.

the-alchemist-focal-banger-pourÞetta verður veisla, Þorláksmessu veizla, gleymdu skötunni, gleymdu öllum Þorláksmessu hefðunum og byrjaðu jólin snemma á Mikkeller, það ætla ég amk að gera.  Ég held líka að við ættum öll að taka ofan af fyrir Steina og co hjá Mikkeller & Friends Reykjavík fyrir að gera þetta mögulegt og lyfta bjórmenningu þjóðarinnar á æðra plan!  Takk fyrir okkur Steini!

ATH myndir í þessum pistli voru teknar af alnetinu via google!

Loksins alvöru safaríkur NEIPA á Íslandi í Vínbúðirnar, Midt Om Natten frá Borg og Flying Couch

Ég hef verið að bíða eftir þessu núna í nokkarar vikur og nú er hann loksins kominn á flöskur.  Midt om Natten frá Borg og Flying Couch í Kaupmannahöfn, sumir  sjá hér tenginguna strax við nafnið ekki satt? Ég ætla bara að taka það fram strax að ég er afar hrifinn af New England bjórstílnum um þessar mundir og því hefur biðin eftir þessum verið þrungin spennu og dálitlu stressi líka því ég geri miklar kröfur á þennan stíl.  Ég smakkaði svo loksins bjórinn beint af gertanki fyrir að verða tveim vikum og þá var hann rosalegur, ferskur og spriklandi með þennan ljúfa safaríka ávaxtakeim frá humlunum í nefi og svo einstaklega hressandi og ánetjandi humalbragð í munni með haug af ávöxtum og hamingju.

Ég fór hins vegar strax að hafa áhyggjur því þessi bjórstíll er mjög viðkvæmur fyrir tímans tönn, bjórinn er eiginlega nánast byrjaður að, ég segi ekki skemmast en, tapa gæðum um leið og hann er kominn á flöskur.   Humlarnir eru nefnilega í aðalhlutverki í þessum stíl og er það sem gerir þennan bjórstíl svo magnaðan, humlarnir gefa af sér alla þessa safaríku og flottu ávexti sem er það sem við elskum við stílinn en vandinn er bara sá að humlarnir eru viðkvæmir og missa „mátt“ sinn mjög fljótt.  Það þarf því að drekka þennan bjór eins fljótt og hægt er.   Sumir myndu segja lúxusvandamál ekki satt?  Ég var sem sagt hræddur um að þegar Midt Om Natten loksins kæmi á flöskur að þá væri ballið búið en ég er svo ánægður með að svo er aldeilis ekki.  Bjórinn er enn svona flottur og ferskur og hefur ekki tapað neinum gæðum.

Það er því um að gera að drífa sig í Vínbúðina þegar bjórinn kemur út á næstu dögum og næla sér í þetta salgæti, þ.e.a.s ef planið er að smakka, og Guð minn góður ekki geyma og láta þroskast.

Kexmas session IPA frá Kex Brewing!

Jólabjórarnir eru farnir að flæða á markaðinn og um nóg að velja.  Flest allt frekar vont samt eða afar óspennandi.  Það eru þó nokkrir bjórar þarna úti sem eru áhugaverðir.  Kexmas er fyrsti jólabjórinn frá KEX brewing og hann flokkast hér formlega sem áhugaverður.  Þegar við tölum um jólabjór þá er vissulega engin regla í þeim efnum.  Hvað er jólabjór, það er alls ekki auðveld spurning og líklega ekki neitt svar til.  Fyrir mörgum er jólabjór bara bjór sem kemur út um jólin og bara um jólin og er í sjálfu sér nóg til að vera flokkaður sem jólabjór.  Fyrir aðra, t.d. mér persónulega, þá er jólabjór líka dálítið sætur og öflugur og helst má hann hafa einhverja jólatóna í bragði.

Kexmas er virkilega flottur og vandaður 4.8% session IPA bruggaður með slatta af mosaic og citra humlum sem hafa verið dálítið inn undanfarin ár enda geggjaðir.  Þetta eru humlar sem gefa okkur dálítið suðræna ávaxtatóna og svo auðvitað notalegan sítrus keim sem minnir oft á furunálar…..sem er jólalegt ekki satt?   Session þýðir einfaldlega bjór sem er auðdrekkanlegur, maður getur sem sagt hæglega þambað marga í röð.  Session bjór á það stundum til að vera dálítið óspennandi ef menn vanda ekki til verks, en KEX mönnum tekst hins vegar að gera þennan bjór bæði þægilegan, einfaldan en samt spennandi.  Þetta er bjór fyrir fjöldann en samt mun hann held ég kæta hörðustu bjórnerðina.  Eftirbragðið er svo alveg dásamlegt, þar koma humlarnir fram þurrir og beiskir og gæla við bragðlaukana.  Ég er virkilega sáttur við þennan bjór en það eina sem truflar mig er að ekki er hægt að fá hann með sér heim.  Hann ku aðeins vera fáanlegur á krana á helstu börum og pöbbum borgarinnar næstu vikurnar, ss Kex, Mikkeller & Friends, Skúla Craft Bar, Skál ofl.

Kex Brewing
Það er tímabært að fjalla aðeins um Kex Brewing og alveg tilvalið að gera það hér undir umfjöllun um fyrsta jólabjór brugghússins.  Mér finnst alltaf dálítið óþægilegt að tala um „brugghús“ þegar ég fjalla um bjórgerð af þessum toga því í raun er ekki um brugghús að ræða í þeim skilningi.  Kex Brewing er nefnilega ekki með neina fastformaða yfirbyggingu þar sem þeir brugga bjórinn sinn heldur fá þeir afnot af tækjabúnaði í öðrum brugghúsum víða um land.  Svo kallaðir farands bruggarar eða gipsy brewers.  Þekktasta farandsbjórgerðin er án efa Mikkeller sem nú er orðið eitt stærsta bjórveldi heims bara svona til að setja hlutina í samhengi.

Kex brewing var stofnað árið 2016 og er í eigu Kex og Bjórakademíunnar en heilarnir á bak við bjórgerðina eru þeir Hinrik, Eymar og Steini, allt miklir bjórnördar með svakalegan bakgrunn í gourmet heiminum.  Steini er gamall félagi sem við þekkjum öll frá Microbar á sínum tíma en er nú sá sem öllu stjórnar á Mikkeller & Friends Reykjavík. Steini er mikill bjórperri með flotta pallettu sem alltaf er hægt að treysta þegar á reynir.  Eymar er líklega viðkunnulegasti náungi sem ég hef hitt og líklega með flinkustu heimabruggurum landsins áður en hann fór í „pro“ brewing, menn geta ekki klikkað með svona mann innanborðs.  Svo er það Hinni matreiðslumeistarinn með bjórvitið en  Hinni er sá sem stendur í brúnni á Kex Brewing um þessar mundir auk þess að vera rekstrarstjóri á Hverfisgötu 12.  Hinni er einfaldlega snillingur í eldhúsinu með svakalega pallettu og þessi maður kann sko bjórinn sinn líka.  Ef einhver getur parað bjór og mat þá er það svona gaur.

Kex Brewing er fyrsta farandsbrugghús Íslands, þeir hafa bruggað hér og þar og með hinum og þessum á þessum fáu árum sem þeir hafa verið til staðar.  Þetta flakk þeirra byrjaði eiginlega með „legendary“ samstarfsbruggi (Collab) með Surly brewing í skúr einhverstaðar útí bæ í tengslum við Bjórhátíðina á Kex 2015.  Síðan hafa þeir bruggað á flestum brugtækjum landsins og gert ótal samstarfsbrugg með stjörnum á borð við WarPigs, Collective Arts, Brus, Brewski og 18th Street svo eitthvað sé nefnt.  Lítil fluga í formi Hinna laumaði svo að mér að meira samstarf væri í sjónmáli og má þar nefna eitt af mínum uppáhalds, The Other Half brewing frá Brooklyn New York. Ef þið þekkið ekki þessi frábæru brugghús þá er um að gera að kíkja á Bjórhátíð á Kex 2018 en flest ef ekki öll þessi nöfn verða meðal brugghúsa á hátíðinni á næst ári.

Já það er óhætt að segja að Kex Brewing sé eitt af mínum uppáhalds íslensku bruggúsum um þessar mundir og spennandi að sjá hvað framundan er og vonandi verður hægt að fá eitthvað af þessum samstarfsbruggum heim á klakann….t.d. Other Half dæmið maður minn!

Hrefna 40.1 Moscatel Roxo tunnuþroskað belgiskt sterköl á köldu vetrarkvöldi

Ég veit ekki hvort þið munið eftir Hrefnu #40 frá Borg, belgian strong ale bruggaður með krækiberjum sérstaklega fyrir Grillmarkaðinn.  Mig minnir þetta hafi verið fyrir ári síðan eða rúmlega það kannski.  Það er líklega enn hægt að fá flösku á Skúla Craft bar eða Grillmarkaðinum og er vel þess virði að prófa enda flottur bjór.  Nú er svo kominn ný Hrefna,  Hrefna 40.1 sem er 11% belgian strong ale tunnuþorskaður í 10 mánuði á Moscatel Roxo tunnu.  Já og hann er líka bruggaður með íslenskum krækiberjum.  Nú eru kannski ekki allir að drekka Moscatel á hverjum degi, ég veit að ég geri það alls ekki en sá drykkur er af portúgölskum uppruna og er styrkt eftirétta vín oftast yfir 60% áfengis, gert er úr hinni hvítu sætu Moscatel vínþrúgu.  Roxo er svo afbrigði Moscatel vínþrúgunnar sem er dálítið bleik að lit og ku vera gríðarlega sjaldgæf ef marka má internetið!

Roxo Moscatel from Setúbal 17-17,5/20 or 92-94/100 pts 0.75l images

Hrefna 40.1 er tær og falleg í glasi með koparlituðum blæ ekki ósvipað Moscatel drykknum sjálfum.  Það er mikil lykt úr glasinu, krydd og sætir tónar, jafnvel hunang og appelsína?  Í munni er mikil vínleg sæta og töluverður áfengisbruni með sætum heitum undirtón, hunang jafnvel! Mér finnst ég finna krækiberin alveg í blá restina en kannski er það bara af því að ég veit af þeim þarna?  Já þetta er  áhugaverður bjór vægast sagt og hann hitar mann án efa upp að innan.
Ég held að menn verði að nálgast þennan bjór fyrir það sem hann er, öflugur belgískur stong með áberandi áhrif frá tunnunni, alls enginn svaladrykkur.

Hrefna 40.1 kemur út í afar afar litlu upplagi og fer bara á valda bari og líkast til Grillmarkaðinn.  Þannig að ef fólk vill sjokkera sig aðeins þá þarf að hafa dálítið fyrir því!

Hurðaskellir frá Borg kemur með látum! Svakalegur!!!

Það er orðin rík hefð meðal bjórframleiðenda hér heima að brugga eitthvað spennandi og gómsætt fyrir jólin, Jólabjórinn!  Já það er alltaf nokkuð tilhlökkunarefni bjórnördsins að sjá hvað eða hvernig bjór kemur í aðdragandi jóla.  Sumir fara öruggu leiðina og gera alltaf sama bjórinn, sem er í lagi ef hann er góður, á meðan aðrir eru stöðugt að koma okkur á óvart með nýjum uppátækjum.  Þetta er svo sem ekki íslensk uppfinning, síður en svo en það er bara algjört aukaatriði.  Borg Brugghús hefur til þessa alltaf gert nýjan jólabjór undan farin ár og skírt í höfuðið á jólasveinunum okkar 13.  Giljagaur muna sumir eftir en hann hefur fest sig í sessi sem árlegur jólabjór frá brugghúsinu og hjá mörgum, þmt undirrituðum, orðinn ómissandi hluti af jólahaldinu.  Ekki skemmir svo fyrir að mikið af Borg bjórum henta vel til geymslu og þroskunar og taka þannig skemmtilegum breytingum þegar árin færast yfir. Giljagaur er þannig bjór og er nú orðið hefð hjá mörgum að opna árs eða tveggja ára Giljagaur á jólunum og bera saman við nýja Giljagaurinn.   Ég á t.d. alltaf amk árs gamlan gaur í skáp.

gilli2

Hurðaskellir er svo nýjasti jólabjórinn frá Borg og margir geta reiknað út að það eru 7 eftir ókomnir frá brugghúsinu þannig að við eigum amk 7 spennandi ár framundan.  Hurðaskellir er svakalegur enda mikill jólasveinn sem kemur með látum.  Það er óhætt að segja að Hurðaskellir komi með látum.  Við erum að tala um 11.5% Imperial Porter sem er þroskaður á rúgvískítunnum.   Munurinn á porter og stout er svo efni í heilmiklar pælingar, imperial porter stendur á flöskunni og þá er þetta imperial porter frekar en stout.

Það fyrsta sem maður tekur eftir er þessi lykt, hún er hreint út sagt ótrúleg, það er mikil sæta og súkkulaði með dálitlum kókoskeim.  Rom og rúsínur koma upp í hugan þó svo að hvorugt sé í þessum bjór.  Æðislegt.  Í munni er bjórinn strax mikill með notalegum hita frá áfenginu án þess þó að maður finni truflandi spritt.  Þessi 11.5% koma því vel út og eru skemmtilega falin á bak við sætan rúgvískíkeim og svo er ögn vanilla og kókos líklega frá tunnunni sem þó ná engum hæðum því það kemur fram ögn kaffirist í restina.   Bjórinn er þó ekki eins mjúkur og mikill í munni eins og lyktin gefur dálítið til kynna.

Þetta er einfaldlega magnaður bjór sem kemur væntanlega í búðir 15.11. og þá sennilega í litlu magni.  Þetta er eins og Giljagaur kjörinn bjór til geymslu og verður gaman að sjá hvernig hann verður 2018 eftir ár í skápnum.